fbpx
Mánudagur 28.apríl 2025
Fókus

Hvernig varð 17. júní til?

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 17. júní 2023 10:00

Frá 17. júní 2020

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og flest vita er í dag 17. júní, þjóðhátíðardagur Íslands.

Mörg hver standa í þeirri meiningu að verið sé að halda upp á að Ísland hafi orðið sjálfstætt ríki þennan dag árið 1944. Þá var reyndar Ísland löngu orðið fullvalda ríki en það gerðist 1. desember 1918.

Þann 17. júní 1944 varð Ísland að lýðveldi. Konungur Danmerkur var ekki lengur þjóðhöfðingi Íslands heldur skyldu Íslendingar hafa eigin forseta sem þjóðhöfðingja. Það sem breyttist var stjórnskipan Íslands en með fullveldinu 1918 varð landið með formlegum hætti sjálfstætt ríki. Vissulega fagna Íslendingar þó sjálfstæðinu á 17. júní en ekki eingöngu stofnun lýðveldisins en formlegt sjálfstæði kom hins vegar ekki til sögunnar á þessum degi.

Þessi dagsetning varð fyrst og fremst fyrir valinu vegna þess að 17. júní 1811 var fæðingardagur eins helsta forystumanns Íslendinga á 19. öld. Þessi maður sat í stafni krafna Íslendinga um sjálfstæði og markaði þá sýn að Ísland ætti að verða sjálfstætt nútíma ríki. Hér er að sjálfsögðu átt við Jón Sigurðsson frá Hrafnseyri við Arnarfjörð.

Nanna Kristjánsdóttir sagnfræðingur segir frá því á Vísindavef Háskóla Íslands að raunar hafi fyrst verið haldið upp á 17. júní áður en sjálfstæðið varð að veruleika. Það var fyrst gert 1886 en sú hátíð var á vegum einkaaðila. Fyrst var hins vegar haldið veglega upp á daginn 1907 með lúðraþyt og ræðuhöldum á Austurvelli. Um helmingur þáverandi íbúa Reykjavíkur var viðstaddur. Hátíðir voru einnig haldnar á Ísafirði og Akureyri.

Hundrað ára afmæli Jóns, árið 1911, var minnst með veglegustu hátíðinni hingað til með m.a. hátíðarsamkomu í Reykjavík, skrúðgöngu og þá var blómsveigur lagður að leiði hans. Þennan dag var Háskóli Íslands settur í fyrsta sinn og bláhvíta fánanum, sem var tillaga Einars Benediktssonar skálds að þjóðfána Íslands, var flaggað.

Núverandi þjóðfáni Íslands að ofanverðu og bláhvíti fáninn að neðanverðu

Sambærileg dagskrá fór fram víðar um land og í Íslendingabyggðum Kanada. Farið var í kjölfarið að tala víða um 17. júní sem þjóðhátíðardag. Næstu árin stigmagnaðist baráttan fyrir fullveldinu sem átti eflaust þátt í að festa 17. júní í sessi sem hátíðisdag.

17. júní hefur betur

Eftir að fullveldið var í höfn frá 1. desember 1918 var sá dagur þjóðhátíðardagur Íslendinga og hafði meira vægi sem slíkur en 17. júní en þó var enn haldið upp á báða dagana. Haldið var upp á 17. júní mest utandyra en 1.desember innandyra af skiljanlegum ástæðum. Skemmtanir, samkomur og fleira fór fram á báðum þessum dögum.

Nanna telur líklegast að vægi 17. júní hafi aukist smám saman á kostnað 1. desember ekki síst vegna þess að auðvekdara var að halda upp á fyrrnefnda daginn utandyra.

Eftir að íslensk stjórnvöld lýstu því yfir 1945 að 17. júní væri eftirleiðis formlegur þjóðhátíðardagur Íslands var í raun 1. desember ýtt til hliðar sem degi þar sem Íslendingar fögnuðu sjálfstæðinu.

Nanna segir að hátíðahöld á 17. júní hafi nokkuð breyst síðan fyrst var haldið formlega upp á daginn.

Áður fyrr hafi verið mikil andakt yfir deginum, sögulegur bakgrunnur hans í hávegum hafður, skemmtun hin siðsamlegasta og áfengisneysla í lágmarki. Með tímanum hafi dagurinn farið að snúast meira um skemmtidagskrá, leiktæki, tónleika og meiri drykkju en áður. Þó sé ekki vafi á að dagurinn sé og hafi verið mikill hátíðisdagur í hugum Íslendinga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Birgitta Líf og Enok hætt saman

Birgitta Líf og Enok hætt saman
Fókus
Fyrir 2 dögum

Birti nektarmynd eftir að rifrildi við tengdamömmuna virðist hafa blossað upp á ný

Birti nektarmynd eftir að rifrildi við tengdamömmuna virðist hafa blossað upp á ný
Fókus
Fyrir 4 dögum

Móðir Timothée Chalamet um hvað henni finnst í raun og veru um Kylie Jenner

Móðir Timothée Chalamet um hvað henni finnst í raun og veru um Kylie Jenner
Fókus
Fyrir 4 dögum

Stærðfræðiþrautin sem gerir fólk alveg vitlaust – Þú mátt bara bæta einu striki við

Stærðfræðiþrautin sem gerir fólk alveg vitlaust – Þú mátt bara bæta einu striki við