Það getur verið flókið að sameina fjölskyldur en það hefur gengið vonum framar hjá útvarpskonunni Kristínu Sif Björgvinsdóttur og unnusta hennar, tónlistarmanninum Stefáni Jakobssyni.
Þau eru orðin sjö manna fjölskylda. Kristín Sif á tvö börn og Stefán á þrjú börn, þannig það er óhætt að segja að það sé nóg að gera.
„Það er brúðkaup í haust og svo er ferming á hverju ári næstu fjögur árin,“ segir hún í nýjasta þætti af Fókus.
„Þau eru ótrúlega góðir vinir. Ég hefði ekki trúað því hvað þetta væri lítið mál, það er eiginlega alveg ótrúlegt […] Ég á fjögur systkini en mig hefði aldrei grunað að ég myndi eiga fimm börn. Sem betur fer þurfti ég ekki að ganga með fimm börn, því mér fannst ekki gaman að vera ólétt,“ segir hún hlæjandi.
„Þetta er dásamlegt og þau eru svo góð við hvert annað […] Mér finnst algjör forréttindi að fá að koma inn í líf barnanna hans. Þau eru æðisleg og hafa tekið svo vel á móti okkur sem er ómetanlegt. Ég skil alveg að það er flókið að það komi allt í einu einhver kona inn í líf þitt, þau eru búin að vera dásamleg. Sýnir bara hvað þau eru vel upp alin og frábær börn.“
Kristín Sif ræddi um ástina og margt annað í hugljúfu spjalli í nýjasta þætti af Fókus, þáttinn má horfa á í heild sinni hér.