Veitinga- og athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson hefur selt húsið sitt við Kvíslartungu í Mosfellsbæ. Kaupandinn er Alma leigufélag en kaupsamningi um viðskiptin var þinglýst í byrjun júní. Sigmar er þó enn afsalshafi.
Greint var frá því í mars að Sigmar hefði sett húsið á sölu og fór fram á 149,5 milljónir króna fyrir eignina. Húsið var á söluskrá í tvo mánuði en þá greindi Sigmar frá því að hann hefði tekið húsið úr sölu og væri hættur við fyrirætlanir sínar.
„Stóra fréttin er að ég tók húsið mitt meira að segja af sölu. Ég hætti við að selja. Fyrir utan það að það selst ekkert þá var ég með augastað á annarri eign í bænum. Þannig að ég verð bara þarna í sveitinni,“ sagði Sigmar við það tilefni í viðtali við Vísi en umrætt viðtal vakti þó mesta athygli fyrir yfirlýsingu.
Athafnamaðurinn fékk þó greinilega ásættanlegt tilboð frá leigufélaginu að lokum og hefur hætt við að hætta við að selja. Hvert endanlegt kaupverð var liggur þó ekki enn fyrir.