Elín Arna Ingólfsdóttir er 25 ára stelpa úr Kópavogi, hún ólst upp við óviðunandi aðstæður hjá föður sem var virkur alkahólisti og meðvirkri móður. Hún er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterk saman.
Elín upplifði sig öðruvísi, þegar hún var þriggja ára fékk faðir hennar flogakast þegar þau voru saman í baði og breyttist eitt og annað í kjölfarið. Allt breyttist þó eftir næsta flog, nokkrum árum síðar en þá þurfti hann að hætta að vinna og fór að drekka meira.
Enginn vildi koma á heimilið
„Þegar ég var í öðrum bekk ákvað pabbi að ég væri nógu stór til að labba sjálf í og úr skóla svo hann var bara heima, þá fór hann að drepa tímann með drykkju en var líka spilafíkill og svo var reykt inni þannig að enginn vildi sitja við hliðina á mér eða koma með mér heim,‟ segir Elín og bætir við að hann hafi einnig haft mikla þörf fyrir klám og dröslaði henni oft með sér á vídeóleigur þar sem hún þurfti að hanga tímunum saman á meðan hann valdi sér réttu spólurnar, bakvið tjald. Hún rifjar upp að klámmyndir hafi verið í ómerktur, svörtum hulstrum og þá fékkstu gráan poka sem ekki sást í gegnum.
Faðir Elínar varð veikari með tímanum, eins og gefur að skilja. Hún ólst upp við að drykkjufélagi pabba hennar svaf oft á sófanum og í minningunni gat hún oft ekki sofið á nóttunni fyrir hávaða og reykingum.
Beitti móður ofbeldi
„Ég fór oft fram til að láta vita að ég gæti ekki sofið en var þá bara kölluð pempía. Ég gat ekki vaknað á morgnana og farið fram til að horfa á barnaefni því þar var drykkjufélagi pabba alltaf sofandi.‟
Foreldrar Elínar skildu þegar hún var 13 ára en það gerðist í kjölfar þess að faðir hennar beitti móður hennar ofbeldi undir stýri þegar hún sótti hann einn daginn eftir nokkurra daga drykkju að heiman.
Elín rifjar þetta atvik upp: „Ég sá að mamma var blóðug í framan þegar þau komu heim, ég fékk bara nóg. Hann var búinn að vera á bender í einhverja daga og ræðst á hana af því hún vildi ekki stoppa í ríkinu á leiðinni heim. Ég fæ illt í hjartað að hugsa um það sem pabbi gerði þarna. Við vorum með skenk í stofunni með öllu sem ég hafði búið til, föndur, leir og annað. Hann sópaði öllu á gólfið og skemmdi það. Hann var að sýna mér hvernig hann gæti meitt mig án þess að meiða mig.‟
Fagaðilar brugðust
Frá unga aldri leið Elínu illa, án þess endilega að gera sér grein fyrir því. Hún reyndi að biðja um hjálp í skólanum með því að tala við tvo kennara og námsráðgjafa en þessir fagaðilar brugðust henni.
„Ég sagði frá stöðunni heima, að ég væri með sjálfsagða og hafði tekið saman fullt af lyfjum sem ég ætlaði að taka til dæmis en enginn gerði neitt.‟
Eftir skilnað foreldra Elínar eignast móðir hennar nýjan mann og flytur til hans. Elín var því skilin ein eftir og þurfti að bjarga sér.
„Ég var bara skilin ein eftir og djammaði endalaust, ég var nýbyrjuð að eignast vini, fékk oft að borða kvöldmat hjá þeim bara og ég hætti að mæta í skólann. Ég hafði sjálf samband við barnavernd til að biðja um aðstoð en það gerðist ekkert fyrr en átti að senda mig í fóstur þegar ég var 16 ára. Þá var ég orðin sjálfstæð, búin að læra að redda mér og búa ein lengi svo ég neitaði því.‟ Það er ljóst að allt kerfið brást Elínu en hún fann í fyrsta skipti fyrir öryggi þegar hún flutti til kærasta síns á framhaldsskólaaldri.
Enn einn óreglumaðurinn?
Elín fjarlægðist föður sinn með árunum en var samt sem áður alltaf í sambandi við hann í einhverri mynd.
Faðir hennar fannst látinn í félagslegri íbúð sinni í febrúar 2021. Dánarorsök var blóðeitrun en aðkoman var undarleg að hennar sögn og allt í kringum andlát hans var mjög sérstakt. Elín talar um nokkur atriði sem hljóma undarlega, eins og samsæriskenningar og ef hann hefði ekki verið virkur alkahólisti hefði andlát hans verið skoðað betur, hún upplifði eins og hann hafi bara verið enn einn óreglumaðurinn og öllum var sama.
Það má hlusta á viðtalið við Elínu Örnu í heild sinni á hlaðvarpinu Sterk saman.