fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

Valgeir höfðar mál gegn Sindra, Sýn og Barnavernd Reykjavíkur – „Ég missti allt í kjölfarið á þessum þætti”

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 4. júní 2023 09:00

Valgeir Reynisson Mynd/Svanur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Maður hugsar ekki um annað, alla daga. Þetta hefur áhrif á allt manns líf.  Ég mun aldrei geta horft á þennan þátt, ég myndi bara brotna niður við að sjá son minn í þessum þætti,“ segir Valgeir Reynisson. 

Eins en eins og fram kom í DV í gær hefur Valgeir höfðað mál á hendur sjónvarpsmanninum Sindra Sindrasyni, Sýn hf. og Barnavernd Reykjavíkur vegna framleiðslu og sýningar þáttar í þáttaröðinni Fósturbörn á Stöð 2. 

Valgeir er afar ósáttur við störf Barnaverndar Reykjavíkur sem hann sakar um að hafa slitið sambandi hans við son sinn og aldrei veitt fjölskyldunni neinn stuðning eins og lofað var. Í dag hittir Valgeir son sinn tvisvar á ári og alls í þrjár klukkustundir samtals. Hann sakar ennfremur stofnunina um að nota úreltar og hreinlega ólöglegar aðferðir eins og að setja púlsmæli á son hans þegar þeir feðgar hittast og nýta það svo gegn honum ef hjartsláttur sonarins hækkar.

„Maður er svo vonlaus, það er sama hvað maður gerir, maður er alltaf troðinn niður aftur af þessari stofnun, barnavernd,“ segir Valgeir.          

Sjá einnig: Stefnir Sindra og Barnavernd Reykjavíkur fyrir dóm vegna Fósturbarna – Segir þáttinn hafa valdið örorku og dauðsfalli

Með fullt forræði en enga hugmynd um þættina

Drengurinn var draumabarn þeirra hjóna, barn sem loksins kom í heiminn í gegnum tæknifrjóvgun.  Sama barnið og þau sáu fjórum árum síðar í sjónvarpi afhent fósturforeldri með þeim orðum að barnið kæmi úr „slæmum aðstæðum og töluverðri vanrækslu.“ 

Valgeiri og konu hans var aldrei sagt frá upptöku þáttana né þau spurð leyfis um að barnið kæmi fram í sjónvarpi fyrir framan alþjóð. Þau höfðu enga hugmynd fyrr en vinafólk hringdi og sagði þeim að kveikja á sjónvarpinu. 

„Við höfðum fullt forræði yfir drengnum en samt fór þetta fólk algjörlega á bak við okkur,“ segir Valgeir og vísar þá ekki síst til tilnefnds ráðgjafa þeirra, Lilju Bjarkar Guðrúnardóttur, starfsmanns barnaverndarnefndar sem steig fram í umræddum þætti, og Sindra Sindrasonar, fjölmiðlamanns. 

Aðspurður um hvernig atburðarrásin gat síðar farið á þennan veg, segir Valgeir að sú saga sé lyginni líkust. 

„Árið 2018 kom kona sem við þekktum í heimsókn til okkar, hún kom undir áhrifum áfengis og með hund með sér. Hundurinn náði að stinga af og ég skaust út að leita að hundinum fyrir hana  Ég leitaði í um það bil tíu mínútur en fann ekki hundinn og fór því aftur heim. 

Og á meðan ég var að leita að hundinum þá hringdi hún í lögregluna og tilkynnti að ég hefði verið að hlaupa á eftir fólki með skammbyssu. Það liðu um 20 mínútur þar til sérsveitin var búin að umkringja húsið, fjöldi lögreglumanna mættur á staðinn og einnig barnaverndaryfirvöld.“

Var barnið, þá 4 ára, umsvifalaust fjarlægt af heimilinu, komið fyrir á vistheimili, og Valgeir handtekinn. 

Átti fyrst að vera vistaður utan heimilis í sex mánuði

Auk þess að saka Valgeir um vopnaburð, sakaði hún hann enn fremur um fíkniefnasölu.  Valgeir segist aldrei koma til með að vita hvað konunni gekk til með þessu símtali.  

„Rannsókn málsins sýndi fram á ekkert var til í þessari sögu konunnar, þetta var uppspuni frá rótum, það voru engar byssur né fíkniefni til staðar og sagan þvæla frá upphafi til enda.“

Hann bætir við að í þokkabót hafi konan fengið að aka heim án afskipta lögreglu þrátt fyrir að vera augljóslega drukkin.

 Fékk Valgeir greiddar bætur fyrir þessa ólöglegu handtöku og þá meðferð er hann fékk. 

„Ég kærði þessa konu en kæran var felld niður á þeim forsendum að um væri að ræða orð á móti orði.“  Sem Valgeir er ekki sáttur við. 

„Þannig byrjaði þetta, að barnavernd náði stráknum af heimilinu. Í fyrstu var sagt að barnið yrði vistað í sex mánuði en það var snemma augljóst að það var aldrei ætlunin að skila honum heim aftur. Um leið og barnavernd náði honum út af heimilinu voru allar bjargir bannaðar, þrátt fyrir vilyrði um annað. Það var kerfisbundið unnið að því að ná af okkur forræðinu, bæði með fölskum skýrslum og fleiru,“ segir sem Valgeir stendur einn í baráttu sinni en kona hans, móðir drengsins, er látin. 

Ósannindi í skýrslum

Valgeir segir að samskipti barnaverndar við hann hafi verið svo að segja engin eftir að barnavernd tók drenginn af heimilinu „Það var einungis látið vita hvenær unnt væri að hitta hann í umgengni en það var sífellt verið að senda okkur í alls kyns fíkniefnaprufur og pissutest.“  Sem Valgeir stóðst í hvert einasta skipti að eigin sögn.

Hann segir að þrátt fyrir vilyrði um stuðning við fjölskylduna hafi aldrei neitt verið gert.  

„Það var logið í skýrslum, til dæmis um að okkur hefði verið boðin fjölskylduráðgjöf. Það var aldrei gert. Við pöntuðum sjálf tíma í fjölskylduráðgjöf í Háaleitiskirkju og mættum þangað reglulega. Það var einnig lofað stuðningi inn á heimilið en sá stuðningur kom aldrei. Það var sett í skýrslu af barnavernd að drengurinn væri illa hirtur og skítugur til fara, sem er langt frá þvi að vera rétt.“

Valgeir segir vera til skýrslur frá leikskóla þar sem fram komi að drengurinn virðist eiga nóg af góðum fatnaði og mæti alltaf snyrtilegur og vel til fara. 

„Barnavernd notaði það gegn okkur að við hefðum farið  í stutt frí til útlanda og því ekki sýnt samstarfsvilja eða þegið aðstoð. Eða hvaða aðstoð? Það var enga að fá.“

Reynt að slíta öll tengsl hans við soninn

Valgeir segist strax í byrjun hafa fundið sterkt fyrir því að barnavernd hefði engan áhuga á að styðja við fjölskylduna, hvað þá að skila drengnum heim. 

Hann er sérlega þungorður um settan ráðgjafa barnaverndar í málinu, Lilju Björk Guðrúnardóttur, sem hann segir hafa leynt og ljóst unnið að því að fjarlægja barnið varanlega af heimilinu ásamt fleirum ráðgjöfum sem hafa verið með mál sonar hans á borði sínu.  

„Það hafa tveir aðrir ráðgjafar tekið við málinu og báðir hafa unnið ötullega að því að slíta öll tengsl mín við son minn,“ segir Valgeir. 

Hann segir að það séu engar tilviljanir í þessu máli. 

„Það átti að ná af okkur drengnum og koma honum í aðrar hendur. Þegar ég og kona mín sáum í hvað var að stefna í fórum við til sýslumanns og afsöluðum okkur forræðinu til systur minnar. Sýslumaður þurfti náttúrulega að hafa samband við barnavernd til að fá gögn frá þeim svo það væri hægt að flytja forræðið yfir til systur minar en barnaverndarnefnd gætti sín á því að draga að senda gögnin þar til við vorum búin að missa forræði. Sýslumaður sendi mér bréf um það bil 8-9 mánuðum síðar um að það væri ekki hægt að vinna umsóknina því við værum þegar búin að missa forræðið. Þeir ætluðu að ná honum, sama hvað.“

Vísuðu í mál sem hann var hreinsaður af

Valgeir segir bókstaflega allt hafa verið gert til að koma í veg fyrir að sonur hans fengi að koma heim. 

„Allt var notað gegn mér. Sem dæmi má nefna er að við misstum húsnæði, það var mikið notað, þrátt fyrir að við fengjum annað. Einnig var fortíð mín endalaus rædd. Og reyndar hvað sem hægt var að nota gegn okkur á einhvern hátt.“

Valgeir segir að sú fortíð sé nú varla það skelfileg, um hafi verið að ræða smáglæpi, bernskubrek sem löngu séu liðin. „Ég sat nokkur skipti í í fangelsi í stuttan tíma þegar ég var ungur og barnlaus og það var nú ekki lítið notað gegn mér til að láta mig líta eins illa út og barnavernd mögulega gat gert.“ 

Valgeir hafði, og er enn, verið edrú frá árinu 2017, og bendir á að hver einasta prufa sem tekin hafi verin af honum hafi verið hrein. Samt sem áður kemur fram í skýrslum frá barnavernd  að sérsveitin hafi mætt á heimili hans vegna vopna og fíkniefna, jafnvel þrátt fyrir að rannsókn lögreglu hefði leitt í ljós að Valgeir var alsaklaus af ásökunum um vopnburð, vopnaeign og fíkniefnasölu. 

Valgeir segir það hafa verið reiðarslag að sjá að barnavernd notaði lögregluheimsóknina gegn honum í stefnu í forsjársviptingarmálinu, þrátt fyrir að barnavernd vissi vel að hann hefði verið hreinsaður af öllum sökum við rannsókn lögreglu. 

Hann segir að með því hafi barnavernd einnig beitt blekkingum til að ná drengnum af honum. 

Nota úreltar aðferðir við tengslamat

Valgeir segir að sama hversu hann hafi reynt að koma til móts við kröfur barnaverndar, allt hafi verið notað gegn honum. Líka eftir að hann missti drenginn frá sér. 

„Þrátt fyrir að hafa verið edrú allan þennan tíma, og að ég lifi reglusömu lífi í dag, fæ ég ekki að hitta son minn nema 2 sinnum á ári, undir eftirliti, í 1,5 klukkustund í senn. Þrjár klukkustundir á ári.

Barnaverndarnefnd vildi að ég færi í tengslamat út af  því að ég gerðist svo grófur að fara fram á meiri umgengni við son minn og það var gerð þessi líka svakalega stóra skýrsla. 

Prófessor í sálfræði í Háskóla Íslands fór yfir skýrsluna og sagði hún úreltar aðferðir hafa verið notaðar, aðferðir sem ekki séu viðurkenndar lengur.“

Valgeir segir að sama hvað, það hafi verið sett út á hegðun hans. 

Ragnheiður B. Guðmundsdóttir hjá tengslamat.is  sá um gerð tengslamatsins að beiðni barnaverndar Reykjavíkur. 

Prófessor tætti í sig tengslamatsskýrslu

Í skýrslu prófessorsins í sálfræði, sem yfir fór tengslamatsskýrslu Ragnheiðar, segir meðal annars:

,,Barnið hefur mikla hagsmuni af því að tengjast föður og fjölskyldu sinni. Náin bönd taka tíma að þróast og þroskast en ef unnið er markvisst að uppbyggingu tengslanna með þeirri vitneskju sem empirískar rannsóknir í sálfræði hafa fært heiminum þá er mest líklegt að tengslin blómstri og barnið með þeim. Hér er um mikilvæga hagsmuni barnsins að ræða ekki eingöngu á þessum tíma heldur ævina á enda.“

Samkvæmt mati prófessorsins í sálfræði, sem er með doktorsgráðu í sálfræði, vísindalegri aðferðafræði,og meistaragráðu í atferlisfræði og meðferð, eru þær aðferðir sem Ragnheiður notaði í mati sínu hvorki vísindalega viðurkenndar, og í reynd hafa verið vísindalega afsannaðar, né til þess fallnar að meta það sem meta átti, það er að segja gæði tengsla, segir Valgeir.

​​Matskýrslan er rituð með neikvæðni gagnvart föður og matið sem var notað er nokkurs konar gildra sem var lögð nokkrum sinnum og hefur mótandi áhrif á samskipti feðganna. Uppsettar aðstæður sem er stýrt af matsaðila eru notaðar til að álykta um hæfi föðurs. Skýrslan er hlutdræg gagnvart föður á neikvæðan máta, er ekki rituð á hlutlausan hátt og bæði eru rangfærslur og rangtúlkanir á gögnum sem var safnað.

„Þrátt fyrir allt þetta notaði barnaverndarnefnd Reykjavíkur þessa skýrslu gegn mér til að minnka enn meira umgengnina mína við son minn”, segir Valgeir. „Ég kyssti hann á munninn, það var sett út á það. Ég setti hann á háhest og hann var að hlæja og tromma svona á hausnum á mér eins og krakkar gera. Það var sagt að hann væri að berjast við föður sinn.“

Skýrslan kærð til Landlæknis

Valgeir hristir höfuðið, það er honum erfitt að rifja upp þessar stundir með syni sínum.

„Við fórum út að labba og í skýrslu var sagt að ég réði ekkert við hann því hann hljóp frá mér. En það eru til gögn frá skólanum sem sýna svart á hvítu að það þarf að vera maður yfir honum svo hann hlaupi ekki í burtu. 

Mér var einnig sagt að leika við hann í nákvæmlega þrjár mínútur og upp á sekúndu eftir þessar þrjár mínútur átti ég að hætta. Hvernig segir maður barni að nú ætli pabbi að hætta að leika við það? Ég spurði hvernig ég ætti að fara að því og var sagt að finna bara út úr því sjálfur.“ 

Svo vildi til að umrætt tengslamat fór fram á gama Sankti Jósefs Spítalanum í Hafnarfirði en Valgeir hafði einmitt málað það hús. 

„Það eina sem mér datt í hug var að taka hann upp, bera hann að glugganum, benda á þakið og segja „sjáðu hvað pabbi málaði“  til að dreifa athygli hans.

Barnið var með púlsmæli og auðvitað hækkaði púlsinn því ég tók hann upp, og það var notað gegn mér líka. 

Prófessorinn sem fór yfir þettasa gði að með þessu hefði verið að leiða mig í gildru og lögmaður minn er að kæra þessa matsskýrslu Ragnhiðar  til landlæknis.“

Valgeir fylgdi þeim ráðum og hefur nú lagt fram kæru til landlæknis. 

„Það er allt notað á móti mér“

Valgeir nefnir fleiri dæmi. 

„Í einni skýrslunni segir  að faðir hafi reynt að taka myndir án árangus sem er bara bull. Ég á yfir 80 myndir af syni mínum sem ég tók í þessi þrjú skipti sem ég mætti í þetta tengslamat hjá henni sem sanna að er að ljúga þessu. Hún vinnur augljóslega með fósturmóðurinni og er alfarið á hennar bandi.“ 

Valgeir segist aldrei hafa átt nokkurn séns.

„Í skýrslunni  sem var gerð, þegar ég fékk að hitta son minn um daginn, er ég einnig gagnrýndur fyrir að ganga inn án þess að fara úr skónum.

Ennfremur segir að barnið hafi leyft mér að faðma sig þegar ég sá hann og hann stökk upp í fangið á mér.“   

„Þegar ég ók í burtu eftir umgengni við strákinn minn, yfirgaf fósturmóðirin húsnæðið á sama tíma. Við ókum af tilviljun bæði frá Ármúla og upp Síðumúlann en hún ásakaði mig um elta sig. 

Sem er út í hött. Hvers vegna í ósköpunum hefði ég átt að elta konuna? Hvaða ástæðu hafði ég til þess? Það er allt notað á móti mér. Sama hversu vitlaust það er. Endalausar ásakanir um eitthvað ljótt.“  

Drógu úr umgengni vegna skýrslunnar

Valgeir segir að það sé skipti engu hvað hann geri, hvað hann reyni að gera betur; honum sé refsað. 

„Þegar ég gerðist svo grófur að fara fram á  meiri umgengni við son minn  þá var ég sendur  í tengslamat. Sem mér finnst sérkennilegt þar sem barnavernd vissi upp á sig sökina. Barnavernd vissi vel að það var af þeirra völdum að nánast var búið að rjúfa okkar tengsl, eins og prófessorinn sem fór yfir skýrslu Ragnheiðar síðar sagði. Og eftir þetta tengslamat minnkaði barnavernd umgengnina úr tveimur tímum niður í einn og hálfan tíma tvisvar á ári.

 Svona  vinnur barnavernd að því að slíta tengsl börn og foreldra. Þetta er ekki mannlegt.“

Valgeir spyr af hverju verið sé að setja hann í tengslamat þegar barnavernd sé búin að vinna að því leynt og ljóst að rjúfa tengslin.

 „Auðvitað var komið eitthvað tengslarof en það var af þeirra völdum. Þetta er gildra, ekkert annað.“  

Honum fannst það bara“ 

„Sálfræðingurinn sem sá um forsjársmatið laug því til að ég hefði hringt í hann úr partýi. Sem var bull og vitleysa. Og þegar lögfræðingur spurði hann í hérðasdómi hvort hann hefði spurt mig hvort ég væri í partýi, þá sagði hann nei. Og af hverju?  Hann sagði að honum hefði ekki fundist það þurfa. Honum fannst það bara. En þetta var sett í opinbera skýrslu. Hann hélt því líka fram að hann væri viss um að ég væri ekki edrú þrátt fyrir að ég stæðist hvert einasta próf. Þessi maður tók ekki út heimilið, hann ræddi ekki við eldri son minn, ekkert.“ 

Valgeir segir það ljóst að barnaverndaryfirvöld hafi aldrei haft hug á að skila barninu til baka, enginn stuðningur eða aðstoð hafi verið í boði, eingöngu niðurrif,

María Dröfn hafi einnig verið starfsmaður Sýnar hf., sem var framleiðandi þáttanna og því hafi um um augljósan hagsmunaárekstur verið að ræða. 

„Ég missti allt í kjölfarið á þessum þætti”

Eins og áður segir var það mikið áfall fyrir Valgeir að heyra af sjónvarpsþáttunum þar sem fjallað var um mál sonar hans. Þau foreldrar drengsins hafi verið með forræði yfir honum en enginn beðið þau um leyfi. Hins vegar hafi  fósturmóðir sonar hans, María Dröfn Egilsdóttir, verið starfsmaður Sýnar hf. þegar þáttaröðin var framleidd en hún var til viðtals í þættinum.

„Það liðu liðu aðeins tveir mánuður frá því sonur minn er tekinn og þar til við sjáum hann í sjónvarpinu, þá með fullt forræði. Og það tók þetta fólk í barnavernd aðeins fimm mánuði og þrjár vikur frá því hann var tekinn af heimilinu að ákveða að svipta okkur forsjá drengsins. Og í millitíðinni gerði barnavernd sjónvarpsþátt um son minn án þess að láta mig vita þar sem við foreldrarnir vorum ærumeidd. Við fengum algjört taugaáfall þegar við sáum strákinn okkar í þættinum, þegar við sáum Lilju Björk, sem átti að vera að hjálpa okkur hjá barnavernd, koma fram í þættinum og sýna son okkar og tala illa um okkur.“

Síðan þetta gerðist segist Valgeir ekki getað hætt að hugsa um þetta og vera með stöðugan kvíðahnút í maganum og upplifa stöðugt vonleysi og sorg.

„Ég missti allt í kjölfarið á þessum þætti. Eiginkonuna mína, son minn og heilsuna,” segir Valgeir en samkvæmt gögnum málsins er hann greindur með alvarlega áfallastreituröskun og þunglyndi sem afleiðingu af þættinum.  

Fósturmóðirin  óskaði eftir stuðningi

Valgeir segir að miðað við hvað Barnavernd reyni að grafa upp hvert smáatriði sem hægt er að nota gegn sér þá skjóti skökku við að fósturmóðir hans þurfi ekki að uppfylla allar reglur.

 „Það sendur til að mynda skýrt í reglugerð að barn 4 ára og eldri skuli hafa sérherbergi. En það kom fram í þættinum að fósturmóðir hans var ekki með herbergi handa honum og hann svaf í með henni í herbergi í tvö ár eftir að hún fékk hann.

Hún skrifaði einnig langan auglýsingu á  Facebook póst fyrir nokkrum dögum, setti bæði myndir og viðkvæmar persónuupplýsingar um drenginn á netmiðla, og óskaði eftir einhverjum til að fara með hann á fótboltaæfingar.

Hvernig má það vera að hún megi opinbera barnið á þennan hátt, setja inn viðkvæmar upplýsingar um hann, og barnavernd segi ekki orð?

Af hverju þarf hann stuðningsfjölskyldu, en má ekki hitta pabba sinn eða föðursystur?”

Valgeir segist hafa komið boðum til fósturmóðurinnar um að hann gæti farið með son sinn á fótboltaæfingarnar en það boð hafi verið hundsað algjörlega.

Móðir drengsins féll eftir þáttinn

Það er Valgeiri augljóslega afar erfitt að rifja upp þáttinn.

„Ég var hjá honum þennan dag, hann var búinn að vera veikur. Ég klæddi hann í fötin sem hann var í og gaf honum spjaldtölvuna sem hann er með í þættinum. Upptökur fóru fram að degi til svo þeir hljóta að hafa beðið fyrir utan eftir að ég færi.“ 

Hann segir þetta hafi gengið gríðarlega nærri honum. Jafnvel þótt andlit barnsins hafi verið hulið hafi það ekki farið fram hjá nokkrum sem til þekkti að um hans barn var að ræða. Og að það hefði þurft að sæta „töluverðri vanræsklu“ og búa við „slæmar aðstæður.“

„Konan mín féll eftir þáttinn og náði sér aldrei aftur á strik og lést skömmu síðar eftir að hafa  séð barni sínu sjónvarpað.”

Valgeir segist hafa gert sitt ítrasta til að sýna barnavernd samvinnu. 

„En það er ekki hægt. Ég kærði reyndar lygarnar eftir eina skýrsluna, þar var ég sagður hafa viðurkennt að láta barn hafa fíkniefni, sem er út í hött. En auðvitað fannst ekki upptakan af símtalinu og málið látið niður falla þegar viðkomandi starfsmaður tilkynnti sig veika þegar hún átti að mæta fyrir héraðsdóm.”

Valgeir segir lögmann sinn hafa spurt Lilju Björk að því í héraðsdómi hvort hún hafi látið foreldra vita eða fengið leyfi fyrir að barnið kæmi fram í þættinum. 

„Hún neitaði því og þegar að lögmaður minn ætlaði að spyrja hana um meira um gerð þáttarins stöðvaði dómari hann og sagði það ekki koma málinu við. Hann bannaði lögmanni mínum alfarið að spyrja frekar út í gerð þáttanna Fósturbörn.” 

Vill bara fá strákinn sinn heim

Valgeir tekur einn dag í einu. Sonur hans er nú að verða 9 ára og er búinn að vera aðskilinn frá föður sínum rúmlega hálfa ævina. 

„Ég er  bara vinna í mínum málum, er mikið einn, fer upp í bústað, gott að geta slakað  þar á en er samt alltaf með hugann við þetta, hugsa um þetta allt. 

Ég vil bara fá strákinn minn heim. Og að þetta fólk svari til saka fyrir það sem það hefur gert mér og fjölskyldu minni,“ segir Valgeir Reynisson. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Líflegar umræður á Matartips eftir að ostaunnandi bað um ráð

Líflegar umræður á Matartips eftir að ostaunnandi bað um ráð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Getur ekki gleymt því sem hún sá í tölvu eiginmannsins – „Ég man það í hvert skipti sem við stundum kynlíf“

Getur ekki gleymt því sem hún sá í tölvu eiginmannsins – „Ég man það í hvert skipti sem við stundum kynlíf“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Cher afhjúpar skuggahliðar hjónabandsins – Íhugaði að kasta sér fram af svölum

Cher afhjúpar skuggahliðar hjónabandsins – Íhugaði að kasta sér fram af svölum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslensk hjón fóru á kaffihús í miðbænum – Fengu áfall þegar reikningurinn kom

Íslensk hjón fóru á kaffihús í miðbænum – Fengu áfall þegar reikningurinn kom