Hjónin Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir fjölmiðlakona og Haukur Ingi Guðnason sálfræðingur festu nýlega kaup á versluninni DUXIANA í Ármúla, ásamt vinahjónum sínum, Martina Vigdísi Nardini lækni og Jóni Helga Erlendssyni framkvæmdastjóra.
„DUXIANA er þekktust fyrir hágæða DUX rúm, sængur, rúmföt og húsgögn og hefur verslunin verið rekin í 42 farsæl ár af hjónunum Rúnari Jónssyni og Elsu Ólafsdóttur, heitinni. Nýir eigendur taka við versluninni í dag en formleg opnun, með auknu vöruúrvali, verður á haustmánuðum. DUXIANA vörumerkið hlaut á síðasta ári útnefningu Forbes ferðahandbókar fyrir framúrskarandi gæði. Yfir 150 af bestu hótelum heims reiða sig á fyrsta flokks gæði DUX-rúma, þar á meðal sjö stjörnu hótelið Burj Al Arab í Dubai,“ segir í fréttatilkynningu.
Nýir eigendur taka einnig við rekstri verslunarinnar Gegnum glerið sem selur ítölsk húsgögn og innréttingar frá Molteni&C, danskt lín frá Georg Jensen Damask, vörur frá þýska vörumerkinu Lambert auk annarra merkja.
,,Við erum full tilhlökkunar að taka við keflinu og setja svip okkar á þjónustuna og vöruúrvalið. Við erum spennt að hitta alla þá tryggu viðskiptavini sem hafa verslað hjá Elsu og Rúnari til fjölda ára auk þess sem við getum ekki beðið eftir að kynna þessar hágæða vörur fyrir nýjum viðskiptavinum. Við þekkjum sjálf til gæða DUX rúmanna og sjáum mikil tækifæri í vörumerkinu, ekki bara gagnvart einstaklingum heldur líka fyrirtækjum sem eru að taka móti auknum fjölda ferðamanna með stöðugt meiri kröfur til gæðasvefns á ferðalögum,” segir Haukur Ingi.
Eigendur, sem eiga börn á öllum aldri, ætla að fylgja fjölskylduvænni stefnu þegar kemur að opnunartíma sérverslana og hafa opið til kl. 17 á virkum dögum. Í haust verður nýjung í boði þar sem viðskiptavinum gefst kostur á að bóka tíma í ráðgjöf og skoðun í gegnum Noona appið eða með því að senda tölvupóst.