Elizabeth Holmes, stofnandi og eigandi Theranos, hefur afplánun í dag.
Í nóvember í fyrra var Holmes dæmd til 11 ára fangelsisvistar fyrir fjársvik eftir að hafa ranglega haldið því fram að tækni sem fyrirtæki hennar hannaði gæti keyrt læknispróf einstaklings með aðeins einum blóðdropa. Hundruðir slíkra prófa voru keyrð í gegnum fyrirtækið. Var Holmes sakfelld fyrir að hafa blekkt fjárfesta, vísvitandi logið til um áreiðanleika rannsókna og lagt sjúklinga í hættu.
Holmes hefur gengið laus síðan dómurinn féll, en hún áfrýjaði dómnum. Beiðni hennar um að ganga laus þar til áfrýjun hefur verið tekin fyrir var hafnað af dómara í lok apríl og var Holmes skipað að skila sér til afplánunar.
Holmes á tvo ung börn, son fæddan í júlí 2021, og annað barn fætt á þessu ári, var hún sökuð um að hafa orðið ófrísk í annað sinn vísvitandi til að tefja málareksturinn.
Markaðsvirði Theranos var metið á 9 milljarða dollara á tímabili, eða um 1.200 milljarða króna. Meðal fjárfesta voru lyfjaverslunarrisinn Walgreens, fjölmiðlajöfurinn Rupert Murdoch og Larry Ellison meðstofnandi tölvutæknirisans Oracle. Í stjórn félagsins áttu meðal annars sæti Jim Mattis, sitjandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og Henry Kissinger og George Schultz, fyrrverandi utanríkisráðherrar.
Sögu Holmes og Theranos var gerð skil í stuttþáttaröð HBO og Hulu, The Dropout, þar sem Amanda Seyfried lék Holmes.
Svik Holmes voru afhjúpuð árið 2015, þegar John Carreyrou, blaðamaður Wall Street Journal, greindi frá því að vélin sem Holmes væri að selja, sem kölluð var The Edison, virkaði í raun ekki og að fyrirtækið notaði utanaðkomandi tækni til að falsa jákvæðar niðurstöður úr prófunum. Alríkisyfirvöld rannsökuðu Holmes í kjölfarið og ákærðu hana árið 2018.