Söngkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir hefur verið að glíma við mikla erfiðleika undanfarið. Hún og börnin hennar tvö hafa verið á flakki í leit að öruggu húsnæði ísjö mánuði og hafa glímt við heilsuvanda vegna myglu sem var í leiguíbúð þeirra í Vesturbænum.
Nú virðist loksins vera ljós við enda ganganna. Þórunni tókst að selja einbýlishúsið sitt í Hveragerði en litla fjölskyldan þarf húsnæði á meðan salan gengur í gegn.
Söngkonan flutti til Hveragerðis árið 2019 en aftur í Reykjavík árið 2021. Hún hefur verið að leigja út eignina síðan þá.
„Kæru vinir og netverjar okkur vantar húsnæði sem allra fyrst. Við erum í skrýtinni stöðu, við erum að bíða eftir að sala gangi í gegn á húsi okkar i Hveragerði og þá get ég keypt öruggt, myglu og rakaskemmda laust húsnæði,“ segir hún í færslu á Instagram.
„Allt sem okkur hefur boðist hefur því miður verið rakaskemmt og myglað sem gerir okkur mjög lasin. Ég hef þurft öndunaraðstoð og ofnæmiskokteil í æð ásamt alvarlegum veikindum hjá okkur öllum af sökum myglu.“
Fjölskyldan hefur flutt margoft og vill Þórunn gefa börnunum sínum stöðugleika.
„Ég hef flutt með þessar litlu hetjur níu sinnum á þessu tímabili og þau misst allt sem þau áttu. Íbúð sem stendur eins og eitthvað tímahylki á Öldugötu og framkvæmdum þar enn ekki lokið frá október á seinasta þegar myglan kom upp. Eigur okkar voru ekki plastaðar eða verndaðar á þann hátt sem bjargar þeim þegar opnað var á skemmdirnar og við enduðum allslaus á vergangi,“ segir Þórunn sem heldur í vonina.
„Ég er þakklát og bjartsýn og með mikla seiglu og styrk, en við erum örmagna og þurfum skjól. Íbúð óskast strax í myglulausu húsnæði. Staðsetning skiptir ekki öllu. 1-3 mánuðir í minnsta. Ást út i alheiminn og takk allir sem hafa boðið okkur sófana sína og rúm eða gistingu.“