fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Fókus

Þegar að geimverur boðuðu koma sína á Snæfellsnes – „Ég held að geimverurnar hafi valið Ísland, því það er ekki hernaðarland“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Föstudaginn 19. maí 2023 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í lok ágúst árið 1993 var haldin nokkuð sérstök ráðstefna í Háskólabíó, tileinkuð geimverum og fljúgandi furðuhlutum. Ráðstefnan var haldin í tengslum við sýningu á kvikmyndinni Fire in the Sky, eða Eldur á himni, sem mun vera byggð á sönnum atburðum og fjallar um mann sem numinn var á brott í Bandaríkjunum árið 1975 og skilað til baka fimm dögum síðar.

Ef einhver lesandi man ekki eftir ræmunni má hugga viðkomandi með að fæstir aðrir gera það heldur.

Íslendingar fylltust gríðarlegum áhuga og í nokkra daga var um fátt annað spekúlerað í kaffitímum landsmanna en geimverur.

Rollurnar áhugalausar um gestina

Meðal þeirra sem tjáðu sig um samskipti við geimverur var berjaáhugamaður sem kvaðst hafa séð geimfar lenda vestur á Snæfellsnesi á sjöunda áratugnum. Ekki voru önnur vitni en nokkrar rollur sem létu sér atburðinn í léttu rúmi liggja. „Ég hugsaði nú með mér að það hlyti eitthvað að vera bilað hjá karlagreyjunum,“ sagði maðurinn um litlu stóreygu verurnar tvær sem héldu út úr geimfarinu.

Annar lýsti dularfullu ljósi sem hafði sést á himninum yfir Snæfellsjökli um það leyti er hann og félagar hans voru að koma úr transi sem þeir stunduðu um helgar.

Náðust myndir af fyrirbærinu og var upptakan sýnd í matarhléinu. „Líktist geimskipið einna helst vasaljósi sem skjálfhentur maður hélt á í nokkurra metra fjarlægð, en kannski kemur annað í ljós ef myndin er athuguð betur,“ skrifaði Dr. Gunni á sínum tíma í umfjöllun um ráðstefnuna í Pressunni.

Heimsviðburður á Snæfellsnesi

Eflaust hefði þessi ráðstefna gleymst í áranna rás eins og svo margar þær dillur sem upp hafa sprottið og horfið jafnóðum ef ekki hefði verið fyrir spádóm sem kveðinn var upp á ráðstefnunni. Fullyrt var að fjöldi fólks, sem ættu í nánu sambandi við vitsmunaverur á öðrum hnöttum, hefði fengið þau skilaboð að geimverur myndu í fyrsta sinn sýna sig okkur jarðarbúum þann 5. nóvember sama ár. Nánar tiltekið kl. 21:07. Hvaðan sú tímasetning kom veit ekki nokkur sála með vissu.

Ef það hefði nú ekki verið nógu spennandi að frétta að geimverur myndu heiðra mannfólkið með nærveru sinni, þá tók út yfir allan þjófabálk þegar tilkynnt var að Ísland væri áfangastaður vina okkur að ofan. Þeir myndu nánar tiltekið lenda á Snæfellsjökli. Ástæðan var sögð orkusvið jökulsins en Snæfellsjökull hefur löngum þótt vera öðrum stöðum tengdari hinu óþekkta og yfirnáttúrulega.

Margir voru himinlifandi en aðrir voru öllu varfærnari í trú sinni á heimsókn litlu grænu mannanna.

Magnús Skarphéðinsson var spenntur fyrir komunni.

Hinar níu tegundir geimvera

„Ég held að geimverurnar hafi valið Ísland, því það er ekki hernaðarland. Það verða ekki skriðdrekar eða fallbyssur sem bíða þeirra þegar þær lenda,“ sagði Guðrún Bergmann, formaður Snæfellsáss, í samtali við DV á sínum tíma. Michael Dillon, breskur geimverusérfræðingur að eigin sögn, sagði verurnar vera gáfaðar og vinveittar. Hann gat ekki falið spenning sinn í viðtölum við fjölmiðla. „Við vitum um níu tegundir. Ein tegundin er 2,17 metri á hæð og ljós yfirlitum en önnur tegund er 1,20 metri á hæð, með gráa  húð og stór svört augu. Verurnar settu sig fyrst í samband við yfirvöld í Ameríku árið 1943“.

Hann taldi líklegt að í framtíðinni yrði Snæfellsjökull framtíðarsamskiptastaður manna og annara vera.

Snorri í Betel vildi ekki sjá þessa útsendara djöfulsins.

Útsendarar djöfulsins

Það voru þó ekki allir sem tóku þessari væntanlegu heimsókn utan úr geimnum fagnandi. Snorri Óskarsson, safnaðarhirðir hjá Betelsöfnuðinum í Vestmannaeyjum, sagði í samtali við Tímann að geimverurnar væru „útsendarar djöfulsins“.

„Ég kalla þetta tæknivæddan draugagang. Það er svo lítið hægt að byggja á þessu. Menn þurfa helst að vera miðlar til þess að ná sambandi og það er akkúrat það sem heitir á daglegu máli spíritismi og biblían stendur gegn. Þetta eru andar blekkingarinnar. Höfðingi þessara geimvera heitir nú bara djöfullinn og Satan.“

Móttökunefndin tilbúin

Engir voru þó kátari með heimsóknina væntanlegu en veitingamenn og ferðaþjónustuaðilar á Snæfellsnesi. Þegar upp rann dagur þann 5. nóvember var mikill viðbúnaður og öllu til tjaldað til að bjóða grænu vinina velkomna.

Skúli Alexandersson, fyrrverandi alþingismaður, stjórnaði móttökuundirbúningi og lögregla og björgunarsveitarmenn gerðu sig klára. Þá var Ómari Lúðvíkssyni, oddvita Neshrepps, falið að taka á móti gestunum utan úr geimnum og bjóða þá velkomna.

Hótel Búðir var þéttbókað og boðið upp á „geimvænan matseðil”. Hótelstýran, Sigríður Gísladóttir, sagðist sjá mikil teikn á lofti og kastaði fram þeirri hugmynd að sjálfur væri Snæfellsjökull í raun geimskip sem myndi skipta um ham og halda heim í geim um kvöldið.

Heimsóknin slegin af

Ríflega fimm hundruð manns voru samankomin, stærsti hópurinn forvitnir Íslendingar en einnig var töluvert um geimveruáhugafólk víða að úr heiminum auk erlendra fréttastöðva. Þjóðhátíðarstemning var að mannskapnum þrátt fyrir kulda og éljagang, flugeldum skotið á loft og hófu einhverjir fjöldasöng. Eftir því sem klukkan nálgaðist níu sló meiri þögn á mannskapinn og góndi nú hver sem betur gat upp í geim. Sumir sögðust sjá einhver ljós á himnum en ekkert geimfar kom á áætluðum tíma klukkan 21:07. Hófu þá sumir leit að gestunum í nánd við jökulinn án árangurs.

Ljóst var að geimverurnar höfðu slegið af Íslandsheimsóknina.

Flestir höfðu þó haft gaman af ævintýrinu en aðrir voru fúlir og töldu að geimverurnar hefðu hætt við sökum ljósagangs og fjölmiðlafárs. Þær kynnu ekki við læti.

Á þeim tæplega þremur áratugum sem liðnir eru hefur engum sögum farið af heimsóknum geimvera til Íslands, hvorki á Snæfellsnesi né annars staðar, svo vitað sé til.

En það á aldrei að segja aldrei …

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Anna Svava ljóstrar upp hvar hún fékk kjólinn sem vakti svona mikla athygli – „Ég er heltekin af þessu dressi“

Anna Svava ljóstrar upp hvar hún fékk kjólinn sem vakti svona mikla athygli – „Ég er heltekin af þessu dressi“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vikan á Instagram – „Enginn mistilteinn en djúsí koss við jólatréð“

Vikan á Instagram – „Enginn mistilteinn en djúsí koss við jólatréð“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þráði stærri brjóst og lagði fermingarpeningana til hliðar fyrir stækkun – Lét taka púðana 9 árum seinna og útskýrir af hverju

Þráði stærri brjóst og lagði fermingarpeningana til hliðar fyrir stækkun – Lét taka púðana 9 árum seinna og útskýrir af hverju
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gunnar Máni og fjölskylda misstu heimili sitt í Grindavík – Hálfu ári síðar missti hann vinnuna vegna eldsvoðans í Kringlunni

Gunnar Máni og fjölskylda misstu heimili sitt í Grindavík – Hálfu ári síðar missti hann vinnuna vegna eldsvoðans í Kringlunni
Fókus
Fyrir 5 dögum

Þetta pöntuðu Íslendingar sér á Wolt á árinu – Dýrasta pöntunin kostaði 136 þúsund

Þetta pöntuðu Íslendingar sér á Wolt á árinu – Dýrasta pöntunin kostaði 136 þúsund
Fókus
Fyrir 5 dögum

Kolbrún syrgir bróður sinn

Kolbrún syrgir bróður sinn