Sigmar Vilhjálmsson, Simmi Vill, var hrókur alls fagnaðar í þingveislu Alþingis sem fram fór á föstudagskvöldið. Eins og kunnugir vita er Sigmar hvorki þingmaður né starfsmaður þingsins.
Sigmar segist í samtali við Vísi einfaldlega hafa átt fund í forstofu Nordica á sama tíma, og ónefndir þingmenn hafi dregið hann inn í veisluna sem haldin var í sal inn af anddyrinu. Þar spjallaði Sigmar meðal annars við Ingu Sæland formann Flokks fólksins, og fleiri þingmenn, auk þess að drífa Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra út á dansgólfið.
„Ég var spurður hvað ég væri að gera þarna og sagðist vera í starfskynningu. Það var nú eiginlega brandarinn. Jájá, ég held að þetta sé mjög skemmtilegur vinnustaður.“
Aðspurður um hvort hann hyggist bjóða sig fram í næstu kosningum, segist Sigmar hafa velt því fyrir sér, þar sem hann hafi áhuga á stjórnmálum. „Jájá, ég hef velt því fyrir mér nú í aðdraganda nokkurra kosninga í röð en ekki fundist ég hafa til að bera nægilega mikinn þroska. Ekki fundist ég búinn að gera nógu mikið. Ég er áhugasamur um að sjá breytingar í menntamálum, viðskiptaumhverfinu, jafnari stöðu í atvinnulífinu og samgöngum.“