fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fókus

Stefán Þór segir ekki alltaf auðvelt að vera leikari í Japan – „Þriðja stærsta hagkerfi heims vill ekki eyða mikilvægum fjármunum í listsköpun“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 14. maí 2023 16:30

Stefán Þór í japanskri auglýsingu fyrir enskukennslu á netinu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég vinn og starfa við alls konar verkefni. Ég er svokallaður verktaki, samt ekki týpan sem byggir hús. Ég er verkfræðimenntaður leikari, hlaðvarpsþáttastjórnandi, fyrirsæta og leiðsögumaður. Já, og svo bý ég í Japan.

Nú erum við að sjá fyrir endan á fyrsta fjórðungi 21. aldar og fólk hefur eflaust heyrt fregnir um komu gervigreindar og algríma sem gætu tekið af okkur hin og þessi störf.

Sem dæmi um slík störf hafa sumir nefnt lögfræðistörf, þjónustufulltrúa, endurskoðendur, fjárfestingar og pistlaskrif eins og þau sem ég stend í þessa stundina (er þessi pistill kannski skrifaður af gervigreind?).

Stefán Þór í Tokyo. Mynd/Stefán Þór

Jákvæð heildarútkoma

Persónulega held ég samt að heildarútkoman verði jákvæð þar sem ný störf munu skapast við þessa byltingu en fólk þarf engu að síður að vera meðvitað um möguleikann á nauðsyn þess að geta brugðist við og snúið sér að einhverju öðru ef svo ber undir.

Ég held líka að stjórnvöld þurfi að ráðast í endurmat á virði og verðmæti mismunandi vinnu sem fólk innir af hendi. Staðreyndin er nefnilega sú að við vinnum flestöll mjög mikið en sú vinna er ekki endilega metin til fjár.

Samfélagsvinna, listsköpun og uppeldi barna eru dæmi um vinnu sem ég tel að skapi mikil verðmæti sem þó lítið sem ekkert er greitt fyrir. Í nútímasamfélagi er þetta kannski eðlilegt enda lýtur allt sömu lögmálum – verð vinnunnar skal metið af þeim fjármunum sem hún skilar.

En í samfélagi þar sem kerfi byggð á gervigreind og sjálfvirknivæðingu hafa tekið við af okkur í hinum ýmsu skyldum og verkefnum þarf kannski að finna nýja skilgreiningu á verði vinnu.

Mánaðarlaun fyrir dagsvinnu

Aftur að mér, ég vinn sem sagt alls konar vinnu hér í Tokyo og fæ greitt fyrir suma en aðra ekki. Ég er leikari í leikhúsi, við erum að setja upp leiksýningu og það er nærandi og skemmtilegt. Það er líka tímafrekt og líkamlega orkufrekt. Það er líka launalaust.

Ástæðan fyrir því er einföld, þriðja stærsta hagkerfi heims vill ekki eyða mikilvægum fjármunum í svona listsköpun, það er einfaldlega ekki þess virði.

Við náum kannski að safna saman 500-600 manns sem koma á sýninguna og borga miðaverðið en það dugir rétt svo til að greiða fyrir leiguna á leikhúsinu og æfingarrýminu.

Japanska leikhúsið – Stefán Þór í hlutverki Herra Darcy

Ég er líka leikari í auglýsingum og sjónvarpsþáttum og það er líka nærandi og skemmtilegt. Það er launað og oft á tíðum vel launað, sérstaklega auglýsingar. Þar er nefnilega verið að búa til fjárhagsleg verðmæti. Með auglýsingu er hægt að fá fólk til að kaupa ákveðna vöru sem skilar sér í fjármunum fyrir fyrirtækið sem auglýsir. Það fyrirtæki er því til í að borga heil mánaðarlaun fyrir dagsvinnu leikara.

Auðvitað er leikarinn ekki að selja dagsvinnu, viðkomandi er að selja andlitið á sér til sex mánaða eða eins árs.

Þetta eru dæmi um hvernig vinna er verðmetin út frá því fjárhagslega virði sem hún skapar. Ef ríkisstjórnin hér myndi líta svo á að fólkið sem fer í leikhús og sér gamansýninguna okkar hugsi hversu heppin þau séu að búa í svona frábærri borg sem Tokyo er, að það brosi, hlægi og gleymi stressi og áhyggjum, þó ekki sé nema í eina kvöldstund, þá mundi ríkið kannski greiða okkur styrk svo að við getum greitt starfsfólki fyrir vinnu sína.

En Japan er ekki alveg komið þangað.

Ég vona þó að með komandi tæknibyltingu muni fólk fara að hugsa fram í tímann og skoða hvort vinna sé best metin út frá því sem hún skilar fjárhagslega, eða því sem hún skilar tilfinningalega. Sumt verður nefnilega ekki metið til fjár.

Þessi umræða er meðal þess sem tekið er fyrir í nýjasta þætti af hlaðvarpinu Heimsendir sem höfundur sér um. Þar kafa ég dýpra í leikaralífið í Tokyo, prufur og verkefni, fjarvinnu og fleira.

Þátturinn er aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum, þar á meðal á Spotify og Apple Podcasts, sem og á Patreon.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Svona er einfalt mataræði og morgunmatur Victoriu Beckham 

Svona er einfalt mataræði og morgunmatur Victoriu Beckham 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leikarastéttin flykktist á óhugnanlega frumsýningu

Leikarastéttin flykktist á óhugnanlega frumsýningu