Það gæti verið svo að nú sé fundið óvenjulegasta baðherbergi landsins, en um er að ræða baðherbergi sem finna má við Norðurgötu í Sandgerði, í einbýlishúsi sem nú er til sölu.
Í reynd er einbýlið eiginlega fjölbýli þar sem því hefur nú verið breytt í fimm íbúðir sem allar eru með sérinngang. Húsið er þó enn skráð á aðeins eitt fastanúmer svo það fær að kallast áfram einbýlishús og er selt sem slíkt. Húsið hefur verið mikið endurnýjað að innan sem utan og fylgir því útihús með heitum potti.
Samkvæmt þjóðskrá er húsið rúmir 276 fermetrar að stærð en inn í þá tölu vantar litla viðbyggingu, og auk þess er útihúsið óskráð.
Baðherbergið óvenjulega má finna í einni íbúðanna. En um er að ræða tveggja herbergja íbúð sem er 64,9 fermetrar að stærð. Er baðherberginu lýst sem svo að það sé að hætti víkingsins, þar séu flísar á gófli, vegghengt salerni, innrétting með handlaug, baðkar eða heitur pottur með sturtu.
Eignin er laus strax við kaupsamning og fæst á 135 miljónir, en fasteignamat er 30,5 milljónir.
Nánar má lesa um eignina á fasteignavef DV.