Grímur Garðarsson, eigandi Bestseller á Íslandi, hefur einbýlishús sitt að Sjafnargötu í Reykjavík á sölu. Félag Gríms, Sonja ehf., er skráður eigandi hússins. Smartland greindi fyrst frá.
Eignin er 384 fm á þremur hæðum, byggt 1930 í svokölluðum Funkis-stíl. Fasteignamat hússins er 233.600.000 kr. en óskað er eftir tilboðum. Húsið var uppgert að innan árið 2020, auk þess sem skipt var um þak og settar þaksvalir í staðinn, en af þeim er gott útsýni yfir borgina.
Eignin skiptist í: frá Sjafnargötu er gengið upp nokkrar tröppur inn á miðhæð, sem skiptist í forstofu, gestasalerni, eldhús og borðstofu með útgangi út á suðursvalir, og tvær stofur. Á efri hæð eru fjögur svefnherbergi og baðherbergi, frá hjónaherberginu er útgengt á suðursvalir og inn af herberginu er sér baðherbergi. Af stigapalli efri hæðar er gengið upp í arinstofu á efstu hæð hússins, þaðan er hægt að ganga út á þaksvalirnar. Kjallari er með sér inngangi og skiptist í hol, þvottahús, tvö herbergi, skrifstofu, baðherbergi og geymslu. Möguleiki er á að útbúa séríbúð í kjallara. Bílskúr fylgir og sér bílastæði fylgir húsinu fyrir framan hann.
Svona leit húsið út fyrir breytingar.
Nánari upplýsingar um eignina má finna hér.