fbpx
Miðvikudagur 07.ágúst 2024
Fókus

Hún var gift Hitler í korter og kaus að deyja með honum – Hver var hin unga Eva Braun og var hún illmenni eða fórnarlamb?

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Föstudaginn 21. apríl 2023 20:00

Eva Braun var heltekin af Hitler.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hún var gift einum þekktasta einræðisherra og fjöldamorðingja heims, Adolf Hitler. Hjónabandinu lauk eftir korter með sjálfsvígum þeirra beggja.

En hver var Eva Braun, konan sem var honum 23 árum yngri? Konan sem stóð með Hitler í gegnum þykkt og þunnt í 16 ár, og fylgdi honum jafnvel í dauðann? En var að sama skapi falin fyrir almenningi?

Fallegasta stúlkan í München?

Árið 1929 mætti Hitler, þá fertugur,  í myndatöku hjá sínum uppáhalds ljósmyndara, Heinrich Hoffman. Hann var þá nýbúinn að ráða 17 ára stúlku sem aðstoðarmann, hina ljóshærðu og íturvöxnu Evu Braun, og var hún í snarhasti send út að kaupa bjór og kruðerí fyrir Hitler.

Hún eldroðnaði þegar að Hitler þakkaði henni veitingarnar.

Eva Braun var með stór blá augu, stutt ljóst hár og þrátt fyrir menntun í kaþólskum stúlknaskóla vissi hún mæta vel að karlmenn löðuðust að henni. Og hvernig hún hún skyldi taka því.

Hún var af sumum kölluð fallegasta stúlkan í München, heimaborg hennar. Faðir hennar, Friedrich, var kennari og móðir hennar, Franziska, var  saumakona áður en til hjónabandsins kom. Sneri hún sér þá að uppeldi þriggja dætra þeirra. Eva var miðjubarnið.

Hún var miðlungsnemandi en þótti standa sig afar vel í íþróttum.

Eftir að skólagöngunni lauk hóf Eva starf sem aðstoðarmaður á ljósmyndastofu Hoffmans. Fyrst í afgreiðslu en með tímanum hóf Hoffman að kenna henni og varð Eva nokkuð góður ljósmyndari.

Hitler neitaði sjálfur að kvænast en sagði best að kvænast hlýðinni konu.

Alltaf að velja konu sem hlýðir

Eva hafði ekki hugmynd um hver maðurinn með fyndna yfirvaraskeggið var þegar hún hitti hann í fyrsta skipti, Sagði Hoffmann síðar að Eva hefði ekkert fylgst með stjórnmálum, reyndar verið óttaleg „blondína” með lítinn áhuga á öðru en förðun og tísku.

„Hún sæt ung stelpa, sem þrátt fyrir að vera óttalegur kjáni, eða kannski einmitt vegna þess, var nákvæmlega það sem Hitler var að leita að til að geta slakað á með.”

Kvenhylli Hitlers jókst stöðugt eftir því sem hann varð valdameiri. Og hann kunni svo sannarlega að meta þessar nýju vinsældir. Það kom oft fyrir að konur reyndu að kyssa fætur hans og sumar jafnvel átu steina eða mold sem hann hafði staðið á.

En Hitler sagði sínum nánustu samverkamönnum að greindir karlmenn ættu alltaf að velja sér hlýðna, heimska og jafnvel frumstæða konur.

Konu sem hlýddi.

Eva var heltekin af Hitler.

Með Hitler á heilanum

Hoffmann sá að Eva var heilluð af Hitler en aftur á móti sá hann ekkert sem benti til að hann hefði áhuga á henni. Datt honum aldrei í hug að eitthvað meira yrði úr kynnum þeirra.

Hitler og Eva hittust öðru hvoru næstu tvö árin.

En Eva vildi meira þrátt fyrir að vita að Hitler var með aðrar konur í takinu. Hún var þá orðin heittrúuð á boðskap nasista og tilbað Hitler. En af einhverju ástæðum gekk Eva aldrei í flokk nasista.

Í bréfum og samtölum við vini kemur fram ,að þótt hún vissi af öðrum konum í lífi einræðisherrans, átti hún bágt með að sætta sig við að vera ekki eina konan í lífi hans.

Það má segja að Eva Braun hafi haft Hitler á heilanum.

Fyrsta sjálfsvígstilraunin

Hún reyndi sjálfsvíg í ágúst árið 1932, þá tvítug að aldri,  með því að skjóta sig í bringustað. Sagnfræðingar telja að Eva hafi mæta vel vitað að skotið yrði henni ekki að bana, hún var að sækjast eftir afthygli frá Hitler.

Eva Braun | Facts, Biography, Picture, & Death | Britannica
Eva Braun.

Sem reyndar tókst, því Hitler hóf að eyða meiri tíma með henni og Eva fór meira að segja að gista í íbúð Hitlers öðru hvoru. Og þar sem Hitler hafi skipað Hoffman sem sinn  persónulega ljósmyndara, gat Eva fylgt Hitler eftir, sem aðstoðarmaður Hoffmans.

Hún kvartaði sárlega við vinkonu sína þegar að Hitler gaf henni ekki afmælisgjöf á 23 afmælisdegi hennar, árið 1935. Hún hefði því sjálf keypt sér skartgripi í tilefni dagsins og vonaðist til að elskhugi hennar kynni að meta þá.

Um svipað leyti skrifaði Eva í dagbók sína að þótt veðrið væri dásamlegt þyrfti hún, ástkona Þýskalands og heimsins stórfenglegasta manns, að sitja inni og láta ekki fara fyrir sér.

Hún var einnig þung í skapi vegna frétta af nýrri ástkonu Hitlers sem hún kvað bæði ljóta og leiðinlega.

En Eva bætti einnig við að sama hvað, þá vissi hún að hún væri stóra ástin í lífi Hitlers, og að því kæmi að hann myndi kvænast henni.

Það reyndist rétt en sennilegast var brúðkaupið langt frá öllu því sem hún hafði ímyndað sér.

Þrátt fyrir allt gekk Eva aldri í flokk nasista.

„Góði guð, láttu hann svara mér“

Þetta sama ár, 1935, lofaði Hitler Evu að kaupa handa henni stórhýsi og var hún frá sér numin af gleði. En húsið lét á sér standa og skrifaði hún í dagbók sína að hún væri full örvæntingar og hyggðist taka fleiri róandi lyf og svefnlyf „til þess að hugsa ekki stöðugt um hann.”

„Hann segist elska mig en tekur það jafn alvarlega og öll hin loforðin sem hann stendur aldrei við. Af hverju kvelur hann mig svona í stað þess að binda enda á sambandið?”

Hún skrifaði Hitler bréf í maí og setti honum afarkosti. ,,Ef ég fær ekki svar fyrir klukkan tíu í kvöld ætla ég að taka 25 svefntöflur og sofna að eiilífu.“

Í dagbók sína skrifaði hún; „Góði guð, láttu hann svar mér. Ég tek ekki 25, heldur 35 svefntöflur ef hann svarar ekki, það tryggir að ég deyi.”

Smám saman fór Eva að sjást með Hitler en bara í sumarhúsinu.

Á þessum tíma, ári 1935, var Hitler á kafi í pólitískri baráttu um kanslaraembætti Þýskalands. Nokkrum árum áður hafði systurdóttir hans, og hugsanleg ástkona, Geli Raubal, skotið sig til bana í íbúð hans.

Hitler mátti ekki við öðru hneyksli. Eva lifði af inntöku svefntaflanna, sem einkaritari Hitlers sagði hafa aldrei verið í því magni til að valda dauða, og í kjölfarið fékk hún eigin glæsiíbúð.

Hún fékk einnig herbergi við hlið einræðisherrans, bæði í bústað kanslara svo og sumarhúsi hans í þýsku ölpunum.

Alltaf falin

Eva kom aldrei opinberlega fram með Hitler og aðeins hans nánustu vissu af tilveru hennar.

Svo virðist sem Hitler hafi kunnað að meta skilyrðislausan trúnað Evu. „Þetta er konan sem stóð alltaf með mér, einnig þegar allir aðrir yfirgáfu mig,” sagði Hitler síðar við einn aðstoðarmanna sinna. „Þú mun aldrei skilja hvað það skipti mig miklu.”

Adolf Hitler gætti þess vandlega að enginn vissi af kvennamálum hans. Hann eyðilagði öll bréf frá Evu, svo og öðrum ástkonum, um leið og hann hafði lesið þau.

Hann harðneitaði að kvænast og hélt því fram í ræðum sínum til almennings að  hans stóra ást væri Þýskaland. Það væri ekkert pláss fyrir eiginkonu og fjölskyldu, öll hans ástríða væri bundin við framtíð landsins.

Hitler vissi mætavel að almenningur myndi ekki taka vel í að vita af Evu Braun.

Ástkona, hvað þá ástkonur, pössuðu engan vegin inn í þá ímynd sem hann hafði lagt á sig að skapa, ímynd af guði líkum föður þjóðar, sem fórnaði einkalífi sínu í þágu almennings.

„Eiginkona er vesen, hún getur farið fram á hluti sem ástkona getur ekki,“ sagði hann eitt sinn við einn vina sinna.

Og því var Evu Braun haldið í felum svo að segja allan fjórða áratuginn.

Eva ásamt Hitler.

Lék sér á meðan stríð og morð stóðu yfir

En um kringum 1940 fóru  Eva og Hitler að eyða sífellt meiri tíma saman. Meira að segja háttsettir leiðtogar nasistaflokksins leituðu eftir vináttu Evu til að komast nær Hitler.

Eva lét sem hún vissi ekki af seinni heimsstyrjöldinni.

Hún bjó sumarhúsi Hitlers, Berghof, og eyddi mestum tíma í að skíða, synda, lesa ástarsögur og snyrta sig. Meðan að milljónum var slátrað á vígvöllum og útrýmingarbúðum, átti Eva það til að skipta um föt allt að sjö sinnum á dag. Hún heyrðist aldrei ræða stjórnmál, hvað þá styrjöldina.

Það var aðeins í Berghof sem Eva fékk að njóta sín við hlið Hitlers og leika eiginkonuna sem hana dreymdi um að verða. Og það voru aðeins útvaldir sem fengu boð í Berghof.

Þýskur almenningur hafði ekki hugmynd um tilveru hennar og allar ljósmyndir af hennir voru merktar „einkamál” og bannaðar til birtingar, í  hvaða formi sem var.

Die Frau an Hitlers Seite - DER SPIEGEL
Eva lét sem hún vissi ekki af stríðinu.

Græddi vel

Eva tók aftur á móti fjölda ljósmynda í Berghof sem eru ómetanlegar heimildir um Hitler og vinahóp hans.

Eva tók einnig myndir af Hitler sem hann samþykkti til birtingar. Voru þær einkum af foringjanum í hópi barna sem mændu á hann aðdáunaraugum og áttu að sýna Hitler sem umhyggjusaman föður allra barna Þýskalands.

Hún seldi síðan sínum gamla yfirmanni, Hoffman, myndirnar og græddi vel.

Eva eyddi stórfé í skartgripi, fatnað, pelsa og annað slíkt og gætti þess alltaf að vera fullkomlega förðuð, klædd og greidd þegar hún settist við hlið Hitlers á matmálstímum í Berghof.

En hann neitaði samt sem áður að kvænast henni sem olli henni mikilli óhamingju.

Loksins hjónaband 

Þann 29. apríl 1945 réðust Sovétmenn inn í Berlín. Þýskaland hafði tapað stríðinu.

Hitler og hans nánustu fylgismenn flúðu í neðanjarðarskýli, ætlað foringjanum ef til slíks kæmi. Þá um nóttina bað Hitler loks Evu og fór afar einföld athöfn fram í skýlinu. Hitler, Eva og þeirra nánustu vinir skáluðu í kampavíni að athöfninni lokinni og snæddu svo spaghetti með tómatsósu, enda lítið annað í boði.

Eva afsakaði sig frá matnum, fór og skipti um föt, í kjól sem hún vissi að Hitler var hrifin af. Á meðan skrifaði Hitler erfðaskrá sína.

Eva Braun

Þar næst lokuðu nýgiftu hjónin sig inni í eigin rými í skýlinu. Hitler hafði áður sagt Evu að kæmi til þess að Þýskaland tapaði stríðinu myndi hann fyrirfara sér og samþykkti Eva að deyja með honum.

Hitler ákvað að skjóta sig. Eva, sem áður hafði sagt að slíkt væri ,„subbulegt,” kaus þess í stað að taka inn blásýru. Enda nýförðuð.

Eftir að heyra skot, rauk lífvörður Hitlers inn í rýmið og sá hjónin látin, hlið við hlið í sófa. Hjónabandið stóð í 15 mínútur.

Dómur sögunnar?

Hver er dómur sögunnar um Evu Braun? Var hún illmenni eða fórnarlamb?

Það er engin spurning að hún vissi um allt sem gekk á en aldrei heyrðist hún hallmæla Hitler á nokkurn hátt. Né gagnrýna stríðsreksturinn, hvað þá útrýmingarbúðirnar, sem hún vafalaust vissi af.

Það fór lítið fyrir Evu við matarborðið og í kokteilboðunum, en hún heyrði allt sem rætt var.

Var sagt að Hitler hefði aldrei slakað jafn vel á og í félagsskap Evu.

Albert Speer, uppáhalds arkitekt Hitlers og náinn vinur sagði síðar:

,Ást og hollusta Evu gagnvart Hitler var algjör. Og hún sannaði þá hollustu í dauða sínum. En það er ekki mikið annað hægt að segja um Evu, hún hafði ekki yfir neinu sérstöku að búa og mun verða sagnfræðingum framtíðarinnar mikil vonbrigði. En eitt veit ég, og það er að hún var ekki hamingjusöm kona.”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Orðrómur um nýja kærustu Tom Cruise – Einhent og 37 árum yngri en kvikmyndastjarnan

Orðrómur um nýja kærustu Tom Cruise – Einhent og 37 árum yngri en kvikmyndastjarnan
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sér eftir því að hafa opnað hjónabandið og vill loka því aftur

Sér eftir því að hafa opnað hjónabandið og vill loka því aftur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hvers vegna kettir eru svo hræddir við agúrkur

Hvers vegna kettir eru svo hræddir við agúrkur
Fókus
Fyrir 4 dögum

Heilabrot: Aðeins þeir með arnarsjón finna manninn í bláa jakkanum á 30 sekúndum

Heilabrot: Aðeins þeir með arnarsjón finna manninn í bláa jakkanum á 30 sekúndum
Fókus
Fyrir 6 dögum

Deilir ákaflega grafískum myndum fyrir sextándu húðkrabbameinsaðgerðina – „Raunveruleikatékk“

Deilir ákaflega grafískum myndum fyrir sextándu húðkrabbameinsaðgerðina – „Raunveruleikatékk“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Handtökuskipun gefin út á hendur Katie Price

Handtökuskipun gefin út á hendur Katie Price