Nikki Haley, sem sækist eftir útnefningu Repúblikana fyrir bandarísku forsetakosningarnar á næsta ári, hefur verið gagnrýnd nokkuð harðlega eftir að hún birti mynd af sér í brúðkaupi dóttur sinnar á dögunum.
Á myndinni sést Haley með eiginmanni sínum, Michael, syni sínum Nalin, dótturinni Renu og nýbökuðum eiginmanni hennar, Josh Jackson.
Sú staðreynd að Haley var í hvítum kjól á myndinni hefur farið fyrir brjóstið á sumum. Vilja þeir sem harðast fram ganga meina að Haley hafi reynt að stela athyglinni frá dóttur sinni.
„Af hverju í fjandanum ertu í nánast hvítum kjól sem auðveldlega gæti verið brúðarkjóll?,“ sagði einn netverjinn á Twitter. „Það er mjög eigingjarnt af þér að reyna að stela athyglinni frá henni, en kemur kannski ekki á óvart,“ bætti annar við og enn annar spurði: „Var í móðir brúðarinnar í HVÍTU?“
Haley mun væntanlega berjast við Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, um útnefningu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar en flestir telja að möguleikar hennar á útnefningu séu litlir.