Soffía Hrönn Halldórudóttir er 38 ára móðir, dóttir og systir sem á stóra sögu. Hún er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterk saman.
Soffía ólst upp í Breiðholti og var hún fyrri dóttir foreldra sinna. Á heimilinu var mikið ofbeldi, líkamlegt, andlegt og kynferðislegt.
Soffía segir frá því hvernig ofbeldið hafi byrjað.
Pabbi byrjað þegar ég var tveggja ára
„Pabbi byrjaði að „grooma‟ mig þegar ég var tveggja ára en þá kom mamma of snemma heim úr vinnunni og hann sat með mig í fanginu á klósettinu og var að runka sér‟, segir hún og bætir við að þegar mamma hennar hafi verið ólétt af henni hafi vistmaður á Kleppi sparkað fast í kviðinn á henni, fyrir utan allt ofbeldið sem hún varð fyrir heima.
„Ég fæddist í fight or flight.‟
Það var aldrei öryggistilfinning í æsku Soffíu, hún á margar minningar um vondar tilfinningar þar sem hún fór eitthvert ein með föður sínum, án móður sinnar og systur.
„Ég ákvað um leið og ég hafði vit til að pabbi myndi aldrei fá að meiða systur mína, ég ætlaði að verja hana. Hún var það fallegasta í heimi. Ef hún hellti niður og hann sá það ekki þá sagðist ég hafa gert það og tók þá á mig höggin.‟
Misnotuð af fjölda manna
Soffía var enn barnung þegar faðir hennar hóf að misnota hana kynferðislega auk þess að leyfa öðrum mönnum að gera slíkt hið sama.
„Ég spurði alltaf gesti hvort ég mætti koma með þeim heim og meinti það og ég óskaði þess svo heitt að hann myndi deyja.‟
Aðspurð hvort hún geti ímyndað sér hugsun móður hennar þegar faðir hennar barði börnin og hvort hún hafi ekki viljað taka það á sig segir hún: „Nú er ég móðir og pottþétt vill maður það en það sagði enginn neitt við hann, hann var búinn að koma því þannig fyrir að það voru alltaf allir á nálum. Hann var nálægt því að drepa hana nokkrum sinnum.‟
Besti dagurinn þegar farið var í Kvennaathvarfið
Einn daginn fékk móðir hennar gott tækifæri þegar faðir hennar fór út að skemmta sér.
„Þetta er minn uppáhalds dagur ennþá í dag. Um leið og pabbi fór út kallaði mamma á okkur systur að setja dótið okkar í svartan poka því við værum að fara í Kvennaathvarfið.
Við fórum í leigubíl og það var tekið á móti okkur. Í fyrsta skipti sá ég aðra krakka sem voru í sömu eða svipaðri stöðu og ég, allir svolítið tættir og þarna lofaði mamma okkur að við þyrftum aldrei að búa aftur með pabba okkar.‟
Unglingsárin voru flókin fyrir Soffíu, hún hafði, eðli málsins samkvæmt, ekki unnið úr sínum stóru áföllum sem höfðu mótað hana svo hún flúði í neyslu vímuefna.
Félagsleg tengsl erfið
Hún þráði að komast frá raunveruleikanum sem hún lifði í.
Soffía átti erfitt með að tengjast öðrum krökkum og voru félagsleg tengsl ekki hennar sterka hlið. 18 ára gömul varð hún edrú og hefur því verið frá hugbreytandi efnum í 20 ár.
Á fullorðinsárum fann Soffía að hún þurfti að vinna úr þessum þungu áföllum, sem hún hefur gert með miklum sóma og dugnaði sem hún segir okkur meðal annars frá.
Það má hlusta á viðtalið við Soffíu Hrönn Halldórudóttur í heild sinni í hlaðvarpinu Sterk saman.