Ekaterina Didenko var gríðarlega vinsæll áhrifavaldur í Rússlandi, með 1,6 milljónir fylgjenda. Föstudaginn 28. febrúar árið 2020 ákvað hún að halda veglega veislu í tilefni af 29 ára afmæli sínu.
Eftirminnilegt af röngum ástæðum
Afmælið átti eftir að verða eftirminnilegt en ekki af þeim ástæðum sem Ekaterina vonaðist til. Þrír létust og sjö aðrir lentu á sjúkrahúsi.
Ekaterina, sem er tveggjar barna móðir, og eiginmaður hennar, hin 32 ára Valentin, leigðu sundlaug í vinsælli heilsulind, Devyaty Val. Var hún ætluð hinum níu veislugestum sem höfðu verið það gæfusamir að fá boð í afmæli stjörnunnar.
Örfáum klukkustundum síðar var Valentin, ásamt tveimur öðrum gestanna, látinn.
Slys eða morð?
Fyrr um daginn hafði Ekaterina póstað mynd af sér á á Instagram. Hélt hún á gylltum blöðrum sem mynduðu töluna 29 og í texta sagði hún framundan eina af örfáum afmælisveislum sem hún héldi.
Það sem síðar gerðist hefur ýmis verið kallað skelfilegt slys eða hreinlega morð.
Ekaterina, sem merkilega nokk er menntaður lyfjafræðingur, skrifaði reglulega pistla um lyfjafræði og efnafræðitilraunir sínar auk hefðbundnara efnis á við uppskriftir, sparnaðarráð og einkalíf sitt.
Að sjálfsögðu var veislan haldin með samfélagsmiðla í huga.
Ekaterina og Valentin höfðu keypt 25 kíló af þurrís og í myndbandi, sem síðar var dreift, sjást hlæjandi veislugestir hella þurrísnum í laugina, klædda hlífðargöllum og með hlífðargleraugu.
Átti að vera svalt og draugalegt
Hugmyndin að baki þurrísnum var að skapa svalt og draugalegt umhverfi, þakið þoku, í og við laugina. Var laugin kærkomin eftir heitt gufubað, sem gestirnir voru að stíga út úr.
Þegar þurrís kemst í snertingu við vatn myndast koltvísýringur í gasformi og kalt og rakt loft. Þetta er ekki hættulegt í litlu magni en í miklu magni getur þetta kæft fólk því þá er ekki nóg súrefni til staðar.
Það var einmitt það sem gerðist í veislunni og varð þremur að bana.
Myndbandinu lýkur þegar að gestirnir hoppa ofan í sundlaugina, fyllta þurrísnum, og hverfa undir yfirborðið, baðandi út öllum öngum. Þeir sjást ekki koma upp aftur. Þeir voru að deyja.
Valentin náði að koma sér upp úr lauginni en lést á sjúkrahúsi síðar um nóttina. Tveir vinir þeirra, Natalia Monakova og Yuri Alferov, bæði 25 ára köfnuðu en aðrir gestir hlutu alvarleg brunasár.
Siðleysi
Daginn eftir veisluna skelfilegu hélt Ekaterina áfram að pósta á samfélagsmiðla, eins og ekkert væri. Hún hafði þá verið ekkja í nokkrar klukkustundir, tveir vina hennar látnir, og aðrir stórslasaðir.
Kvartaði hún þar yfir að afmælið hennar hefði verið ónýtt og kenndi lélegum þurrís um. Birti hún myndbandið af fólkinu deyjandi.
Opnaðist þá flóðbylgja kvartana, bæði frá almenningi og fjölmiðlum, og var Ekaterina ásökuð um siðleysi fyrir að reyna að græða á harmleiknum.
Ný brjóst og nýr maður
Enn fremur spurðu fjölmargir að því hvernig á því stæði, að manneskja með lyfjafræðimenntun, hefði dottið slíkt rugl í hug, að setja þurrís í sundlaug og hvetja fólk til að stökkva ofan í.
Svaraði hún því til að hún hefði haldið að laugin væri nógu stór til að þola 25 kíló af þurrís og kvartaði yfir að svæðið hefði ekki verið nógu vel loftræst.
En Ekaterínu tókst að þrefalda fylgjendahóp sinn og tveimur mánuðum síðar fór hún í brjóstastækkun og giftist aftur.
Hún var aftur á móti ákærð fyrir manndráp af gáleysi og mallar það mál enn einhvers staðar í rússneska kerfinu.