Atli Már Steinarsson, útvarpsmaður á RÚV, fékk ADHD greiningu fyrir rúmum þremur árum og hefur talað opinskátt um glímuna sem fylgir því að lifa með ADHD. Atli Már segir sögu sína í afmælisriti ADHD-samtakanna sem er nýlega komið út.
„Mér finnst að allir ættu að fara til sálfræðings, hvort sem þeir eru með einhver vandamál eða ekki, því það að vera mannvera er flókið út af fyrir sig. Treystið líka á innsæi ykkar og innri rödd, ef ykkur grunar að eitthvað geti verið að látið þá tékka á því, sálfræðingur getur alltaf hjálpað. Fyrir mér er þetta bara eins og ef maður sér illa þá þarf maður gleraugu til að sjá betur, ef maður er fótbrotinn þá þarf maður hækjur. Lyf eða einhverskonar hjálp við ADHD er ekkert öðruvísi. Mögulega þarftu lyf til að heilinn á þér virki vel og þér líði betur,“ segir Atli Már beðinn um ráð til þeirra sem eru greindir með ADHD eða grunar að þeir séu með það.
Ógreint ADHD hafði áhrif á sjálfsmyndina
Aðspurður segir Atli Már ógreint ADHD hafa haft áhrif meðal annars á sjálfsmyndina. „Ég þandi kassann dálítið út með strákastælum og byggði sjálfsmyndina á því að vera fyndni heimski náunginn, þannig bjó ég til mína týpu. Ég var rosalega viðkvæmur fyrir því ef einhver ýjaði að því að ég væri vitlaus. Mörgum árum áður en ég fékk greininguna var ég oft að hugsa að það væri eitthvað að mér. Ég höndlaði tilfinningar mínar illa, lenti til dæmis á vegg þegar ég hætti með fyrstu kærustunni minni og skildi ekki hvernig fólk sem hefur elskað hvort annað geti bara hætt því, þetta fór alveg með mig. Þá endaði ég hjá sálfræðingi. Ég sagði honum líka frá ákveðinni þráhyggju sem ég var með eins og að þurfa að gera ákveðna hluti eftir föstum reglum eins og að fara alltaf með ákveðna bæn áður en ég fór að sofa og banka í eitthvað. Þessi sálfræðingur greindi mig bara með einhverja jesúkomplexa og það var plástur í einhvern tíma og ég spáði ekki meira í þetta þá.”
Grasreykingar færðu ró
Atli Már ræðir einnig um hvernig grasreykingar og kanabisdropar færðu honum ró á meðan hann var ógreindur. Leitaði hann á náðir fíknisálfræðings til að fá aðstoð við að hætta á hugbreytandi efnum. „Í meðferðinni sagði ég honum frá því að ég væri aftur farinn að þrífa hendurnar mínar rosalega oft og ákveðnir kækir væru farnir að segja til sín sem varð til þess að hann vísaði mér til annars sálfræðings sem var sérhæfður í áráttu-og þráhyggju sem ég greindist með. Mér finnst mikilvægt að taka fram að áráttu-og þráhyggja er mjög íþyngjandi og óþægileg og eitthvað sem erfitt er að stjórna.“
„Í framhaldinu kemur svo upp þessi hugmynd um að ég gæti verið með ADHD en á þeim tíma var ég með dálitla fordóma gagnvart því. Mér fannst ADHD bara vera afsökun fyrir því að takast ekki á við hlutina. Sálfræðingurinn sendi mig í kjölfarið til geðlæknis sem var frábær og fyrsti aðilinn í lífi mínu sem útskýrir fyrir mér hvað ADHD er í raun og veru. Eftir samtal okkar sagðist hann vera 95% viss um að ég væri með ADHD en vildi samt senda mig í formlega greiningu sem ég samþykkti. Greiningaferlið tók heldur stuttan tíma eða tvo mánuði og niðurstaðan var ótvíræð. Ég var með ADHD.” Atli Már segir það hafa verið létti að fá einhverja niðurstöðu í sín mál en orðið að kljást við eigin fordóma.
„Ég velti því fyrir mér hvað tæki nú við. Eins þurfti ég að segja fjölskyldunni minni frá þessu og útskýra hvernig ADHD lýsti sér. Þau voru ekki alveg að tengja í fyrstu og bentu mér á að ég hefði alltaf verið þessi karakter. Þá þurfti ég að koma þeim í skilning um að margt í mínu fari væri ekki alveg eðlilegt og ég hefði verið að ströggla með sjálfan mig og lífið lengi. Í fyrstu átti ég heldur erfitt með að tala um þetta út á við og skammaðist mín dálítið en á sama tíma var þetta líka mikill léttir. Ég áttaði mig á því að ég væri hvorki skrítinn né heimskur, ADHD greiningin útskýrði svo margt í mínu fari. Mér fannst líka ákveðin huggun fólgin í því að vita að ég gæti ekkert gert að því hvernig heilinn í mér er.“
Viðtalið má lesa í heild sinni í afmælisriti ADHD-samtakanna.