Maríanna Pálsdóttir, snyrti- og förðunarfræðingur og eigandi Snyrtistofu Reykjavíkur, er pistlahöfundur á DV. Hún kemur til dyranna eins og hún er klædd og skrifar hreinskilna pistla um snyrtivörubransann og öðru því tengdu.
Sjá einnig: „Ég er stundum ekki viss hvað er ferming og hvað er hjónavígsla“ – DV
Í pistli vikunnar ræðir hún um megrun.
Ætla ég að kvelja mig með þessu ömurlega niðurrifi og sjúka sjálfstali allt mitt líf eða njóta lífsins og páskanna sem eru fram undan?
Núna fer vorið að koma og sumarið í allri sinni dýrð, þá fara megrunar myndirnar og kúra póstarnir að hrúgast inn á samfélagsmiðlana mína. Hingað til hefur appelsínuhúðað samviskubitið nagað mig upp að innan þegar ég sé þetta. Það sem er svo stórkostlegt núna er að ég finn þetta ekki hellast yfir mig. Ég er laus við þetta ömurlega niðurrif og sjúka sjálfstal sem hefur fylgt mér frá því ég man eftir mér.
Það vill svo skemmtilega til að ég stóð fyrir framan spegilinn um daginn, rassinn einhvern veginn hristist allur þegar ég smellti á hann, lærin og mjaðmirnar með allskonar hólum og hæðum, þrútin og stinn brjóstin út um allt og viti menn, ég horfði á þessa konu í allri sinni dýrð og sagði upphátt „ég elska að vera svona djúsí kona!“ En á sama tíma segir BMI stöðulinn minn mér að ég sé offitu sjúklingur og ætti að skrá mig í einhverja af þessum aðgerðum sem eru í boði til að verða mjó í hvelli. Er ekki eitthvað skrítið við þetta, ósamræmi í stöðlum og líðan?
Það kom dásamleg kona til mín í handsnyrtingu, hún er 82 ára gömul og ég spurði hana hvort það væri eitthvað sem hún myndi sjá eftir eða hvort hún myndi gera eitthvað öðruvísi ef hún mætti breyta með líf sitt, hún hugsaði sig um í örstutta stund og svaraði: „Já, ég sé eftir því að hafa verið í megrun allt mitt líf!“
Þetta var eins og rothögg fyrir mig, eldsnöggt leit ég yfir líf mitt og hugsaði: „Ég er nákvæmlega eins.“ Danski kúrinn, LKL kúrinn, Ketó, fasta, svelta sig kúrinn og guð almáttugur má vita hvað þetta allt saman hefur heitið.
Eitt er víst að ég ætla ekki að líta til baka 82 ára og sjá eftir því að hafa verið í megrun allt mitt líf. Jahh eða verða eins og konan sem greindist með alzheimer og hún man ekki eftir fjölskyldunni sinni en hún man eftir því að vera í megrun alla daga.
Gleðilega Páska kæru lesendur.
Kona kveður frá Austurríki þar sem hún ætla að fá sér risastórt páskaegg á sunnudaginn og njóta lífsins alls ekki í neinni fjandans MEGRUN því lífið er of stutt til þess!