fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Pistill Tryggva hefur vakið gríðarlega athygli – „Við höfum grafið holu sem börnin eru að drukkna í“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Miðvikudaginn 5. apríl 2023 10:59

Tryggva Hjaltason. Aðsend mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég held að núverandi ástand sem við íslenskir foreldrar höfum stillt upp fyrir börnin okkar mun eldast illa.“

Svona hefst pistill Tryggva Hjaltasonar sem hefur vakið mikla athygli á Facebook undanfarinn sólarhring. Hátt í fimm hunduað manns hafa deilt færslunni áfram og tekið undir orð hans um áhrif samfélagsmiðla á börn.

Tryggvi Hjaltason er giftur fjögurra barna faðir og starfar hjá CCP og er formaður Hugverkaráðs. Hann gaf DV góðfúslegt leyfi til að deila pistlinum með lesendum sem má lesa hér að neðan.

Hefur komist að afgerandi niðurstöðu

„Nú hef ég varið ágætist hluta af lífi mínu síðustu fimm árin (bráðum sex) í að reyna að skilja af hverju við stöndum frammi fyrir svona mikilli áskorun með börnin okkar á Íslandi.

Áskorun sem er ekkert falin. Áskorun sem er einfaldlega vel mæld bæði á innlendan mælikvarða og í alþjóðlegum samanburði. Áskorun sem er að vaxa. Það er alvarleg þróun í gangi á Íslandi sem tengir stóran hluta af þessum áskorunum saman og við þurfum að tækla saman núna strax.

Hvað áskoranir eru þetta?

Drengirnir okkar:

  • Eru í vaxandi mæli að detta út úr námi (metbrotfall úr framhaldsskólum og lægsta skráning í háskóla í OECD)
  • Geta illa lesið sér til gagns (34,4% útskrifast úr grunnskóla án þess að geta lesið sér til gagns skv. PISA)
  • Eru hraðast vaxandi hópur í mikilli örorku, 74% aukning á 75% örorkumati á árunum 2002-2022 fyrir 18-29 ára karlmenn skv. tölum Tryggingarstofnunnar, megnið er andlega tengt.

Stúlkurnar okkar

  • Eru að upplifa algjöra sprengingu í kvíða – 77% stúlkna í 10 bekk upplifir kvíða vikulega eða oftar. skv. Æskulýðsrannsókn árið 2022. Þetta hlutfall var 45% árið 2006.
  • Eru að upplifa sprengingu í vanlíðan. – 63,9% stúlkna í 10. bekk upplifirð depurð vikulega eða oftar árið 2022. Þetta var 48% árið 2006.

Strákarnir og stelpurnar okkar:

  • Eru í vaxandi mæli í mikilli svefnáskorun.
  • Árið 2006 voru t.a.m. 20.1% barna í 6. bekk á Íslandi sem sögðust eiga erfitt með að sofna oftar en einu sinni í viku samkvæmt Íslensku æskulýðsrannsókninni.
  • Árið 2022 voru 37.1% barna í 6. bekk sem áttu erfitt með að sofna oftar en einu sinni í viku og 51,3% ef tekið var með þeir sem eiga líka erfitt með að sofna u.þ.b. vikulega.
  • Á milli 2008 og 2016 18földuðust ávísanir á svefnlyfjum til drengja á aldrinum 10-14 ára.
Mynd/Pexels

Hvað kann að tengja allar þessar áskoranir saman?

Áskoranir barna okkar er margvíslegar og flóknar en eftir að hafa rætt við foreldra, kennara og sérfræðinga ásamt því að liggja yfir ýmis konar rannsóknum undanfarinn ár er ég orðinn algjörlega sannfærður um það að snjallsímanotkun barna okkar og þá sérstaklega samfélagsmiðlanotkun á talsverða sök í framangreindum áskorunum barna okkar. Þetta er ekki eina breytan, en hún er stór.

Ég vil tala umbúðalaust um þetta enda tel ég að þetta liggur orðið nægilega skýrt fyrir.

Íslenskt samfélag hefur að stóru leyti greitt fyrir umfangsmikilli upplýsinga miðlun og óreiðu beint inn í svefnherbergi og innsta persónulega rými barna okkar. 95% íslenskra barna í 4-7 bekk eiga síma og 60% barna á aldrinum 9-12 ára hafa fengið aðstoð frá foreldrum við að stofna aðgang á samfélagsmiðlum sem eru með 13 ára aldurstakmarki.

Kvíði og vanlíðan stúlkna, svefnvandi stúlkna og drengja og lesáskorun og tilgangsleysi drengja í menntakerfinu virðist tengjast þessari þróun. Að minnsta kosti ef eitthvað er að marka þá hundruði foreldra og kennara sem ég hef rætt við undanfarin ár og fjölda nýrra mælinga og rannsókna til að mynda fjölmiðlanefndar, landlæknis og æskulýðsrannsóknarinnar, skólamælingar og fleira.

Skiptir máli að spyrja réttu spurninganna

Við þurfum að grípa inn í sem samfélag og spyrja spurninga eins og:

Þarf barnið mitt sem er 11 ára virkilega aðgang að snapchat eða TikTok?

Nei snúum þessu frekar við og spyrjum:

Hvernig er ég að skaða barnið mitt sem er 11 ára gamalt með því að gefa því aðgengi að samfélagsmiðlum? Barni sem hefur skerta getu til að meta hagsmuni upplýsingaóreiðunnar og til að ráða við dópamín örvandi algorythma sem eru smíðaðir fyrir valdamestu fyrirtæki heimsins af klárustu verkfræðingum sem finnast sem hafa margir hverjir stigið fram og lýst því yfir að þeir bjuggu til hræðilegt verkfæri sem fer illa með fólk.

Ég held að núverandi ástand sem við íslenskir foreldrar höfum stillt upp fyrir börnin okkar mun eldast illa. Eftir 20 ár mun það vera jafn asnalegt að hafa gefið 11-12 ára barni óheftan aðgang að snjallsímum og samfélagsmiðlum eins og okkur finnst í dag að hafa keypt sígarettupakka eða vodkaflösku fyrir óharnaðan ungling fyrir 30 árum.

Lögum þetta saman og finnum heilbrigð viðmið sem samfélag og með börnunum okkar. Við höfum grafið holu sem þau eru að drukkna í.

Afsakið tilfinningarnar í þessum pistli, ég hef miklar áhyggjur af þessari þróun sem er því miður enn að mælast á hraðri niðurleið.

Börnunum okkar í hratt vaxandi mæli líður illa, sofa illa og meika ekki nám.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragna á von á barni

Ragna á von á barni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“