Í dag eru hundrað ár liðin frá fæðingu Gísla J. Ástþórssonar. Hann var fyrsti íslenski menntaði blaðamaðurinn og var þekktur á sinni tíð sem ritstjóri, blaðamaður, rithöfundur, teiknari og samfélagsrýnir. Gísli lagði áherslu á fréttaflutning óháðan flokkspólitík og beitti sér fyrir breytingum á umbroti og útliti blaða. Hann er einnig höfundur Siggu Viggu, fyrstu íslensku myndasöguhetjunnar, og teiknaði um árabil ádeiluseríuna Þankastrik.
Á afmælisdaginn verður Stefán Pálsson sagnfræðingur með erindi um líf og störf Gísla í Bókasafni Kópavogs kl. 12:15. Auk þess stendur yfir sýning á verkum hans í fjölnotasal bókasafnsins. Afkomendur Gísla afhenda handrit og frumteikningar hans til Landsbókasafns, sem einnig minnist afmælisins með sýningu í Þjóðarbókhlöðu. Að auki hefur heildarsafn bókanna um Siggu Viggu verið endurútgefið.
Gísli var fjölhæfur listamaður og eftir hann liggja skáldsögur, smásögur, barnabók, leikrit og útvarpsþættir, auk myndasagna bæði í blöðum og bókum um Siggu Viggu. Myndasögurnar um Siggu Viggu eru einstakar því þær eru sprottnar úr íslenskum veruleika, útgerð og fiskvinnslu, og segja frá lífi fiskvinnslustúlkunnar Siggu Viggu, vinkonu hennar Blíðu og samstarfsfólks. Sögurnar birtust fyrst í Alþýðublaðinu og svo í Morgunblaðinu. Einnig teiknaði Gísli ádeiluseríuna Þankastrik, sem birtist fyrst í Morgunblaðinu og voru athugasemdir um atburði líðandi stundar sem vöktu iðulega mikil viðbrögð. Gísli teiknaði einnig mikið fyrir önnur blöð og tímarit, myndskreytti dagatöl, bæklinga og auglýsingar, og teiknaði tækifæriskort og myndagátur svo eitthvað sé nefnt.
Gísli lauk prófi í blaðamennsku frá háskóla í Bandaríkjunum árið 1945 og var þar með fyrsti Íslendingurinn með menntun í því fagi. Gísli var frumkvöðull í íslenskri blaðamennsku, beitti sér fyrir breytingum á umbroti og lagði áherslu á hnitmiðaðan fréttaflutning óháðan flokkspólitík. Sem ritstjóri Alþýðublaðsins á árunum 1958–63 fjórfaldaðist upplag blaðsins, og höfðu þær breytingar sem Gísli breytti sér fyrir þar áhrif á önnur dagblöð.
12 mílur kl. 12 – Hádegiserindi Stefáns Pálssonar í Bókasafni Kópavogs
Á afmælisdegi Gísla, 5. apríl kl. 12:15, mun Stefán Pálsson sagnfræðingur flytja hádegiserindi um starfsferil Gísla og setja í samhengi við ýmsar breytingar í íslensku samfélagi og í fjölmiðlun. Erindið er hluti af viðburðaröðinni Menning á miðvikudögum, sem Bókasafn Kópavogs heldur úti. Erindið verður haldið í fjölnotasal safnsins, þar sem yfirlitssýning á verkum Gísla stendur yfir. Sýningin er opin til 11. apríl 2023.
Sigga Vigga og tilveran: Heildarsafn er komið út
Fiskverkakonan Sigga Vigga getur með réttu talist fyrsta íslenska myndasöguhetjan. Sigga Vigga birtist fyrst árið 1959 á síðum Alþýðublaðsins og er af mörgum talin vera fyrsta íslenska myndasöguhetjan. Árið 1978 kom út fyrsta bókin um Siggu Viggu og félaga, en í tilefni af því að hundrað ár verða liðin frá fæðingu höfundarins kemur nú út Sigga Vigga og tilveran, vegleg endurútgáfa á öllum fimm Siggu Viggu bókunum í myndskreyttri öskju, með formála eftir Úlfhildi Dagsdóttur bókmenntafræðing og sérfræðing í teiknimyndasögum. Sigga Vigga og tilveran, heildarsafn á myndasögubókum Gísla J. Ástþórssonar um Siggu Viggu, fæst í öllum helstu bókaverslunum.