Það eru aðeins fimm ættingjar Adolfs Hitler á lífi. Og þeir eru ákveðnir í að þeir verði ekki fleiri.
Peter Raubal, Heiner Hochegger og Alexander, Louis og Brian Stuart-Houston virðast í fyrstu ekki hafa margt sameiginlegt. Peter er verkfræðingur, Alexander félagsráðgjafi og Louis og Brian reka fyrirtæki sem sér um hönnun og umhirðu garða.
Peter og Heiner búa í Austurríki en Stuart-Houston bræðurnir í New York.
Það eina sem þeir hafa sameiginlegt er að vera ættingjar einræðisherrans óhugnanlega.
Hitler var aðeins giftur kærustu sinni, Evu Braun, í 45 mínútur áður en þau frömdu sjálfsvíg.
Þau áttu engin börn.
Yngri systir Hitler, Paula, giftist aldrei og lést barnlaus og allt til ársins 2004 var talið að ættin væri dáin út.
En svo reyndist ekki vera.
Sorgarsaga Geli
Faðir Adolfs Hitlers, Alois, var fráskilinn þegar hann giftist móður Hitlers, Klöru. Hann var áður giftur konu að nafni Franni og átti með henni tvö börn, Alois yngri og Angelu.
Alois yngri breytti um nafn eftir seinni heimsstyrjöld. Hann átti tvo syni, William og Heinrich og er William er faðir Alexander, Louis og Brian Stuart-Houston.
Angela giftist einnig og eignaðist þrjú börn, Leo, Geli og Elfriede. Eiginmaður Angelu lést aðeins árið 1910, aðeins 31 árs. Angela gerði sitt besta til að sjá fyrir börnum sínum og árið 1925 tók boði hálfbróður síns, Adolfs, um að gerast ráðskona hjá honum. Hún flutti því inn á heimili hans ásamt börnum sinum.
Geli var þá 17 ára og fékk Hitler hina ungu frænku sína á heilann. Þegar hann komst að því að hún ætti kærasta varð hann fokreiður og bannaði henni að hitta kærastann, eða nokkurn annan karlmann, framar.
Geli hlýddi því ekki og þegar að Hitler komst að því að hún var í sambandi við einkabílstjóra hans rak hann bílstjórann og Geli varð svo að segja fangi Hitlers. Hún mátti ekki eiga neina vini og ekki yfirgefa íbúðina nema í fylgd með frænda sínum eða einhverjum sem hann treysti.
Geli vildi komast í burtu og dreymdi un söngnám í Vínarborg. En þegar að Hitler komst að því harðbannaði hann henni allt slíkt.
Svo fór að Geli skaut sig til bana árið 1931, aðeins 23 ára að aldri.
Það hafa alltaf verið sögusagnir um að samskipti þeirra hafi verið nánari en enginn veit í raun hversu langt þetta óeðlilega samband Hitlers við frænku sína gekk.
Líkindi við ákveðinn hataðan Þjóðverja
Leo og Elfriede giftust bæði. Leo eignaðist soninn Peter og Elfriede átti Heiner.
Stuart-Houston drengirnir vissu alltaf af ættartengslunum við Hitler enda faldi Leo þau aldrei heldur reyndi hann að nýta sér þau.
Áður en nasistar náðu völdum og Hitler var einráður reyndi William ítrekað að ná fjármunum og vel launuðum störfum út úr Hitler en þegar að ljóst var að Þýskaland væri á leið í stríð leist honum ekkert á blikuna, flutti til Bandaríkjanna og skipti um nafn.
William ræddi aldrei hinn hataða frænda sinn í Bandaríkjunum en mörgum fannst hann furðu líkur ákveðnum einræðisherra í Þýskalandi.
Samkomulag beggja megin Atlantshafs
Alexander, Louis og Brian voru komnir vel á legg þegar þeir loksins heyrðu af ætterninu og gerðu þeir með sér samning um að eignast aldrei börn. Ættlegg Adolfs Hitlers myndi ljúka með þeim.
Þá fyrst vissu frændurnir í Bandaríkjunum og Austurríki hver af öðrum.
Og merkilegt nokk, þá gerðu frændur þeirra í Austurríki sama samkomulag. Þeir hafa heldur aldrei gifst né eignast börn.
Þegar að upp komst um skyldleika Heiner við Hitler árið 2004 vaknaði sú spurning hvort að eftirlifandi ættingjar ættu rétt á höfundarlaunum fyrir sölu á ævisögu Hitlers, Mein Kampf.
Enginn mannanna fimm sagðist vilja sjá krónu, þeir vildu bara vera látnir í friði.
Það styttist í að ættleggur Adolfs Hitlers deyi út. Yngsti frændinn er 48 ára og sá elsti 86 ára.
Sem verður að teljast merkilegt í ljósi þess að einræðisherrann var með það á heilanum að búa til hinn ,,hreina kynstofn” og lagði gríðarlega mikið upp úr því að ,,góðir nasistar” eignuðust sem flest börn.
En frændurnir fimm hafa séð til þess að ekki nokkur sála mun hafa vott af blóði Hitlers þegar sá síðasti þeirra fellur frá.