fbpx
Þriðjudagur 14.janúar 2025
Fókus

Jenný glímir enn við afleiðingar hryllilegs bílslyss í Hvalfirði – Keppir í dag í vaxtarrækt og hjálpar einstaklingum og dýrum: „Sérfræðingarnir sáu um að halda lífi í henni með tækjum og tólum“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 18. mars 2023 18:00

Jenný á Borgarspítalanum eftir slysið, og í dag í vaxtarrækt og við vinnu sína á dýraspítalanum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 14. mars voru liðin 25 ár frá því Jenný Andersen Rodriguez slasaðist lífshættulega í bílslysi í Kjós. Jenný man ekkert eftir slysinu sjálfu og man næst eftir sér viku síðar þegar hún vaknaði á Borgarspítalanum. Jenný hlaut fjölmörg beinbrot og aðra áverka og var í nokkra mánuði á spítala. Hún glímir enn við afleiðingar slyssins, en minnist dagsins árlega, daginn sem hún og móðir hennar, Sólrún Ósk Gestsdóttir, kalla Lífs-afmæli Jennýar. Hún segir slysið hafa breytt viðhorfi sínu til lífsins og hefur í dag náð að sameina tvær ástríður, draumastarfið sem hún ætlaði í fyrir slysið og köllunina sem hún fann eftir slysið, að hjálpa öðrum að ná betri heilsu.

„Þetta er lífs-afmælið mitt, ég er í raun bara 25 ára. Ég hugsa ekki mikið út í slysið og er ekki að velta mér upp úr því daglega. Ég er minnt á það annað slagið, líkaminn minnir mig á það reglulega. Ég hugsa meira með góðum hugsunum til slyssins um hvað það gaf mér og hvað ég lærði af því,“ segir Jenný.

„Fyrir mig er þetta þakklætisdagur. Við höldum upp á daginn á hverju ári með því að tala saman. Ári eftir slysið fórum við Jenný út að borða með fjölskyldu og vinum. Ég man þegar ég hringdi í vini og fjölskyldu og bauð þeim út að borða, þá fannst mörgum þetta skrýtið. Við erum bara  meira í sambandi sem fjölskylda í kring um þennan dag,“ segir Sólrún.

Mæðgurnar Sólrún Ósk og Jenný

Aðspurð um tildrög slyssins þá man Jenný hvað hún var að gera áður en slysið varð. „Ég var á Akranesi með strák sem ég var að hitta á þessum tíma. Við höfðum farið í Reykjavík fyrr um kvöldið í bíó og ég keyrði hann heim á Akranes til foreldra hans. Það var orðið seint um kvöld þegar við komum þangað og við vöktum mest alla nóttina. Um morguninn keyrði ég hann síðan í vinnu í álverinu um sjöleytið og í stað þess að fara til baka og sofa þá ákvað ég að keyra strax heim til Reykjavíkur. Þetta var áður en göngin komu þannig að maður keyrði Hvalfjörðinn. Ég var að keyra fjörðinn heim, sem er ekki gáfulegt þegar maður er ekki búin að sofa mikið. Síðan man ég ekki mikið eftir það, fyrr en ég vakna á spítalanum og ég sé foreldra mína standa yfir mér,“ segir Jenný.

Hún man ekkert eftir slysinu sjálfu og segir minnið orðið ansi holótt. Einhverjum árum eftir slysið ákvað hún að keyra Hvalfjörðinn til að athuga hvort hugurinn myndi kveikja á einhverjum minningum, en  ekkert rifjaðist upp.

„Mér var sagt að ég hafi mætt öðrum bíl og við lent á hvort öðru á miðjum vegi. Þeir halda að við höfum bæði sofnað sem ég geri bara ráð fyrir. Ég var heppin að það voru slökkviliðsmenn á leiðinni frá Reykjavík til Akranes á námskeið sem komu að slysinu og þeir voru með öll tæki sem þurfti til að klippa mig úr bílnum. Ég var síðan send með þyrlu á Borgarspítalann. Mér var sagt að ég hefði verið vakandi meðan þeir voru að ná mér úr bílnum og hafi kvartað yfir að mér væri illt í maganum. Ég kvartaði yfir að ég vildi ekki liggja kyrr, ég vildi sitja frekar. Ég talaði víst allan tímann í fluginu þó ég væri kjálkabrotin á tveimur stöðum, þannig að það er greinilega erfitt að þagga niður í mér.“

Frétt í DV mánudaginn 16. mars 1998.

 „Ekki lifa lífinu í að kenna þér um“ 

Jenný slasaðist eins og áður sagði lífshættulega, en ökumaður hins bílsins, 66 ára karlmaður, lést í slysinu og er talið að hann hafi látist samstundis. Greint var frá slysinu í öllum miðlum þar á meðal í DV mánudaginn 16. mars 1998. Segja þær mæðgur að á sama tíma og þær eru þakklátar fyrir að Jenný lifði slysið af, þá sé hörmulegt að annar einstaklingur hafi látist.

„Ég þekkti ekki manninn sem lést, vissi ekkert hver hann var,“ segir Jenný. „Hann var endurskoðandi og var á leiðinni vestur í sveit til að vinna, þess vegna var hann á þessari leið á þessum tíma. Mjög sorglegt,“ segir Sólrún. 

Jenný var ekki sagt frá því strax að maður hefði látist í slysinu. „Þegar ég var færð niður á bæklunardeild þá var mér sagt frá því. Það var sjokk að vita það að ég átti þátt í að hann lést. Prestur kom og sagði mér að börnin hans, sem voru þá fullorðin, vildu koma og tala við mig. Ég samþykkti það, en var kvíðin um að þau myndu kenna mér um slysið. Þau komu síðan með blóm og kort sem þau höfðu útbúið handa mér. Ég man að þau stóðu hjá mér og sögðu að ég ætti ekki að kenna sjálfri mér um: „Hann var kominn á eftirlaun, hann myndi ekki kenna þér um þetta heldur, ekki lifa lífinu í að kenna þér um.“ Það létti svo af mér að vita að þau kenndu mér ekki um slysið og það hjálpaði sálartetrinu mínu rosalega mikið að geta haldið áfram og vita að það var engin ásökun í gangi af þeirra hálfu. Að heyra beint frá börnum mannsins að þau væru ekki að kenna mér um, slysin gerast og lífið ætti að halda áfram, það skipti miklu máli fyrir mig haldandi áfram með lífið.“

Þrátt fyrir að Jenný muni í dag ekki hvernig börn mannsins litu út þá rifjar hún upp að seinna heimsótti hún dóttur hans á vinnustað hennar.  „Ég sá mynd af pabba hennar á skrifborðinu hennar. Ég man ekkert hvað við töluðum um, en það var allt vinalegt af hennar hálfu.“

Slysadaginn gekkst Jenný undir mikla aðgerð og var henni síðan haldið sofandi í viku. Hún hlaut fjölmörg beinbrot, bæði á fótum og höndum, tvíbrotnaði á kjálka og hlaut innvortis meiðsl.

Bar sig saman við Guðmund Felix

Jenný var í þrjá mánuði á Borgarspítalanum, sem í dag heitir Landsspítali Háskólasjúkrahús. Mánudaginn 18. maí 1998 var hún á forsíðu DV og var greint frá því að batavegur hennar væri ótrúlegur. Slysadaginn gekkst Jenný undir mikla aðgerð og var henni síðan haldið sofandi í viku. Hún hlaut fjölmörg beinbrot, bæði á fótum og höndum, tvíbrotnaði á kjálka og hlaut innvortis meiðsl. 

„Í næsta herbergi við mig var Guðmundur Felix Grétarsson og ég man svo eftir því að hann var að vakna eftir nokkurra mánaða dá og það var alltaf eitthvað að koma fyrir hjá honum, hann var að berjast við að vakna aftur og líkaminn hans að vakna, og þeir voru alltaf eitthvað að laga hjá honum. Ég hugsaði með mér: „hann er að fara í gegnum þetta allt, hann missti báða handleggina, þú getur ekki verið eitthvað að væla, þú ert enn með alla líkamshluta, þetta er mikið verra hjá honum,“ segir Jenný.

„Þetta hjálpaði til við að ýta sjálfri mér áfram og vera þakklát fyrir það sem ég hef. Við höfum haldið sambandi og það hefur verið æðislegt að fylgjast með hvað hann hefur farið í gegnum. Það er ótrúlegt að sjá hversu sterkur hann er.“

Guðmundur Felix Grétarson
Mynd: Brynjar Snær Þrastarson

Sólrún, fósturfaðir Jennýar og bræður voru búsett á Reykhólum þegar slysið varð. Hvernig fékk móðirin fréttirnar af slysinu? „Þegar maður býr úti á landi er það yfirleitt presturinn sem færir svona fréttir. Hann kom um hálfellefu á laugardagsmorgni til að segja mér að frumburðurinn hefði lent í slysi og væri ekki hugað líf, ekki víst að Jenný myndi lifa af daginn. Það var verið að ná í pabba hennar, en við vorum löngu skilin. Fósturpabbi hennar, þáverandi maðurinn minn, varð eftir heima með yngri börnin og presturinn var svo æðislegur að keyra mig í bæinn, bara svona rétt að skutlast 250 km til Reykjavíkur. Auðvitað var þetta áfall fyrir okkur öll, en ég veit það ekki, ég var náttúrlega ung og sterk. Ég bara sat og bað fyrir henni, ég gat ekki gert neitt annað, sérfræðingarnir sáu um að halda lífi í henni með tækjum og tólum. Ég gat bara beðið Guð að bjarga henni. Ég var eiginlega alltaf viss um að ég myndi ná á spítalann að kveðja hana ef hún færi,“ segir Sólrún. 

„Þegar ég kem á spítalann segir læknir mér að hún sé komin yfir það versta en næsti sólarhringur skeri úr um hvað gerist. Við erum bara bjartsýnar manneskjur og trúum alltaf á að hlutirnir muni ganga upp,“ segir Sólrún. „Mamma vissi af þrjóskunni í mér,“ skýtur Jenný inn í. 

Skiptir máli að hafa gott fólk í kringum sig

Aðspurð um hvort slysið hafi verið vendipunktur í hennar lífi eins og stór áföll eru oft hjá fólki svarar Jenný játandi.

„Við mamma höfum stundum grínast með að það hafi þurft að stoppa mig á þeirri leið sem ég var á, ég var svona svolítið bara að hugsa um sjálfa mig og aðrir skiptu ekki máli. Ég var ekki á góðri leið. Eftir slysið snerist það viðhorf alveg við, líka hvernig vinir mínir voru og fjölskylda mín hugsaði til mín. Það var alltaf einhver sem kom til mín, alltaf einhver sem heimsótti mig og passaði að ég væri í lagi. Valur Sævarsson, söngvari Buttercup, kom og tengdi tölvu fyrir mig á spítalanum svo ég væri nettengd. Ótrúlegasta fólk sem ég þekkti ekki mikið fyrir gerði bara hluti fyrir mig og ég áttaði mig á hvað skiptir miklu máli að hafa gott fólk í kringum sig. Og hvað skiptir miklu máli að virða það og vera ekki að hugsa bara um sjálfan sig. Og taka lífinu aðeins léttara og geta haldið áfram.“ 

Jenný var í þrjá mánuði á Borgarspítalanum.

„Það sem mér finnst svo frábært eru vinir Jennýar, við vitum að fjölskyldan hennar er frábær, bræður og frændfólk voru alltaf að koma og gera eitthvað og manni finnst það einhvern veginn sjálfsagt, en það er samt ekki þannig. Vinir hennar, vinkonur og frændfólk, þau komu alltaf, alltaf minnst einn á hverjum einasta degi, færðu henni eitthvað gott, eitthvað sem hún gat drukkið með röri, það var gaman, þau voru að hlæja og gantast, segja brandara og fíflast, koma henni til að hlæja þó hún gæti ekki opnað munninn af því hann var víraður saman,“ segir Sólrún.

Jenný bætir við að herbergið hennar hafi verið partý herbergið, svona allavega seinni partinn þegar skipulagður heimsóknartími var, alltaf einhver í heimsókn. „Ég man að ég fór á Reykhóla sumarið eftir slysið, ég man eftir 17. júní þar. Strákar sem ég þekkti sem voru að æfa sig í einkaflugi flugu með mig til Reykhóla. Ég þekkti svo æðislegt fólk. Þarna var ég í einhvern tíma hjá mömmu. Ég á fimm bræður sem eru yndislegir og vilja gera allt fyrir mig. Þeir voru tilbúnir að halda á mér og gera hvað sem er fyrir mig á þessum tíma og öll árin eftir á.“ 

Jenný ásamt Sólrúnu móður sinni og bræðrum sínum fimm.

Áttu orð til ungra ökumanna um að varast slysin? „Ekki keyra þegar þú ert þreyttur. Það er sannað að það er jafn hættulegt að keyra þreyttur eins og undir áhrifum áfengis. Fólk áttar sig ekki á þessu, en að sofna undir stýri er stórhættulegt. Þegar þú ert þreyttur þá bara slekkur líkaminn á sér. Ég keyri mikið í dag og um leið og ég finn fyrir þreytu, þá legg ég bílnum til hliðar og legg mig í 10, 15, eða 30 mínútur og held síðan áfram. Hversu margir kannast ekki við að hafa keyrt í vinnu á venjulegum degi og sónað út við aksturinn. Þú verður að átta þig á að líkaminn þinn hefur  takmörk, þegar maður er ungur eru margir svolítið eins og maður sé ósigranlegur, en það verður samt að muna að það getur breyst nokkuð fljótt.“ 

Frétt Morgunblaðsins 15. mars 1998

Mörg slys á stuttum tíma

Eftir þriggja mánaða dvöl á Borgarspítalanum var komið að því hjá Jennýju að fara heim og flutti hún aftur í íbúð sem hún leigði á sjöttu hæð í Vallarási.

„Þar var ég í mínum hjólastól, það var sett handfang fyrir mig á baðherbergið svo ég kæmist á klósettið og í sturtu. Ég fékk að fara fyrr heim þar sem ein besta vinkona mín á þessum tíma hafði unnið við sjúkrahjálp á spítala og hún flutti inn til mín. Hún var hjúkkan mín í góðan tíma. Í október 1998 losnaði ég úr hjólastólnum og var síðan á hækjum. Ég gat ekki keyrt þannig að ég var sótt og keyrð af flutningaþjónustu til að fara í sjúkraþjálfun.“ 

Sólrún fór til Reykjavíkur þegar slysið varð til að hugsa um dóttur sína.  „Ég þóttist vita hvað það var að liggja á sjúkrahúsi, hún var bara barnið mitt og ég ætlaði að hugsa um hana, það var mitt verk þar til hún gæti bjargað sér sjálf.  Þetta átti bara að vera tímabundið meðan hún kæmist á fætur. En svo urðu bara hlutirnir þannig að ég flutti aldrei heim aftur.“ 

Í viðtalinu við Jennýju í DV árið 1998 kemur fram að slysið var ekki eina áfallið sem fjölskyldan varð fyrir á þessum tíma. Fósturfaðir hennar og bræður lentu einnig í slysum mánuðina á undan. „Þetta var eins og Jenný segir í því viðtali svolítið tímabil. Bróðir hennar var í vinnu og lenti í lífshættu þar sem fósturpabbi þeirra bjargaði honum en slasaðist við það. Hann tók eiginlega fallið af stráknum. Strákarnir voru að keyra um fimmleytið á gamlársdag og keyrðu út af, hefði það gerst um meter áður þá væru þeir ekki á lífi í dag. Síðan lenti Jenný í slysi í mars. Það hafa engin alvarleg slys orðið í fjölskyldunni eftir það,“ segir Sólrún.

Viðtal við Jennýju í DV 18. maí 1998.

Minnið virkar ekki eftir höfuðhögg og svæfingar

Þegar Jenný lenti í slysinu var hún að vinna á Dýraspítalanum í Víðidal sem hjúkka, eftir að hafa útskrifast frá Fjölbraut í Breiðholti 10. janúar 1998. Hugurinn stefndi á að vinna við dýralækningar. 

„Ég var búin að vinna á dýraspítalanum í hlutastarfi með skólanum og fór svo í fullt starf. Það var síðan planið að fara að vinna á dýraspítala í Danmörku eða eitthvað um haustið,“ segir Jenný sem gat ekki snúið aftur í starfið.

„Ekki strax. Að vera dýrahjúkka er líkamlega erfitt, það þarf að lyfta dýrum og halda á þeim og beygja sig niður og það var mikið sem ég gat ekki gert. Þó ég væri komin aftur á fætur þá gat ég ekki hreyft fæturna nógu mikið, ekki beygt hnéð almennilega, ég var rosalega grönn 40-45 kg, búin að liggja og sitja á sjúkrahúsi í einhverja mánuði. Ég leit í spegil og hugsaði að ég væri bara eins og beinagrind. Georg vinur minn var einkaþjálfari og ég fór í ræktina með honum og hann hjálpaði mér að styrkja mig og byggja mig upp aftur. Það hjálpaði mjög mikið að byggja upp vöðva og leiddi mig í það sem ég er að vinna við í dag. Ég hef ekki hætt að lyfta, það munar svo um formið sem ég er í. Því betra formi sem ég er í því betur get ég hreyft mig,“ segir Jenný.

Tveimur árum eftir slysið ákvað Jenný að fara í háskóla í Bandaríkjunum að læra dýralækningar. „Þá komst hún að því að eftir allar þessar svæfingar þá virkar minnið ekki til að læra, minnið fer,“ segir Sólrún. „Þeir kalla þetta TBI, traumatic brain injury (áverka heilaskaða). Þegar maður fær svona mikið högg á höfuðið og fer í tugi svæfinga, þá er minnið á manni ekki eins gott og það ætti að vera. Það var svolítið erfitt að ætla að læra eitthvað jafn erfitt og dýralækningar eru, ég var úti í tvö og hálft ár og vann meira á háskóla dýraspítalanum og lærði þar en að læra af bókum,“ segir Jenný.

„Ég vinn hálfan daginn þrisvar í viku sem dýrahjúkkan við skurðaðgerðir eins og mig langaði að vinna við áður en slysið varð, sé um svæfingar og svo framvegis.“

Fann ástina með bandarískum hermanni

Áramótin 2002-2003 kom Jenný aftur heim til Íslands, örlögin réðu því að í september það ár kynntist hún Dennis, kom hingað til lands í þrjá mánuði til að sinna herþjónustu. Hann varð síðar eiginmaður Jennýjar sem fór ekki aftur í dýralæknanámið. 

„Ástarsagan þeirra er svolítið skemmtileg, þau hittast í september, trúlofa sig á aðfangadag, Jenný flytur til hans í Englandi í janúar, þau skrifa undir pappíra í mars og brúðkaup í júlí. Það gerist allt á innan við ári eftir að þau hittust og þau eru enn saman 19 árum seinna,“ segir Sólrún.

Hjónin skrifuðu undir giftingapappírana í Englandi 15. mars 2004, en giftu sig 10. júlí árið eftir. „Maður veit það þegar maður veit það að hann er sá rétti. Undirskriftin í mars var meira svona af því við vorum í Englandi og við þurftum pappíra fyrir herinn svo ég gæti búið með honum á herstöðinni. Þannig að við fórum og skrifuðum undir pappírana. Það fékk enginn í fjölskyldunni að vita af því fyrr en mörgum árum seinna. Júlí hefur alltaf verið brúðkaupsdagurinn okkar. Í janúar 2004 flutti ég til hans í Englandi, þar vorum við til ársloka 2005 og síðan höfum við búið í Flórída,“ segir Jenný.

Hjónin eiga son sem verður 17 ára í haust og dóttur sem verður 13 ára í sumar. Jenný segist hafa ákveðið að eignast börnin fyrir 35 ára aldur. „Á þrítugsaldri var ég upptekin við að koma mér aftur á fætur, síðan varði ég nokkrum árum í að gera allt sem mér var sagt að ég gæti ekki gert vegna slyssins.“

„Henni var sagt að hún gæti ekki gengið og hún þurfti að afsanna það. Síðan var henni sagt að ekki væri heppilegt að ganga með börn, eins og við vitum þá þyngjast margar konur mikið á meðgöngu og fæturnir á Jennýju hefðu aldrei borið það,“ segir Sólrún.

„Af því mjöðmin á mér brotnaði á tveimur stöðum, þannig að grindargliðnun á meðgöngu var ekki góð fyrir mig. Ég var á fótum allan tímann en gat ekki gert mjög mikið. Ég varð að halda mér í góðu formi af því þannig líður mér best, ef ég fer ekki í ræktina þá finn ég strax fyrir hversu erfiðara er að hreyfa mig. Þegar ég hef þyngst um 15-20 kg. þá finn ég mikið fyrir því í liðum og fótum. Þriðji hluti af meðgöngunni með soninn var erfiðastur, ég ætlaði að reyna að fæða hann, en ég grínast með að hann hafi kíkt niður og ákveðið að fara ekki þarna út, ég var send í bráðakeisara. Á seinni meðgöngunni var ég mun verri, en var samt í jóga 2-3 í viku fram á níunda mánuð og það hélt mér gangandi. Mjöðmin á mér var mun verri þá og ákveðið strax að dóttirin yrði tekin með keisara.“

Jenný við vinnu sína á dýraspítalanum.

Glímir enn við afleiðingar slyssins og aðgerða

Ertu að glíma við afleiðingar slyssins enn í dag? „Já endalaust á hverjum einasta degi. Bæði hnén á mér eru bara bein í bein, ég er enn með járn í hægra fæti og hnénu. Ég er með liðagigt. Af því önnur löppin er aðeins styttri þá hef ég verið með verki í baki og öxlum. Ég fer alltaf reglulega í sjúkraþjálfun. Ári eftir slysið fór ég til Svíþjóðar í skurðaðgerð, af því þar var hægt að gera það sem átti að gera í einni aðgerð en hefði þurft þrjár hér heima. Sem borgaði sig ekki, af því þetta var bara ein aðgerð þá var ég svolítið lengi í henni, þeir voru að laga hægri legginn á mér og hnéð, byggja nýtt liðband í hnénu,“ segir Jenný.

„Það urðu einhver mistök í aðgerðinni. Aðgerðirnar í Svíþjóð urðu miklu fleiri en ein,“ segir Sólrún. „Þarna skemmdust taugar í löppinni sem veldur því að ég get ekki lyft upp fætinum, er með svokallað drop foot, ég get ekki rétt úr tánum. Ég endaði á lyfjakúr í einhverja níu mánuði eftir aðgerðirnar í Svíþjóð. Þetta er það sem ég finn mest fyrir. Þegar er kalt og ég geri of mikið þá finn ég vel fyrir því. Fóturinn er enn að bögga mig, þegar ég er þreytt þá get ég ekki lyft honum upp og er að sparka honum í jörðina, ég geng því asnalega sem veldur óþægindum. Það er margt sem ég get ekki gert annað slagið, en ég lifi með því,“ segir Jenný.

Móðir hennar segir Jennýju fara svakalega fínt í allar lýsingar og gera voða lítið úr öllum afleiðingum slyssins og allra aðgerðanna í kjölfarið. Þegar hún sé með dóttur sinni sjái hún vel hvaða afleiðingarnar slysið hafði og það sem Jenný glímir við daglega.

Aðspurð um hvort fjölskyldan muni flytja heim til Íslands svarar Jenný neitandi. „Ég hefði alveg verið til í að börnin mín færu í skóla á Íslandi, en ef ég á að segja eins og er þá er ég bara orðinn spilltur ameríkani og gæti ekki flutt aftur til Íslands,“ segir Jenný og hlær. „Að vera í Flórída og í hitanum er svo mikill munur, það er ástæða fyrir að eldra fólk flytur hingað, munur á verkjum í liðum og liðagigt er allt annar, ég finn ekki nærri eins mikið fyrir því hér eins og heima á Íslandi. Á Englandi þar sem var alltaf kalt og blautt gat ég ekki farið að sofa án verkjalyfja. Ég myndi elska að vera heima í kringum fjölskyldu og vini og leyfa krökkunum að kynnast að búa á Íslandi, en get ekki hugsað mér að þurfa að lifa við þennan sársauka aftur. Af hverju ætti ég að gera mér erfiðara fyrir? Ég bý í Norður-Flórída og við fáum smá vetur, í desember/janúar fer hiti að frostmarki yfir nóttina og þá finn ég fyrir af hverju ég vil ekki flytja aftur í kulda. Það munar miklu að geta lifað verkjalyfjalaus við minni sársauka en ef ég byggi í kuldanum á Íslandi.“

„Ég varð að halda mér í góðu formi af því þannig líður mér best, ef ég fer ekki í ræktina þá finn ég strax fyrir hversu erfiðara er að hreyfa mig.“
Jenný starfar sem dýrahjúkka við svæfingar.

Hjálpar bæði dýrum og mönnum 

Þrátt fyrir að hafa þurft að gefa dýralæknanámið upp á bátinn á sínum tíma í kjölfar slyssins þá hefur Jenný í dag náð að sameina að vinna tvö störf. Annað þeirra er það sem hún stefndi á að vinna fyrir slysið og hitt fann hún ástríðuna fyrir eftir slysið. Jenný hjálpar því í dag bæði dýrum og einstaklingum að öðlast betra líf. 

„Þegar ég fór að byggja sjálfa mig upp eftir slysið í ræktinni með aðstoð Georgs þá lærði ég ýmislegt og þegar fólk sér að maður nær árangri þá byrjar það að spyrja mann hvernig maður fór að því. Þannig að ég ákvað að læra einkaþjálfun þó ég gerði ekki mikið með þá menntun fyrst,“ segir Jenný sem vann sem dýrahjúkka á herstöðinni í Englandi og fyrst þegar hjónin fluttu til Flórída. 

„Eftir að ég eignaðist soninn var ég heimavinnandi mamma í 2-3 ár. Síðan þegar ég varð ófrísk af stelpunni ákvað ég að endurnýja einkaþjálfarann og hugsaði að það væri gott að geta stjórnað eigin tíma við að þjálfa fólk og líka verið heima með krökkunum. Vinnan mátti heldur ekki vera líkamlega erfið fyrir mig. Sex vikum eftir að dóttirin fæddist var ég farin að þjálfa fólk og var með marga viðskiptavini. Sjúkraþjálfari hér sendir fólk til mín sem hefur lokið meðferð hjá honum og þarf aðstoð af því ég veit hvað þarf að gera til að styrkja sig aftur. Fólk sem þarf að byggja sig upp líkamlega eftir slys eða áverka. Og ég get sagt fólki með liðagigt að ég veit að þetta verður erfitt. „Það er sársauki alls staðar og erfitt að byrja, fyrstu 2-3 mánuðina þá verður þér illt, en svo líður manni betur,“ segir Jenný.

Jenný byrjaði að keppa í vaxtarrækt 10 árum eftir að hún losnaði úr hjólastólnum.

Þegar tíu ár voru liðin frá því Jenný steig úr hjólastólnum ákvað hún árið 2008 að hana langaði að keppa í vaxtarrækt. „Ég vildi sanna fyrir mér að ég gæti það. Í október 2008 keppti ég í fyrsta skipti og það var frábært að geta ýtt sjálfri mér áfram og gert mig sterkari. Maður þarf að vera sterkur í kollinum og hafa vilja og aga til að gera þetta. Þetta styrkir mann að innan og utan, ég keppti síðan aftur árin 2009, 2013, 2016 og 2018. Síðan fór ég að þjálfa aðra fyrir keppnir, lærði meira í sambandi við næringu og fleira. Árið 2017 byrjaði ég að setja upp mínar eigin keppnir, þannig að í ár þá er ég með fjórar keppnir í mínu nafni, eina í Alabama, hinar í Flórída á þremur stöðum; ein í Norður-Flórída, önnur á austurströndinni og þriðja í Tampa. Ég hef bara vonir um að þetta stækki og það væri nú alveg draumur að vera með eina keppni heima á Íslandi einhvern tímann líka,“ segir Jenný sem hefur fullan hug á að fjölga keppnunum.

„Ég byrjaði líka að vinna aðeins aftur á dýraspítala, það vantaði fólk, ég get ekki unnið fulla vinnu því eftir heilan dag á fótum þá labba ég varla í tvo daga eftir það. Ég vinn hálfan daginn þrisvar í viku sem dýrahjúkkan við skurðaðgerðir eins og mig langaði að vinna við áður en slysið varð, sé um svæfingar og svo framvegis. Ég þarf ekki að lyfta dýrunum, af því vinnufélagar mínir vita hvað ég get gert og hvað ég get ekki gert. Ég er kannski ekki alveg jafn heilbrigð og ég vildi vera. Það er æðislegt að geta gert það sem ég vildi gera áður og samt geta unnið við vaxtarræktina og að hjálpa fólki. Síðan langar mig að keppa áfram á sviði í vaxtarrækt. Það er æðislegt að geta unnið við það sem maður elskar.“

Þegar Jenný hugsar aftur til dagsins örlagaríka fyrir 25 árum segir hún að stundum finnist henni eins og slysið hafi gerst í gær. „Í önnur skipti hugsa ég: „Vá það er kominn svona langur tími og mér finnst þetta hafi verið í öðru lífi.“ Slysið breytti miklu fyrir mig en allt á góðan hátt. Það kenndi mér mikla þolinmæði og að geta hjálpað fólki að öðlast betra líf af því ég veit hvernig því líður.“

Jenný á forsíðu DV 18. maí 1998.

Fylgja má Jenný á samfélagsmiðlum hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sigurrós um hörmuleg örlög bróður síns – Segir að aðrir íbúar hafi viljað opna inn til hans en því hafi verið hafnað – „Hann hefði ekki þurft að deyja þarna“

Sigurrós um hörmuleg örlög bróður síns – Segir að aðrir íbúar hafi viljað opna inn til hans en því hafi verið hafnað – „Hann hefði ekki þurft að deyja þarna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

20 bestu streymisveiturnar – Ert þú með réttu áskriftirnar?

20 bestu streymisveiturnar – Ert þú með réttu áskriftirnar?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragnhildur segir mikilvægustu sjálfsræktina felast í þessu

Ragnhildur segir mikilvægustu sjálfsræktina felast í þessu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hvernig Helga Jean tókst raunverulega að breyta lífi sínu – „Það var það fyrsta sem ég gerði“

Hvernig Helga Jean tókst raunverulega að breyta lífi sínu – „Það var það fyrsta sem ég gerði“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jón Gnarr ekki sáttur við ættingja og vini – „Mér finnst þetta oft særandi og tillitslaust“

Jón Gnarr ekki sáttur við ættingja og vini – „Mér finnst þetta oft særandi og tillitslaust“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Paris Hilton birtir sláandi myndband af heimili sínu

Paris Hilton birtir sláandi myndband af heimili sínu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ragnhildur segir marga gera þessi mistök beint eftir æfingu – Passaðu þig samt á einu

Ragnhildur segir marga gera þessi mistök beint eftir æfingu – Passaðu þig samt á einu