fbpx
Fimmtudagur 07.nóvember 2024
Fókus

Ásta borgar allt að 200 þúsund krónur á mánuði til dópsala til að koma í veg fyrir að einkabarn hennar veikist í fráhvörfum – „Ég leyfi mér að gráta en tek þetta á hnefanum“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 5. mars 2023 09:04

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér var sagt að ég gæti ekki átt börn, Gunnþór er því einkabarnið mitt, kraftaverkið mitt“, segir Ásta Þórhalla Þórhallsdóttir. 

Gunnþór Sigþórsson, sonur Ástu, er 44 ára morfínfíkill til tveggja áratuga. Og fíkn hans hefur litað líf allrar fjölskyldunnar. 

En Ásta skammast sín ekki fyrir son sinn, langt því frá, hún stendur keik og móðurkærleikurinn er augljós. Ásta veit hvað í Gunnþóri býr, hvað hann hefur upp á að bjóða, og að það er fíkninni um að kenna hvert lífið hefur leitt hann. 

Hún er fullkomlega meðvituð um ástand sonar síns. Ástand sem hefur valdið því að Ásta og Sigurður, maður hennar og fósturfaðir Gunnþórs, hafa þurft að taka erfiða og dýrar, ákvarðanir, Gunnþóri til hjálpar. 

Gunnþór og Ásta hafa alltaf verið afar náin.

„Hann var alltaf svo góður drengur, duglegur og hörkuduglegur til vinnu“, segir Ásta um son sinn. 

„Við bjuggum á Höfn, fluttum svo á Skagaströnd þegar hann var sex ára og hann er sautján ára þegar við fluttum til Reykjavíkur.“

Ásta segist fyrst hafa tekið eftir því að eitthvað var í gangi með Gunnþór eftir flutningana til Reykjavíkur. 

Partýið örlagaríka

En allt breyttist fyrir alvöru árið 1997, þegar að Gunnþór var 18 ára gamall. 

„Hann fór í partý, tók víst einhverjar töflur og kom stórfurðulegur heim. Ég skildi þetta ekki og fór með hann upp á geðdeild til öryggis.“ 

Sú ferð reyndist afdrifarík eins og lesa má um síðar í greininni og varð Gunnþór aldrei aftur samur. 

Gunnþór og fjölskylda hans eru í örvæntingarfullri leit að hjálp i heilbrigðiskerfinu. Gunnþór vill eiga sem eðlilegast líf en öll vita þau af erfiðri reynslu hvað gerist fái Gunnþór ekki skammtinn sinn daglega. 

Gunnþór var eins og aðrir litlir strákar, með drauma og vonir. Og kisu.

Fráhvörfin eru slík að Ásta og Sigurður láta Gunnþóri í té 150 til 200 þúsund krónur á mánuði til að koma í veg fyrir hina skelfilega contaveiki, eins og Gunnþór orðar það. 

Nafnið er komið af morfínlyfini contalgen sem Gunnþór sprautar sig með.

„Hann breytist í skrímsli,“ segir Ásta af yfirvegun.

Gunnþór var reyndar búin að segja svo að segja orðrétt hið sama þegar blaðamaður talaði hann nokkrum dögum fyrr.

Þetta verður bara fár. Ég umturnast í skrímsli, öskra og æpi og verð að manni sem ég þekki ekki og vil ekki vera. En það er búið að breytast síðustu árin.

Háar fjárhæðir

Þetta eru háar fjárhæðir en Ásta veit að hún er ekki að hjálpa syni sínum við að komast í vímu, hún er að hjálpa honum að fúnkera eins vel og honum er unnt. 

„Ég missti vinnuna í Covid og er algjörlega réttlaus innan kerfisins en sem betur fer er maðurinn minn á sjó svo þetta rétt svo bjargast enda þurfum við ekki mikið. 

Ásta Þórhalla Þórhallsdóttir segir aldrei munu gefast upp á syndi sínum. Mynd/Anton Brink

Gunnþór fær lánað hjá okkur, síðast í dag. Stundum dag eftir dag en þetta er misjafnt eftir mánuðum. Hver skammtur kostar hann 7000 krónur og oft látum við hann fá þá upphæð daglega til að hann veikist ekki. 

Veikindin eru skelfileg og ég passa að eiga alltaf fyrir skammti ef hann kemur, líður mjög illa, og ég sé að hann er á leið í fráhvörf.“ 

Hefði getað meira

Gunnþór var augljóslega stressaður að tala við blaðamann, finnst óþægilegt að vekja athygli á sér, en vill koma á framfæri sögu sinni af erfiðu og eitruðu lífi undirheima Reykjavíkur.

Tilveru sem langt því frá allir vita af, eða vilja vita af.

Sumt af því sem Gunnþór segir er afar skýrt og skilmerkilegt en annað er torskildara, ekki síst þegar Gunnþóri liggur mikið á hjarta. 

Aðspurður um hvernig neysla hans hafi byrjað segist Gunnþór hafa byrjað að drekka mjög ungur, stolið áfengi frá mömmu sinni, og farið á fyrsta fylleríið 10-11 ára. 

Gunnþór sér alltaf eftir að hafa hætt í skóla.

„Og svo var maður kominn á þetta helgarfyllibyttumynstur í kringum 12-13 ára. 

Ég bjó úti á landi, hætti í skóla eftir skylduna og vann í frystihúsi og þénaði ágætlega.“ 

Gunnþór segist þó alltaf hafa séð eftir því að hafa hætt í skóla. 

„Ég held að ég hefði getað gert eitthvað gáfulegra en það sem maður hefur verið að gera. Ég held að það sé meira spunnið í mig en það,“ segir Gunnþór.

Örlagaríka kvöldið á geðdeildinni

Gunnþór fór á sjó með fósturföður sínum.

Hann var búinn að vera að fikta við eiturlyf til nokkurra ára þegar hann fór í partýið sem móður hans minnist á hér fyrr í viðtalinu, þá 18 ára gamall árið 1997.

„Mér var búið að líða illa á þessum tíma og tók einhverja pappasýru og LSD og allskonar efni sem gerðu það að verkum að ég veiktist í hausnum.“ 

Ásta man þetta eins og gerst hafi í gær. 

„Hann var kolruglaður, svaf ekkert og ég vakti yfir honum þar til ég ákvað að fara með hann upp á geðdeild í von um hjálp.“ 

Frásögn Gunnþórs af þessari ferð á geðdeildina er lyginni líkust. 

„Það komu þrír gaurar frá sérsveitinni með hjálma og allan pakka og þeir lömdu mig stanslaust í sex til átta tíma. 

Gunnþór Sæþórsson Mynd/Ernir

Þeir öskruðu á mig allan tímann að þeir væru að hjálpa mér, sem ég skyldi ekki. Ég vissi ekki hvað ég hafði gert af mér. 

Gunnþór sýnir ljót ör sem hann segir eftir barsmíðarnar.

„Það var eins og allar sinarnar í líkamanum hefðu verið bundnar í einn spotta og svo togað í. Sársaukinn var óbærilegur, einn versti hryllingur sem ég hef gengið í gegnum. 

Ég veiktist svo alvarlega að ég gat ekki talað í hálft ár. Ég veiktist í hausnum, sat bara og það mátti enginn koma nálægt mér því ég hélt að allir vildu drepa mig.

Ég hef aldrei jafnað mig, það breyttist eitthvað í hausnum á mér auk líkamlegu áverkanna.“ 

Ásta Þórhalla Þórhallsdóttir og Sigurður maður hennar. Mynd/Anton Brink

Dregin út

Það er erfitt að trúa sögu sem þessari og því spyr blaðamaður Ástu, þegar að spjalli við hana kemur, hvort eitthvað sé til í þessari frásögn eða hvort hún sé einfaldlega hugarfóstur Gunnþórs. 

Ásta segir að Gunnþór hafi verið afar veikur andlega þetta kvöld en ekki sýnt ofbeldishegðun á nokkurn hátt.

„Það var ungur, og sennilega óreyndur, læknir á vakt og hann sér lítinn vasahníf stingast upp úr vasa Gunnþórs. 

Hann hringdi á lögreglu og sagði Gunnþór vopnaðan,“ segir Ásta.

Hún staðfestir að þrír sérsveitarmenn í fullum skrúða hafi vissulega komið og ráðist að Gunnþóri.

„Ég reyndi að komast upp á milli þeirra til að koma í veg fyrir að þeir réðust á hann og sagði þeim aftur og aftur að engum stæði hætta af Gunnþóri og hann væri alveg rólegur. Þessi litli vasahnífur væri engum ógn og tilviljun að hann væri með hann í vasanum.

Lítill og saklaus patti

En mér var haldið, ég snúin niður í gólfið, og dregin út af spítalanum, þá alveg orðin vitavitlaus og sonur minn skilinn eftir hjá þessum mönnum.“ 

Aðspurð um ofbeldið sem Gunnþór segist hafa orðið fyrir segist Ásta ekki vita nákvæmlega hvað við tók en telur eitthvað mjög alvarlegt hafa átt sér stað. Hún veit til að læknirinn sá síðar eftir að tilkynna Gunnþór hættulegan og svo fór að Gunnþór fékk sér lögfræðing og hugðist kæra. 

„Hann ráðlagði mér að fara ekki lengra með málið, að það væri ekki góð hugmynd að fara gegn „þessum mönnum“ eins og hann orðaði það, segir Gunnþór.

Hélt að allir vildu drepa mig

Gunnþór segist hafa fengið alvarlegt ofsóknaræði á þessum tíma. „Það er skrítið að rifja þennan tíma upp, ég vil það yfirleitt ekki, ástandið var ekki gott og ég greindur með geðrof. 

Honum líður augljóslega illa við að rifja þennan tíma upp. Hann þagnar í töluverðan tíma og segir svo; 

„Það var alveg örugglega neyslutengt en annars held ég að allir séu eitthvað veikir í hausnum, bara mismikið.“

Gunnþór segist hafa fengið alvarlega tímabundna geðveiki 1998, þá liðlega tvítugur.  

„Ég hætti að geta sofið og og hélt að allir væru að reyna að drepa mig. Ég flúði inn á Borgarspítala og hitti lækni sem sagði mig með geðklofa, sem var mér mikið áfall. Hann sagði mér líka að ég þyrfti í meðferð.“ 

Gunnþór fór sjálfviljugur inn á Vog sama ár. Það skilaði engu og átti Gunnþór aldrei eftir að snúa þangað aftur. 

Gunnþór Sæþórsson Mynd/Ernir

Morfínið

Og svo kom morfínið. 

„Ég byrjaði þessu rugli sem ég er að glíma við í dag í kringum aldamótin. Ætli ég hafi ekki verið 23 ára, ég er 44 ára í dag. En það var ekki fyrr en fyrir, fjórum, fimm  árum sem ég byrjaði að nota alla daga.“ 

Gunnþór segist aldrei hafa verið öfgamaður í sinni neyslu. Ég þáði lengi vel það sem mér var boðið en undanfarin ár hef ég orðið það háður conta að ég frem afbrot, brýst inn í bíla, stel úr búðum og svoleiðis rugl til að fjármagna neysluna. 

Gunnþóri líður augljóslega illa vil að játa á sig slíkt. 

„Ég fæ alltaf sama samviskubitið. Ég vil ekki fremja afbrot en ég er fíkill og því verður ekki breytt. Ég veit að það mun aldrei breytast og það er sóun á fé skattborgara að reyna að senda mig í meðferð.

Ég gæti örugglega hætt ef ég hefði viljann til þess. En viljinn er er ekki til staðar, ég er búinn að meðtaka það, og ég veit að ef ég færi í meðferð væri ég að gera það fyrir einhvern annan en sjálfan mig.“ 

Ásta Þórhalla Þórhallsdóttir Mynd/Anton Brink

Skilja en eru alfarið á móti

Gunnþór segir móður sína og fósturpabba skilja sína hlið á málinu þótt þau séu alfarið á móti neyslu hans og óski einskis meira en að hann hætti. Ást hans til þeirra er augljós.

„Fósturpabbi minn skilur þetta ekki enn og er alltaf að tala um að ég hætti. Ég verð stundum svolítið pirraður því hann veit innst inni að það er ekki að fara að gerast og ég hef meðtekið það.“ 

Hann segist vera þeim óendanlega þakklátur fyrir hjálpina og reyni að borga þeim til baka eftir bestu getu. 

Gunnþór dregur fram litla svarta vasabók og sýnir blaðamanni. Þar er snyrtilega skráð niður hver einasta króna sem Gunnþór hefur fengið lánaða og hvað hann skuldi á hverjum tímapunkti. 

„Ég hef heldur aldrei verið algjörlega stjórnlaus. Ég hef reynt að treina efnin því ég vil ekki verða það skrímsli sem ég breytist í í fráhvörfum.“ 


Gunnþóri dreymir um að losna endanlega úr heimi undirheima og glæpa og lifa sem eðlilegustu lífi. 

Stærsti draumur hans, Ástu og Sigurðar fósturföður hans, er að hann komist í skaðaminnkandi meðferð þar sem hann fái lyf í viðhaldsmeðferð á löglegan hátt frá læknum og undir eftirliti heilbrigðiskerfisins. 

„Ég held að það sé betra fyrir ríkið og samfélagið, fólkið í landinu, að ég fái sömu þjónustu og aðrir sem eru í minni stöðu, segir Gunnþór en þegar hafa einstaklingar með fíknisjúkdóma fengið slíka meðferð.

“Það er hægt að treysta mér, ég er afar ábyrgur en það er svo erfitt að fá einhvern til að hlusta á sögu mína og hjálpa mér.“

Vill frið og ró

Gunnþór er með tárin í augunum. 

„Ég er nokkuð góður í kollinum í dag og tek öllu með ró. Ég viðurkenni að hafa átt bágt með skapið á mér og gengið berserksgang sem oft var svolítið hryllilegt en það er liðin tíð.“

Gunnþór segist engin lyf hafa tekið við reiðinni, sennilegast sé aldri og auknum þroska um að þakka. 

„Ég vil bara rólegt og einfalt líf með fjölskyldunni minni en ég þarf hjálp til að koma mér út úr þessum vítahring en veit ekki hvert ég á að leita. Ég get þetta ekki lengur, hvorki andlega né líkamlega.

Ég get ekki staðið i því að hafa endalausar áhyggjur af því hvar ég fái næsta skammt, hvort ég eigi fyrir honum eða hvort ég þurfi að hnupla eða fá pening hjá mömmu og fósturpabba mínum,  fólki sem er að eldast og á að fá frið og ró á þessum tíma lífs síns.. Þetta er að fara með mig. 

Ég vil vera laus við þessa hluti og komast á forðalyf á löglegan hátt undir eftirliti heilbrigðisstarfsfólks.“ 

Gunnþór sýnir smá óróleika í fyrsta skipti í spjallinu. Hann er hræddur um að „kerfinu” sé ekki vel við frásögn hans. 

Af hverju ekki hjálp?

Honum hitnar aðeins í hamsi.

„Ég er langþreyttur á að það sé komið í veg fyrir að ég geti lifað eðlilegu lífi . Það er eins og það sé einhver stöðnun í kerfinu. Mér finnst ég svikinn og sniðgenginn. Ég get ekki hætt neyslunni en get heldur ekki haldið þessu undirheimalífi áfram né get ég tekið við meiri peningum frá mömmu og fósturpabba mínum. “

Gunnþór segist ekki vilja láta vorkenna sér né vekja athygli á sér. Hann vilji bara koma því á framfæri hversu erfitt það er fyrir hann að komast út úr þeim vítahring sem hann hefur verið fastur í í tvo áratugi. 

„Þetta hefur verið grýtt gata en ég er hér enn, hálffimmtugur. Ég er vel upplýstur og tel mig góðum gáfum gæddur en aftur á móti finn ég engan skilning og finnst ég vera einn í liði.“

Ásta Þórhalla Þórhallsdóttir Mynd/Anton Brink

Ástu dreymir um það sama fyrir hönd sonar síns. 

„Af hverju er er ekki hægt að gera hjálpa þessu fólki svo það geti verið úti á meðal fólks? Lifað nokkurn vegin eðlilegu lífi?

Gunnþór er góður maður, hann gefur þeim húsaskjól sem eru á götunni og ég veit til þess að hann hefur gefið einstaklingum sem hafa verið illa farnir af fráhvörfum efnin sín. Hann reynir líka alltaf að greiða það sem hann skuldar og er gjörbreyttur maður frá því þegar hann var sem verstur.

Þá vissum við aldrei hverju mátti eiga von á og ég skil ekki hvernig ég hélt sönsum. Þetta var hræðilegt. Hann henti til dæmis steini i gegnum rúðuna hjá okkur fyrir um áratug en það er langt síðan slíkt hefur gerst og ég hef fengið gamla Gunnþór minn til baka, Gunnþór sem kemur í mat og spjallar við okkur heilu kvöldin.“

Grét ein með hundunum

Þau hjón keyptu litla íbúð fyrir Gunnþór á endanum, honum hafði víðast verið hent út, og þau gátu þau ekki hugsað þá hugsun til enda að hann svæfi í bílageymslum og ruslageymslum. 

„Ef hann fengi bara þá hjálp sem hann þarf til að losna úr fíknefnaheiminum,“ segir Ásta vongóð. 

Aðspurð hvernig hún hafi komist í gegnum þessi ár viðurkennir Ásta að það hafi oft verið afar erfitt að horfa upp á einkabarnið sitt feta þessa braut. 

Þau eru afar náin og hafa alltaf verið. 

„Ég var á sjó allt til 2013 og náði að kúpla mig aðeins frá þessu annan hvern mánuð en eftir að ég kom í land var engin leið til þess.“

Hún segir enga hjálp hafa verið að fá, nema frá eiginmanni sínum. 

„En ég ólst upp við að taka hlutina á hnefanum og það var það sem ég gerði. En áhyggjurnar hurfu aldrei og ég svaf ekki ef ég heyrði ekki frá Gunnþóri reglulega. Það hjálpaði mér að labba úti með hundana mína og þá notaði ég tækifærið og grét. En svo þurrkaði ég tárin og hélt áfram mína leið og reyndi að brosa til heimsins. 

Mikið vildi ég að allir væru góðir við alla“, segir Ásta Þórhalla.

Gunnþór Sæþórsson Mynd/Ernir

Á barmi örvæntingar

Það er varla hægt að orða það öðruvísi en Gunnþór sé á barmi örvæntingar.

Hann segir blaðamanni margar sögur af samskiptum sínum við heilbrigðisyfirvöld, veltir fyrir sér hvort hann hafi sagt eða gert eitthvað rangt og af hverju sumir virðist fá meðferð en ekki hann. 

„Ég veit ekki hvort ég er að klúðra einhverju en ég fæ engan til að hlusta og lendi alls staðar á lokuðum dyrum. Ég er kominn á fimmtugsaldur og þetta er ekkert að verða auðveldara og fráhvörfin erfiðari. Ég veit ekki hvað ég get þetta lengi. Ég þarf hjálp.“ 

Blaðamaður hafði samband við fjölda stofnana, Reykjavíkurborg, félagasamtök og heilbrigðisyfirvöld, ávallt með sömu spurninguna:

Hjálp?

Hvert getur Gunnþór leitað eftir hjálp?

Það reyndist makalaust erfitt að fá svör og vísaði hver á annan. Margir vísuðu á neyslurými en það er alls ekki það sama og skaðaminnkandi meðferð lyfja. 

Þess ber þó að geta að ákveðnir aðilar sýndu málinu mikinn áhuga og gerðu sitt besta í upplýsingaleit, þar á með nokkrir borgarfulltrúar svo og fulltrúar félagasamtaka.

Einn þrautreyndur starfsmaður í málefnum fólks með fíknisjúkdóma sagði að enn væri mikið um fordóma innan kerfisins, þótt enginn vildi viðurkenna slíkt. Viðkomandi aftók með öllu að koma fram undir nafni.

Annar einstaklingur, einnig afar reynslumikill, sagði það orðið þreytandi söng að vísa öllum í meðferð. Sumir væru einfaldlega löngu komnir á þann stað að slíkt væri árangurslaust. „Þetta fólk þarf ekki læknismeðferð, það þarf líknarmeðferð.“

Willum Þór.

Heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, sýndi málinu aftur á móti mikinn áhuga og spjallaði heillengi við blaðamann í síma um þessi málefni. 

Sagðist hann vera búinn að taka upp í ráðuneytinu að stíga frekari skref að formgera skaðaminnkandi úrræði í þá veru sem Gunnþór og Ásta kalla eftir. 

Ennfremur sendi Willum eftirfarandi:

Í dag er hægt að fá lyfið suboxon í viðhaldsmeðferð eftir atvikum, metadon í gegnum Vog, geðsvið LSH og smitsjúkdómadeild. Margt gott/jákvætt gefur gerst á stuttum tíma þegar kemur að skaðaminnkandi úrræðum og nú er verið að leita að staðbundnu neyslurými í samvinnu við Reykjavíkurborg. Frú Ragnheiður veitir þjónustu á vettvangi samvinna við rótina og lyf á við Nyoxid, nefúða og fleira slíkt í bígerð. 

Eins og þú ert að fjalla um þarf að skoða skipulega viðhaldsmeðferð með morfíni, skoða reynslu af því og útfæra og þá í framhaldi innleiða til að tryggja aðgengi fyrir þá sem slík meðferð gagnast eða fremur en önnur gerir síður – það yrði næsta skref – mér finnst umræðan hafa verið að opnast sem dregur úr fordómum, sem virkilega þarf. 

Húsaskjól kemur fyrst og svo þarf næringu umönnun og fjölbreytt meðferðarúrræði betri samfellu og jafnt aðgengi – við höldum áfram að bæta úr.“ 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Segist ekki vera kynferðislegt rándýr en 16 þúsund manns eru ósammála

Segist ekki vera kynferðislegt rándýr en 16 þúsund manns eru ósammála
Fókus
Í gær

Er Ísland þess virði?

Er Ísland þess virði?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Læknir varar við athæfi kynlífsóðu klámstjörnunnar – Hættulega langar samfarir

Læknir varar við athæfi kynlífsóðu klámstjörnunnar – Hættulega langar samfarir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ný negla frá Sveindísi Jane

Ný negla frá Sveindísi Jane
Fókus
Fyrir 2 dögum

Allt fór vel eftir áhættumeðgöngu – „Fullkominn lítill drengur“

Allt fór vel eftir áhættumeðgöngu – „Fullkominn lítill drengur“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Eru íslenskir ökumenn dónalegir í umferðinni?

Eru íslenskir ökumenn dónalegir í umferðinni?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Allt fór á hliðina um helgina þegar Lína Birgitta var sökuð um að herma eftir íslensku merki: „Það sem ég ætla að gera núna er að sýna ykkur staðreyndir“

Allt fór á hliðina um helgina þegar Lína Birgitta var sökuð um að herma eftir íslensku merki: „Það sem ég ætla að gera núna er að sýna ykkur staðreyndir“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég hef séð ótrúlegan árangur af þessum meðferðum“

„Ég hef séð ótrúlegan árangur af þessum meðferðum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

James Van Der Beek greindur með ristilkrabbamein

James Van Der Beek greindur með ristilkrabbamein