Framlag Íslands mun keppa í fyrri hluta á seinna undanslitakvöldinu 11. maí í Liverpool Bretlandi. Í kvöld var athöfn í borginni þar sem borgarstjóri Túrín á Ítalíu, þar sem keppnin var haldin í fyrra, afhenti borgarstjóra Liverpool „lykilinn að Eurovision.“
Í kvöld var einnig greint frá því hvaða dag framlögin í ár keppa til undanúrslita, sem fara fram 9. og 11. maí. 31 lönd taka þátt og verða 20 valin, tíu hvort kvöld, til að keppa í lokakeppninni 13. maí. Fimm lönd eiga ávallt fast sæti á lokakvöldin: Bretland, Frakkland, Spánn og Þýskaland, auk sigurvegara keppninnar árið á undan, sem í ár er Úkraína.
Framlag Íslands valið
Framlag Íslands verður valið laugardaginn 4. mars, en undanúrslitakvöldin verða 18. og 25. febrúar. Lögin tíu sem keppa í ár voru tilkynnt laugardagskvöldið 28. janúar síðastliðinn í sérstökum þætti á RÚV. Tvö lög fara áfram hvort undanúrslitakvöld og framkvæmdastjórn keppninnar áskilur sér rétt til þess að senda „Eitt lag enn“ í úrslit ef þeim svo sýnist. Það verða því annað hvort fjögur eða fimm lög í úrslitunum 4. mars. Hér má sjá framlögin í ár.
Lógó og slagorð Eurovision 2023
Breska ríkisútvarpið tilkynnti í morgun lógó og slagorð keppninnar í ár, sem á að endurspegla upprunalegan tilgang keppninnar; að sameina Evrópu. Slagorðið er United by Music, Sameinuð í tónlist, og í lógóinu, sem er hjartalaga hljóðstrengur, eru fánalitir gestgjafa í ár, Bretlands, og Úkraínu, sem vann keppnina í fyrra.
Úkraína gat ekki haldið keppnina í ár vegna stríðsátaka þar í landi, en koma eigi að síður nálægt skipulagningu hennar og munu úkraínskir listamenn koma fram. Úkraína valdi framlag sitt í ár, Heart of Steel, þann 17. desember síðastliðinn, en undankeppninni Vidbir var sjónvarpað frá sprengjubyrgi undir Maidan torginu í Kyiv.
View this post on Instagram