Hlaupadrottningin Mari Järsk, sem vakið hefur athygli fyrir utanvegahlaup, og Njörður Lúðvíksson, verkefnastjóri hjá Össuri, eiga íþróttaáhugann sameiginlegan. Þau kynntust í gegnum sameiginlega vini á íslendingastaðnum Smoke Bros á Tenerife. Í ferð sem var skyndiákvörðun hjá þeim báðum. Segir Njörður í skemmtilegu viðtali við parið í Heilsublaði Nettó að „óheft og dólgsleg framkoma“
Marji hafi kveikt í honum og í lok ferðarinnar hafi hann tekið af skarið.
Njörður lék með landsliðinu í badminton og kveikti áhuga Mari á íþróttinni. Hún hefur reynt að fá hann með sér út að hlaupa, en segir hann ekki þora. „Eins og staðan er núna þorir hann ekki og ég hef engan áhuga á hinu langdregna golfi. En við eigum bæði fjallaskíði og stefnum að því að stunda þá íþrótt saman,“ segir Mari.
Útivera er þeirra sameiginlega og helsta áhugamál. Mari segist frekar vilja vera úti að leika og æfa en að hanga í eldhúsinu. Kærastinn megi þó elda fyrir hana ef honum leiðist. „Hann eldaði handa mér geggjaðan mat á fyrsta deiti, nætursaltaðan þorskhnakka með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu og sagðist hafa undirbúið hann í tvo daga.“
Lesa má viðtalið í heild sinni í heilsublaði Nettó hér.