,,Fólk virðist treysta mér og finnst ég ágætlega þægileg í að miðla upplýsingum. Og þess vegna finnst mér það vera svo fallegt að vera bara úti í íslensku náttúrunni, ekki einhverri klínískri skrifstofu, að tala um brund, sjálfsfróun eða dýflissur, segir Sigga Dögg kynfræðingur.
,,Ég vil sýna fram á hversu hversdagslegt þetta í raun er. Þetta er okkar daglega líf og hluti af okkur öllum. og ég vil draga umræðuna út úr skápnum og myrkrinu. Þetta þolir alveg samtal en það eru allir að pukrast með skömm og ótta sem er svo mikill óþarfi,
Hún er á hlaupum, eins og alltaf, rekin áfram af köllun til að opna umræðuna um kynlíf.
Af hverju golf en ekki kynlíf?
,,Mitt markmið er að það verði fjallað um kynlíf eins og hvert annað áhugamál. Það er nú ekki lítið sem ég hef þurft að hlusta á sögur um golf eða vali á höldum í eldhúsið. En ég sýni áhuga og spyr um þessar ellefu gerðir sem þarf að velja úr. Og ég vil ég sjá kynlífið á sama stað. Að það sé rabbað um ferðir á kynlífsklúbba í útlöndum á nákvæmlega sama hátt og golfferðirnar. Var gaman? Eignuðust þið vini?
Það þarf ekkert að fara út í smáatriðin frekar en ég vil vita um skrúfurnar í eldhúsinnréttingunni en bara losna við þetta pukur, eins og kynlíf sé eitthvað til að skammast sín fyrir og fela.”
Nenni ekki að lifa í ritskoðun
Árið hefur verið líflegt hjá Siggu Dögg. Hún klárað blæðingabókina sína, sem henni finnst hún hafa verið 150 ára að skrifa, og tókst á við nýtt verkefni. Kynfræðslustreymisveita fyrir fullorðna, Betra kynlíf.
,,Ég veit að margir spyrja sig af hverju fullorðið fólk þurfi kynfræðslu. En ég hef haldið unglingafyrirlestra um land allt í tólf ár og það koma alltaf til mín foreldra sem segja hvað þau hafi sjálf lært mikið sjálf og hvað þau hefði viljað vita hitt og þetta löngu fyrr.
Sigga Dögg hefur sterkar skoðanir um kynfræðslu, eða kannski frekar skort á henni, á landinu eins og fram kom í gær.
Fólk er augljóslega forvitið um kynlíf Sigga Dögg fær um hundrað skilaboð á dag. ,,Þetta er fólk á öllum aldri en mjög margar spurninganna endurspegla vanþekkingu á málefnum sem við hefðum fyrir löngu átt að vera búin að kenna.”
Aðspurð um af hverju hún hafi valið að opna vef segir Sigga Dögg hlutina eiga stuttan líftíma á samfélagsmiðlum.
,,Og út af efninu sem ég set inn er alltaf verið að hóta að henda mér út af samfélagsmiðlum, ég má ekki nota nein myllumerki og suma daga finnst ég eða ekki hægt að adda mér því ég er í skuggabanni. Stundum birtist ég ekki efnisveitu, það er ekki hægt að fletta neinu frá mér upp og þetta er bara alveg endalaust kjaftæði.
Ég nenni ekki að lifa í einhverri ritskoðun, fólk á rétt á upplýsingum, svo að ég lagði hausinn í bleyti.
Get fjallað um allan andskotann
Sigga Dögg segir að þegar hún fái hugmynd sé hún oftar en ekki stór. ,,Svo verður hún risastór í framkvæmd og áður en ég veit er ég hlaupin af stað eins og Forrest Gump án þess að vita nokkuð hvað er frammundan.”
Hún segir að kannski sé hún hæfilega klikkuð en þrátt fyrir flækjur og vesen þá skipti hana öllu málið að fólki sé ánægt með kynlífið sitt.
,,En til þess að ná ánægju þarf að vita ákveðna hluti. Og þarna get ég sett endalaust efni…endalaust af því. Og fjallað um allan andskotann. Ég hef þekkinguna og get sagt þér allt sem þig mögulega langar að vita um kynlíf, hvort sem það tengist þér eða ekki.
Og það var rosalega djúsí pæling fyrir mig að fara alla leið með þetta.
Sigga Dögg verður alvarlegri í fasi. ,,Mér finnst einnig svo fallegt að geta farið djúpt inn í hugtökin og fengið upplýsingar sem hægt er að treysta á sínu móðurmáli.
Hún segir líka nándina spila inn í. ,,Áskrifendur senda á mig beiðnir að fjalla um ákveðin mál á við afbrýðisemi, kynlífsklúbba eða hinar ýmsu tegundir kynlífs. Allt milli himins og jarðar og ég skelli mér í það. Þetta er öðruvísi en það sem ég hef verið að gera en rosalega endurnærandi og skemmtilegt.
Ég er búin að fara allan tilfinningaskalann. Er ég galin ? Hefur enginn áhuga á þessu? Eða er þetta besta hugmynd í heim? Eða versta? Ég sveiflast fram og til baka.”
Ekkert að ráði til um sjálfsfróunartækni
Sigga Dögg er óþreytandi við að leita meiri upplýsinga um kynlíf.
,,Núna í vikunni var ég að rannsaka sjálfsfróunartækni, sem ég er mikil áhugamanneskja um. En fann út að þetta hefur lítið verið rannsakað og fátt að finna á lífsstílsvefjum um sjálfsfróunartækni. Þarna er til dæmis ákveðið þekkingargat sem ég get fyllt upp í.
Sigga Dögg segir landann vera duglegan í að senda sér krúttleg skilaboð og þakka fyrir það sem hún er að gera. ,,Og þetta eru Íslendingar, þjóðin sem aldrei hrósar! Þeir eru að breytast í Kana, get svo svarið fyrir það. Það hefur meira að segja allsber kona faðmað mig í sturtu í sundi því hún vildi þakka mér. Það var reyndar mjög sérstakt. Að vera í eigin heimi að þvo sér, troða sér í bolinn og óska þess að það væri til nektarsund á Íslandi. Og fá svo allsbert knús,” segir Sigga Dögg og skellihlær.
Sigga Dögg er reyndar alltaf skellihlæjandi.
Byggjum spítala til að tala
Flestir þeir sem hafa samband við Siggu Dögg eru konur.
,,Konur tala saman um kynlíf og hafa svo samband við mig varðandi eitthvað sem kannski hefur legið á þeim árum saman. Konur taka líka oft ábyrgð á kynlífinu í sambandinu, ekki bara sínu heldur makans líka. Við sjáum þetta til dæmis í ,,kvennatímaritum” sm skrifa endalaust um kynlíf. ,,Svona reddarðu hjónabandinu” eða ,,Svona er góð kynlífstækni.” Þetta er náttúrulega galið og strákar verða að fá rými til að opna sig og vera einlægir.”
Sigga Dögg gerði rannsókn á íslenskum karlmönnum og kom skýrt í ljós að helsta leið karlmanna til að opna sig við aðra karlmenn er í gegnum húmor.
,,Þar setja þeir fótinn í gættina til að kanna hvort málið verður skotið niður. Karlmenn hafa ekki örugg rými en þeir vilja skapa þau. En þeir geta ekki gert það með mér, þeir þurfa að skapa þau hverjir með öðrum. Fara að brjóta ísinn og tala saman. Konur eru að tala saman, guð veit að við höfum talað saman svo öldum skiptir og stofnað heilu kvenfélögin til að tala meira saman.
Og ef við þurfum að tala meira saman söfnun fyrir spítala eða eitthvað í þá áttina til að fá afsökun fyrir enn meira tali,” segir Sigga Dögg og hristist hreinlega af hlátri.
Herregud!
Sigga Dögg er aftur á móti ansi kát með margt, þrátt fyrir trega til breytinga í kynlífsfræðslu eins og fram hefur komið.
,,Nú eru margir í óhefðbundnum samböndum að stíga fram opinberlega. Þetta er ,,fallega” og ,,venjulega” fólkið og maður heyrir bara fólk að kafna á sínu herregud í hneykslun. En við erum að upplifa svo ótrúlega spennandi tíma að ég leyfi mér að halla mér aðeins aftur og hugsa að hafi ég átt einhvern þátt í að skapa þetta andrúmsloft á Íslandi sé ég býsna sátt.”
Enn er þó langt í land og sjálf segir Sigga Dögg persónulega þekkja til að fólk hafi íhugað að kalla til barnavernd vegna þess að foreldrarnir séu að ,,swinga” ,,Ég hef verið spurð hvort það skuli kalla til yfirvöld. Ég spyr á móti hvort börnin séu heima á meðan þetta eigi sér stað. Nei nei…en hef heyrt að foreldrarnir séu í þessu. Er eðlilegt að börn búi á svona heimili?
Hvernig tengist það barnavernd? Er barnaverndarnefnd kannski líka að swinga? Hvað ertu að tala um? Ég skil hvorki upp né niður.
Fólk getur verið svo ógeðslega fyndið, með sínar mórölsku skoðanir um kynlíf, og við breytum því ekki nema að galopna þetta samtal.”
Kynlífsklúbbarnir
Kynlífsklúbbar eru mikið áhugamál Siggu Daggar og kíkir hún á eins marga og hún getur á ferðum sínum um heiminn. ,,Ég hef sest niður á klúbbum og fengið mér kaffibolla og spjallað við gesti og starfsmenn og svo rölt mína leið. Ég vil finna andrúmsloftið og sjálf upplifa hlutina sem ég fjalla um og birti á vefnum.”
Klúbbarnir eru alls konar og misskemmtilegir að sögn Siggu Daggar. ,,Ég fór nýlega á einn sem var alveg skelfilega leiðinlegur. Allir urðu rosa spenntir við flengingarnámskeið sem er eitthvað sem ég geri í hádeginu á sunnudögum. Ekki á laugardagskvöldi, takk fyrir. Þessu fólki fannst þetta mjög framandi og spennandi en þetta var ekki fyrir mig.”
Sigga Dögg hristir höfuðið og hlær.
Hún tekur upp bæði áður en hún fer inn og á eftir. ,,Mér finnst það svo skemmtilegt. Stundum er ég máluð og með hárið uppsett áður en ég fer inn, voða settleg og sæt. En svo kem ég út með hárið í klessu og meiköppið löngu horfið, í banastuði að segja frá klúbbnum.”
Sigga Dögg viðurkennir að hafa þó aðeins hikað við að fjalla um kynlífsklúbbana í byrjun. ,,Ég var pínu spéhrædd, hélt fólk að nú væri ég endanlega búin að tapa mér? En ég held að fólk finni að þetta er eins og annað sem ég fjalla um.
Ég kem hreint fram og lít á það sem verkefni að gera kynlíf betra. Það má segja það köllun en snýst ekki um mig sem einstakling heldur að fjallað sé fallega um kynlíf, án fordóma og af virðingu.”
Ástsjúkur krakki
Eins og margir sogast að hljóðfæri sem liggur fyrir þeim frá unga aldri segist Sigga Dögg alltaf hafa viljað vinna með fólki að ástinni. ,,Ég var bara pínúlítið kríli þegar ég sagðist vilja verða sálfræðingur og vinna með hjónum. Ekki flugfreyja eða búðarkona og hafði í þokkabót aldrei einu sinni farið til sálfræðings. Mér fannst alltaf svo áhugavert að fylgjast með fólki og pikka upp stemmninguna í samböndum.”
Hún bætir við að hún hafi verið ástsjúkur krakki, alltaf skotin og alltaf með kærasta.
,,Og ég fékk svona líka fallegan fyrsta kærasta. Það er aðeins byrjað að rannsaka þetta, ekki jafn mikið og maður hefði haldið, en það er verndandi þáttur að verða ástfanginn ungur ef að ástin er góð og upplifunin falleg. Og ég fékk dásamlegan fyrsta kærasta sem elskaði mig og var góður við mig, hreinn og beinn. Við stunduðum alls konar kynlíf, vorum tveir bjánar að prófa okkur áfram en það var ekkert nema kærleikur og fegurð. Ég var reyndar algjör frekjudós en hann þoldi það. Og að fá það í veganesti var dásamlegt.
Ég hef átt alls konar kynlífsupplifanir og ekki allar góðar. Mín fyrsta kynlífsreynsla var til dæmis langt því frá frábær en svo fékk þennan yndislega gaur og fékk gott í hjartað. Ég fann að sambönd væru góð, kynlíf væri gott og fyrst og fremst að fólk væri gott.”
Vil stundum brenna mig
Hún segir auðvitað margt koma upp á í lífinu og sjálf eigi hún sínar dramasögur.
,,En samt trúi ég alltaf í hjarta mínu að fólk sé gott. Við getum verið illa stemmd og komið illa fram við aðra en kjarninn er alltaf góður. Það gerist einstaka sinnum að ég skynja eitthvað annað í fólki og hika aðeins. Ég er auðvitað innsæið alla leið og hef verið það frá því ég var unglingur. Ég hef þvælst um allan heim, farið upp í bíla með ókunnugum, farið í furðulegustu partý en alltaf hlustað á innsæið. Og það hefur komið fyrir að innsæið hefur sagt mér að forða mér og þá hef ég hlýtt því.“
..Það þarf að þora að hlusta á sína innri rödd en líka að geta rökrætt aðeins við hana. Að nú vilji ég ýta henni til hliðar og fá að brenna mig aðeins. Svona eins og þegar þú ert að byrja með fyrrverandi kærastanum í hundraðasta skiptið og veist að það mun ekki enda betur en í hin skiptin.
En lætur samt vaða og segir innsæinu að vera í spjalli síðar.”
Sigga Dögg er afar andleg og telur að sér hafi verið sendir verndarenglar sem hafi komið inn í líf hennar í gegnum árin.
,Ég hef alltaf verið toguð upp úr pollinum þegar ég hef þurft á því að halda. Ég held líka að maður sé ekkert nema fólkið sem maður hefur í kringum sig. Netið sitt. Ég er mjög opin og treysti fólki, það er auðvelt aðgengi að mér en ég hleypi ekki hverjum sem er að. Ég er með mjög lokaðan kjarna sem erfitt er að komast að og þar er ég brothættust. Og það eru mjög fáir sem hafa komist þangað.”
Er brothættari en ég hélt
Sigga Dögg er nýgift Sævari Eyjólfssyni.
,,Ég er í hjónabandi þar sem sjálfið hefur enga vörn. Mér líður eins og rauðglóandi kviku jarðar, út um allt og óútreiknanleg. En við tókum þá ákvörðun í sameiningu að opna allt upp á gátt en djöfull er það samt erfitt. Ég hef aldrei lent í jafn miklum átökum við sjálfa mig eða grátið jafn oft. En ég er að takast á við sjálfa mig, sambandið og tilfinningar í fullu öryggi. Það er lærdómskúrfan mín núna og við erum bæði mjög meðvituð um þessa vinnu og hvert við höldum. Það er tilfinningalegt ströggl sem kallar á vinnu og suma daga nennir maður henni ekki. En það þarf að nenna því, því það margborgar sig.”
Sigga Dögg segist hafa uppgötvað margt um sjálfa sig í ferlinu.
,,Kannski er ég brothættari en ég hélt. Þetta er merkilegt ferðalag sem braut mig hreinlega niður og á tímabili hágrenjaði ég á Instagram því það var svo yfirþyrmandi að horfast í augun við sjálfa mig og allt sem ég hafði ekki viljað takast á við áður. ”
Eins og kátur hvolpur
,,Ég hef kannski verið óþægilega hreinskilin við marga og get farið yfir mörkin sé mér ekki bent á þau. Annars er ég bara eins og kátur hvolpur og veð áfram í minni hreinskilni. Ég á líka erfitt með að vera kyrr og finna ró, hausinn á mér er alltaf á milljón, og það er mitt næsta verkefni að takast á við það og kyrrsetja kollinn.
En ég vil alltaf hafa vinnuna kreisí, vil eki sjá annað, nema þegar ég er með börnin. Þá legg ég símann frá mér og gef þeim alla mína athygli.
Sigga Dögg á þrjú börn og eina stjúpdóttur svo alls eru börnin fjögur.,,Vikuna sem þau eru hjá mér er allt annað tempó og börnin í algjörum forgangi. En þegar þau eru ekki er skrúfað upp í öllum brennurum.”
Var virkilega sár
Aðspurð um hvort hún finni fyrir neikvæðni segist Sigga Dögg hafa fengið skammtinn fyrir árið í ársbyrjun.
Er hún þá að vísa í áskanir Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttir og Maríu Hjálmtýsdóttur um að Sigga Dögg kenndi unglingum landsins kyrkingar í tengslum við kynlíf. Hún var þó ekki nafngreind í upphafi. Sigga Dögg og Hanna mættust svo í Kastljósinu og gekk Hanna þar hart fram.
Hún bað Siggu Dögg síðar afsökunar.
,,Ég er alltaf til í spjall og tek gagnrýni vel. En ég vil ekki vera tekin af lífi nafnlaust. Ef þú átt eitthvað sökótt við mig skaltu koma til mín, ekki fara þessa leið, því ég vinn alltaf af heilindum.
Mér þykir vænt um hvern einasta nemanda og gef öllum tíma og hlustum sem vilja spjalla. Mér fannst þetta virkilega ósanngjarnt og ljótt að ýja að því að ég gæti orðið valdur að dauða barns. Ég er sjálf móðir og var virkilega sár. Mér fannst þetta ómakleg gagnrýni og ljótt hvernig hún var sett fram.
Þetta er samtal sem ber að taka en aldrei á þennan hátt.”
Margir hvöttu Siggu Dögg til að fara í meiðyrðamál en hún segir það aldrei hafa komið til greina.
,,Slíkt þjónar engum tilgangi. Ég vildi opna á ákveðið málefni og gerði það með þessum líka helvítis mikla skelli. En allt í einu voru allir og frændi þeirra farnir að opna sig um alls konar hluti sem það fílaði eða fílaði ekki í kynlífi. Fólk var að koma upp að mér í Bónus og hvísla um ást sína á kyrkingum á meðan að ég var að kaupa epli. Ég sagðist samgleðjast og bað þau um að fara varlega og hélt svo áfram að kaupa epli. Þetta var rosalega sætt.”
Túrbókin með alvöru blóði
Blæðingarbók Siggu Daggar kemur út núna fyrir jól.
,,Hún er hrikalega skemmtileg. Með myndum af túrblóði og píkum og alls konar líkömun, allt mínar myndiir. Hún byggir á svörum fjögur þúsund kvenna sem ég spurði um líðan þeirra á túr. Ég spurði um allt milli himins og jarðar, hvort þær vilji borða eitthvað sérstakt, hvort þær fari í sund, hvort og hvernig daglegt líf breytist á túr, hvort þær prumpi meira, sofi öðruvísi eða hægðirnar breytist. Ég vildi gera vandaða bók um blæðingar frá a til ö, bók sem svaraði öllum spurningum á mannamáli.
Það er svo spennandi að skrifa svona bók í dag, tímarnir hafa breyst það mikið. Það er nákvæmlega enginn skömm við eitt eða neitt. Til hamingju! Þú ert komin á ákveðin stað í lífinu og nú verður þér fylgt í gegnum það.
Og já, þetta er alvöru túrblóð sem er á myndunum,” bætir Sigga Dögg kynfræðingur við í blálokin áður en rokið er í næsta verkefni.