„Tilhlökkunin liggur í loftinu á frumsýningu söngleiksins Sem á himni á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu, enda hefur miklu verið tjaldað til, bæði í umbúnaði og flutningi.“
Svona hefst gagnrýni Nínu Hjálmarsdóttur, leikhúsgagnrýnanda útvarpsþáttarins Víðsjár á Rás 1, um nýjasta flaggskip Þjóðleikhússins, Sem á himni. Úrvalslið leikara er í sýningunni sem syngja og dansa við tónlist frá lifandi hljómsveit í stjórn Jóns Ólafssonar. Um er að ræða sýningu sem byggð er á sænsku kvikmyndinni Så som i himmelen sem kom út árið 2004 og var tilnefnd til Óskarsverðlauna.
Nína segir að hún sé mikið fyrir söngleiki og því var hún tilbúin að skemmta sér þegar hún hallaði sér aftur í leikhússætinu. „Sjálf er ég alræmdur sökker fyrir söngleikjum, stórum dansnúmerum og óðs til heterónormatívrar sannrar ástar sem lifir dauðann og eftir að hafa séð plaggatið fyrir sýninguna er ég ekki lítið spennt fyrir svona „feel good“ sveitarómans-söngleik.“
En vonir Nínu um að njóta leikritisins runnu þó út í sandinn. Það fyrsta sem hún gagnrýnir er tónlistin en hún segir hana vera andlausa og að hún skilji ekkert eftir sig. „Ég gæti ekki raulað stef úr sýningunni þótt líf mitt lægi við,“ segir hún.
Þá talar Nína um umfjöllunarefni leikritsins. Henni finnst til að mynda lítið gert úr áfalli einnar persónunnar því viðbrögðin við því að persónan verður fyrir heimilisofbeldi er að leikhópurinn brestur í söng. „Útkoman er sú, að ofbeldið virðist vera léttvægt, eins og það sé ekkert mál að vera stöðugt barin í spað,“ segir Nína.
„Ofaná þetta vekur ákvörðun leikstjórans um að sýna sjálfan ofbeldisverknaðinn ennþá fleiri spurningar, hver eru áhrif þess að pína áhorfandann sem grípur fyrir augun af óþægindum, eða hefði verið hægt að taka aðra nálgun, kannski gefa í skyn eða láta hluti gerast utansviðs? “
Nína segir að það virðist vera sem höfundar treysti ekki áhorfendum til að muna eftir atvikum eða lesa í aðstæður. „Á sama tíma og margt er ofútskýrt í uppsetningunni, eru samt lykilatriði sem virka óljós og jafnvel óskiljanleg, og fær maður á tilfinninguna að stórum pörtum hafi verið hent úr handritinu á kostnað heillegrar persónusköpunar. “
Annað sem Nína gagnrýnir sérstaklega er ein persóna í leikritinu. „Það er einn karakter í verkinu sem þarf að ræða sérstaklega, persónan Doddi sem er fatlaður, en hann er leikinn af hinum ófatlaða leikara Almari Blæ Sigurjónssyni, einum eftirtektarverðasta leikara landsins um þessar mundir,“ segir hún.
„Það er aldrei tekið fram í verkinu, og því þarf að geta í eyður, en Doddi virðist vera með einhverskonar einhverfu eða þroskafrávik, ásamt því að vera með hamlanir í líkamlegri færni, og er því að mér virðist fjölfatlaður.“
Nína segir að með þessu hafi Þjóðleikhúsið ákveðið að gera það sem kallast á ensku „cripface“, það er þegar ófötluð manneskja leikur manneskju með sýnilega fötlun.
„Hugtakið hefur orðið meira og meira áberandi í umræðunni um birtingarmyndir fatlaðs fólks í leikhús- og kvikmyndaiðnaðinum. Þessi gjörð, að sviðsetja cripface, gefur til kynna að fötlun sé hluti af sjálfsmynd sem er hægt að setja á sig tímabundið til að skemmta öðrum, og minnir þannig á mun þekktara hugtakið „blackface“, þegar hvít manneskja málar sig dökka til að leika svarta manneskju.“
Nína ræddi við Rannveigu Traustadóttur, prófessor emeritus í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands, um persónuna Dodda. Í samtalinu sagði Rannveig að til væru dæmi um ófatlaða leikara sem gera fötluðum persónum góð skil. „Hún nefndi líka að fatlað fólk hefði lengi gagnrýnt það að fatlaðir leikarar gengju atvinnulausir á meðan ófatlað fólk léki fatlaðar persónur með misjöfnum árangri,“ segir Nína.
„Ég hef nýlega orðið vör við að þessar raddir eru að fá áheyrn, til dæmis réð Royal Shakespeare Company í Bretlandi fatlaðan leikara til að leika Ríkharð þriðja, á meðan ríkisleikhús í Þýskalandi hafa bætt við fötluðum leikurum á leikaraskrá sína.“
Nína segir að því sé lögmætt að spyrja hvers vegna Þjóðleikhúsið fann ekki fatlaðan leikara til að fara með hlutverk Dodda. „Það er lítið mál að finna fatlaðan einstakling hér á landi sem getur sungið og leikið. En þegar litið er til hvernig karakter Dodda var sýndur á sviði, sem hefur þá með handrit og leikstjórn að gera, þá verður spurningin mun meira knýjandi,“ segir hún.
„Hér er persóna sem ýtir undir neikvæðar staðalímyndir um fatlað fólk sem eilíf börn sem eru upp á aðra komin. Sem vekur síðan upp spurninguna um hvaða samtal liggur að baki þessari ákvörðun? Og hvaða rannsókn átti sér stað í æfingarferlinu? Er þetta stefna Þjóðleikhússins, okkar helstu menningarstofnunar, þegar kemur að hlutverkaskipan og birtingarmyndum minnihlutahópa?“
Undir lokin tekur Nína gagnrýnina saman. „Ég get ímyndað mér að ferlið að þessari uppfærslu hafi byrjað með einhverri hugsjón um að tækla meðvirknina sem á sér stað í litlum samfélögum. En það ætti að vera hverjum sem les handritið ljóst að sá punktur kemst ekki í gegn, engin raunveruleg valdefling á sér stað og verkið er eintóm froða, uppfull af illa skrifuðum persónum og klisjukenndri framsetningu,“ segir hún.
„Hvernig komst þetta verk í gegnum mörg ár í Covid og marga fundi og allt það klára fólk sem þarna starfar? Hvað er eiginlega í gangi í Þjóðleikhúsinu? Hvernig er það, stendur enginn vörð um að svona gerist ekki? Hver er eiginlega tilgangurinn? Hvað á þetta að segja okkur áhorfendum? Hvers vegna var þetta verk valið inn sem stóra haustuppfærsla Þjóðleikhússins? Eru engir ferlar eða krítería í leikritavali sem tryggir að nærgætni sé gætt gagnvart birtingarmynd fólks sem hefur sögulega verið ósýnilegt á sviði? Og hvort handritið sé eitthvað meira en innantómar klisjur?“
Hún botnar pistilinn svo með því að segja að verkið niðurlægi ekki aðeins minnihlutahópa og geri lítið úr landsbyggðinni heldur sér það byggt á „augljóslega illa skrifuðu handriti.“
„Mig langar helst að stofna til mótmæla um að fá handritin heim, semsagt þetta handrit aftur heim til Svíþjóðar, takk.“