„Magnað að fá þau skilaboð frá nýjasta spútnik RUV að leiklist sé ekki fag og að Þjóðleikhúsinu beri í raun að finna fatlaðan einstakling sem getur leikið og sungið til að túlka einstakling á leiksviði, sem glímir við fötlun,“ segir leikkonan Edda Björgvinsdóttir og vísar þar í leikshúsgagnrýnandann Nínu Hjálmarsdóttur sem fjallaði um sýninguna „Sem á himni“ en hún gerir athugasemdir við að ófatlaður leikari sé í hlutverki manns með fötlun.
Nína segir að með þessu hafi Þjóðleikhúsið ákveðið að gera það sem kallast á ensku „cripface“, það er þegar ófötluð manneskja leikur manneskju með sýnilega fötlun.
„Ég hef nýlega orðið vör við að þessar raddir eru að fá áheyrn, til dæmis réð Royal Shakespeare Company í Bretlandi fatlaðan leikara til að leika Ríkharð þriðja, á meðan ríkisleikhús í Þýskalandi hafa bætt við fötluðum leikurum á leikaraskrá sína,“ sagði Nína í umfjöllun sinni í Víðsjá á Rás 1.
Eddu Björgvinsdóttur mislíkar þessar athugasemdir Nínu og gerir málið að umtalsefni í Facebookhópnum Menningarátökin.
„Það er sem sagt nóg að mati nýjasta sérfræðings í leiklist að vera hæfileikarík fötluð manneskja með enga leiklistarmenntun, til að bera uppi sýningu í Þjóðleikhúsinu.
Haft eftir NH hjá Ríkisútvarpinu orðrétt: „Það er lögmætt að spyrja spurningarinnar af hverju Þjóðleikhúsið fann ekki fatlaðan leikara til að túlka hlutverk Dodda, þar sem það er lítið mál að finna fatlaðan einstakling hér á landi sem getur sungið og leikið“.“
Áhugamannaleiklist á Sólheimum
Edda leikur sjálf í sýningunni en sem kunnugt er hefur hún lengi starfað á Sólheimum í Grímsnesi þar sem hún hefur til að mynda sett upp leiksýningar með heimilisfólkinu.
„Ég veit sjálfsagt betur en flestir aðrir hvað fatlað fólk er óendanlega hæfileikaríkt og birtist það í öllum listgreinum. Leikararnir mínir á Sólheimum hafa margoft slegið í gegn í leikritunum sem ég hef leikstýrt og þau búa yfir endalausri leikgleði og útgeislun þeirra er stórkostleg. Það sem við erum að gera á Sólheimum er samt áhugamennska í leiklist. Ekki atvinnumennska. Ef enginn hér á þessari síðu àttar sig á ergelsi mínu yfir þessari hugsanavillu sérfræðingsins þá biðst ég bara afsökunar og mun grjóthalda kjafti,“ segir Edda.
Fólk með líkamlega fötlun sæki ekki um
Fjörugar umræður skapast um málið og segir leikkonan Esther Talía Casey: „Þetta er klárlega umræða sem þarf að taka, ég er alveg lost í þessum PC heimi og sammála sumu og alls ekki öðru. En samtalið þarf að fara í gang það er víst.“
Vigdís Másdóttir tekur einnig þátt í umræðunni: „Nú get sem kynningarstjori Listaháskólans sagt að við höfum hvatt fólk með líkamlega fötlun að sækja um, það er ekki að skila sér – þeas í leikaranámið. Því miður eru fyrirmyndirnar ekki til staðar svo að það er flókið að sýna það í kynningarefni. Við værum ekki að sýna raunsanna mynd. Við bjóðum öll velkomin, en svo er það þannig að það eru takmörkuð pláss svo að enginn á tryggða skólavist með þvi einu að sækja um en hver og einn umsækjandi er metin sem einstaklingur með öllu því sem viðkomandi hefur fram að færa. En við hvetjum öll til að sækja um sem hafa áhuga!“
Spyr hvar þetta endi eiginlega
Leikkonan Sólveig Arnardóttir, sem hefur starfað víða í Evrópu, bendir á að þessu umræða sé komin býsna langt víða í álfunni, og sé „auðvitað flókin og oft erfið en líka áhugaverð og gefandi. Það er t.d. ekkert endilega sjálfgefið að íslenskur leikari/leikkona leiki útlending þegar einn sjötti þjóðarinnar er fólk sem er ekki fætt og uppalið hér. Sama máli gegnir um fatlaða. Að því sögðu er leikur okkar fag og við eigum að vera fær um að túlka allskyns sem við ekki erum…“
Þá segir Sólveig að mikilvægast af öllu sé samtalið, hlustun og skoðanaskipti „án þess að grafnar séu skotgrafir og án þess að niðurstaðan sé sú að einhverjir hafi rétt fyrir sér og aðrir rangt. Og hefja umræðuna uppyfir einstaka sýningar eða frammistöðu leikara, um það á og má þetta alls ekki snúast.“
Páll Baldvinsson, blaðamaður, bókmenntafræðingur og gagnrýnandi, spyr hins vegar: „Hvar endar þessi wok-hugsun; mátti Daniel Day ekki leika í My left foot, Anthony Hopkins í Elephant man ekki frekar en David Bowie á sviði, Dóra Geirharðs í Gullregni, Hilmir Snær Ríkarð þriðja? Verður sá sem leikur blindan mann á sviði að vera blindur?“