Í gærkvöldi fór tölvupósthólf tónlistarmannsins Andra Þórs Ólafssonar að nötra og á skömmum tíma hafði hann fengið á fimmta tug skeyta sem greinilega bárust öll frá Póllandi. Fyrir flesta myndi þetta vera nokkuð sérkennilegt en Andri er öllu vanur í þessum efnum og hefur fengið fjölmörg skeyta frá öllum heimshornum undanfarin misseri. Ástæðan er sú að í um 16 ár hefur hann átt og notað emailið AndriOlafs hjá Gmail-netþjóninum en þannig vil til að í lokaþætti þriðju seríu Ófærðar gefur lögreglumaður Andri, sem leikinn er af stórleikaranum Ólafi Darra Ólafssyni, upp nákvæmlega þetta netfang þegar hann óskar eftir mikilvægum gögnum til þess að leysa ráðgátu seríunnar.
Þriðja sería Ófærðar, sem er úr smiðju Baltasars Kormáks, var sýnd á RÚV í lok árs 2021. Andri horfði á fyrstu tvær seríur þáttaraðarinnar en segist ekki hafa haft tíma til að horfa á þá síðustu. Það hafi hins vegar móðir hans gert en hún var mikil aðdáandi þáttanna og missti ekki af neinum einasta þætti.
„Mamma benti mér á eftir síðasta þáttinn að hún héldi að lögreglumaðurinn Andri hafi gefið upp netfangið mitt í þættinum,“ segir Andri. Sama kvöld hafi hann fengið fyrstu tölvupóstana frá íslenskum aðdáendum þáttanna og þar með var staðfest að athyglisgáfa móður hans var eins og best verður á kosið. „Flestir Íslendingarnir sem sendu mér skeyti voru kannski örlítið sérstakir,“ segir Andri og hlær.
Síðan þá hefur Ófærð, eða Trapped og jafnvel í sumum tilvikum Entrapped, ferðast um heiminn og reglulega fær tónlistarmaðurinn Andri skeyti sem ætluð eru lögreglumanninum vinsæla eða framleiðendum þáttanna. „Það virðist bara haldast í hendur við hvar þættirnir eru sýndir hverju sinni. Ég er svo sem ekki alltaf með á hreinu frá hvaða landi sendandinn er í hvert skipti,“ segir Andri og hefur auðheyranlega gaman af.
Hann segir að væn bylgja af borist frá Bandaríkjunum fyrr á árinu en Pólverjarnir hafi algjörlega vinninginn. „Það hefur örugglega verið að sýna þáttaröðina á einhverri pólskri sjónvarpsstöð því skeytunum rigndi inn á skömmum tíma,“ segir Andri. Eðli málsins samkvæmt skyldi hann nú ekki öll skilaboðin en sum þeirra voru stutt og með einfaldri kröfu – að Baltasar myndi skella í fjórðu seríuna af þáttunum.
Dæmi um skilaboð sem bárust til Andra í gærkvöldi og voru nokkuð afgerandi:
„Trapped (Entrapped on Netflix) MORE TRAPPED IN THE USA PLEASE. Thank you.“
Andri segist ennfremur búast við að skeytasendingum sé hvergi nærri lokið. Þriðja serían af Ófærð var heimsfrumsýnd á Netflix þann 8. september síðastliðinn og því má búast við að aðdáendur þátttanna um heim allan muni sendi Andra skeyti og ákall um framhald af þáttunum. Mögulega munu þó tvær grímur renna á Andra ef þættirnir slá í gegn í Kína eða Indlandi.
„Ég hef ekki komist yfir að lesa öll skeytin. En ef ég þarf að kaupa mér stærra geymslurými hjá Gmail þá áskil ég mér rétt til að lögsækja Balta,“ segir Andri og hlær.