fbpx
Mánudagur 15.júlí 2024
Fókus

Arnór lét sig dreyma í sláturhúsinu á Haugnesi – ,,Ég hélt að ég hefði ekki kjarkinn í þetta“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 9. júlí 2022 15:20

Arnór Daði Gunnarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arnór Daði Gunnarsson er 28 ára grínisti, örverpi í fimm systkina hóp, fæddur og uppalinn á Hauganesi. Sýning hans, Big, Small Town Kid, kemur út á VOD streymisveitu Vodafone og á Sjónvarpi Símans í byrjun komandi viku. 

Arnór segir þetta tvímælast vera að detta í lukkupottinn. ,,Þetta er hálf galið. Ég vissi af þessu fyrirtæki fyrir löngu, áður en ég byrjaði í uppistandi, og allir af mínum uppáhalds uppistöndurum eru hjá þessu fyrirtæki. Þetta var svo grillað og súrrealískt að ég trúði þessu bara ekki.” 

Um er ræða klukkutíma langt uppistand. 

,,Framleiðandinn kom til Íslands að taka upp aðra sýningu en sá mig með uppistand á The Secret Cellar, fyrsta og eina grínklúbb landsins sem nú hefur reyndar lokað. Við spjölluðum saman og ég var reyndar svolitið ,,starstruck” því ég var nýbúinn að hlusta á hann í hlaðvarpi og fannst þetta allt mjög skrítið. Ég var svo með mjög svipaða sýningu árið 2020 á Reykjavik Fringe Festival sem vann þar þrjú verðlaun, og það var skrifuð grein í Grapevine sem hann síðan sá á Facebook. Þetta var sumarið 2020 og ekkert uppistand í Bandaríkjunum á þeim tíma. Hann bauð mér að skrifa undir samning og framleiða þessa klukkutíma sýningu. Við ætlum að skella í þetta strax haustið 2020 en þá lokast allt vegna Covid svo við enduðum á að gera þetta ári seinna.“

Það sem Arnór er óþekktur, og reyndar verið að taka séns á honum, var ákveðið að gera þetta eins ódýrt og mögulega. Arnór er útskrifaður úr Kvikmyndaskóla Íslands og hóaði hann saman skólasystkinum sínum sem lögðu árar í bát við gerð þáttarins sem að mestu var gerður á Íslandi. 

Sterk grínsena á Íslandi

Af hverju er bandarískur framleiðandi að sækja í íslenskt grín?

,,Grínsenan á Íslandi er miklu sterkari en fólk heldur. Secret Cellar var með sýningar á hverju kvöld og stærri sýningar um helgar. Þangað kom fullt af Íslendingum sem höfðu ekki hugmynd um hvað það eru margir í uppistandi hér á landi.”

Hann segir einnig mikla fjölbreytni hjá íslenskum grínistum. ,,Útlendingar hafa mjög gaman af að sjá íslenska grínista og það koma reglulega til landsins erlendir uppistandarar alls staðar að úr heiminum. Þeim finnst líflegt og skemmtilegt að koma hingað og það hefur skapast góð vinátta á milli fólks í þessu.”

,,Ég myndi segja að uppistand á Íslandi hafi ekki byrjað fyrir alvöru fyrr en um 2013 þegar að Rökkvi Vésteins byrjaði með svona tilraunauppistand. Smám saman urðu uppistandararnir betri og ég myndi segja að það sé mjög góður hópur af uppistöndurum á Íslandi í dag, fólk sem enginn þekkir.“ 

Hann segir það vera um 15 til 20 einstaklinga sem séu mjög virkir en einnig sé stór hópur sem komi og fari. Hópurinn sé duglegur mæta á það, sem hann kallar með fullri virðingu krummaskuð, til að segja brandara, stundum fyrir svo að segja enga áhorfendur. ,,Allt til að brýna sverðin.”

Íslendingar fyndnari í íslensku

Uppistand í Secret Cellar var oftast á ensku og segir Arnór íslenskuna ekki hafa gengið upp endar túristarnir stór partur af þessu. Almennt telur hann þó Íslendinga fyndnari á íslensku enda eigi mikið af okkar húmor upptök í þáttum á við Fóstbræður, Svínasúpuna og Næturvaktina. Um sé að ræða húmor sem hafi að miklu leyti mótað Íslendinga og sé ekki unnt að koma áleiðis á ensku. ,,Þú tengir alltaf betur við fólk á þínu eigin tungumáli.” 

Sjálfur byrjaði Arnór að grínast á íslensku en færði sig yfir í enskuna til að fá meiri sviðstíma. ,,Ég neyddi mig yfir á ensku en er alinn upp við bandarískt sjónvarpsefni og bandarískan húmor og talaði ágæta ensku. Það var skrítið að grínast á ensku og ég var smeykur við það en smám saman dóu þessu íslensku grínkvöld út og svo að segja allt á ensku fyrir utan kannski gigg fyrir fyrirtæki og annað slíkt. En núna er þetta að byrja aftur á íslensku.” 

Arnór hikstar spurður að því hvort hann sé fyndnari á íslensku eða ensku. ,,Kannski jafn á báðum tungumálum? Ég veit ekki. Nei, ég hugsa að kannski sé ég fyndnari á íslensku. Eða ekki.” 

Lét sig dreyma í sláturhúsinu

Arnór hafði alltaf mikinn áhuga á gríni og langaði alltaf til að vinna við grín á einn eða annan hátt. Hann ólst upp á Norðurlandi, á Hauganesi nánar tiltekið, og segir ekki hafa verið mikil samkeppni um að vera fyndnastur í fjögurra manna bekk í skóla. 

,,Ég hlustaði mikið á hlaðvörp og þegar ég heyrði uppistand með Louis C.K. árið 2012 small eitthvað í hausnum á mér. Hann er geggjaður og lætur þetta líta út eins og þetta sé svo svo einfalt, sem platar fólk eins og mig, sem heldur að það geti gert þetta líka.”  

Arnór var að vinna í sláturhúsi á þessum tíma, sem hann segir andstæðuna við fyndið, en hann hafi byrjað að láta sig dreyma á meðal skrokkanna. ,,Ég sagði sagði samt ekki neinum, fannst það kjánalegur hlutur að viðurkenna fyrir vinum og fjölskyldu, og var líka ekki viss um að ég gæti gert þetta. Ég hugsaði um þetta daglega, skrifaði efni í bók en leið alltaf kjánalega og þagði um þessa dagdrauma. Ég hélt að ég hefði ekki kjarkinn í þetta. Ég var eiginlega meira hræddur við að prófa ef að þetta gengi ekki upp og þá myndi draumurinn hverfa.” 

Skothelt plan

Árið 2016 sótti Arnór um í Kvikmyndaskólanum til þess að geta farið til Reykjavíkur og í uppistand. ,,Ég hef alltaf haft áhuga á kvikmyndum og langað að vinna við þær en Kvikmyndaskólinn var eiginlega afsökun, plan B, sem sumir myndu segja frekar lélegt plan. Að fara annaðhvort í uppistand eða kvikmyndageirann telst varla mjög stöðugt en mér fannst þetta alveg skothelt plan,“ segir Arnór og hlær. 

Fyrsta árið í skólanum fór Arnór á öll uppistönd sem í boði voru, allt til að finna kjarkinn. 

Þann 16. júní 2017 steig hann loks fyrst á svið og þá á skemmtistaðnum Bar 11. ,,Ég hafði sent skilaboð á Rökkva og spurt hvort það væri eitthvað tækifæri og hann sagði að þetta kvöld yrði laust fyrir mig.” Arnór segir að sér hafi verið skapi næst að hlaupa út í stað þess að fara upp á svið. ,,Ég hafði viku til að undirbúa mig og á ennþá upptöku þar sem ég er að viðra áhyggjur mínar. Ég tók það upp þegar ég var andvaka þremur dögum fyrir sýningu. Þetta var hrikalega óþægilegt, ég gat ekki sofið þessa viku fyrir stressi og átti bara erfitt með að vera til. Þetta var hræðilegt, enginn hló og þetta var geðveikt vandræðalegt. Ég hélt á mikrófóninum við naflann á mér en leið svo vel að hafa gert þetta eftir að ég fór af sviðinu.”

Arnór sagði engum frá og kom það fjölskyldunni rosalega á óvart að hann hefði látið vaða. ,,Mamma skellihló þegar hún heyrði af því að ég hefði stigið á svið í fyrsta skipti enda ekki viss um að henni hafi ég alltaf þótt fyndinn. En þau tóku öll mjög vel í þetta.”  

Furðuleg blanda

Þegar Arnór flutti suður sendi hann tölvupóst á Þorstein Guðmundsson leikara sem var með uppistandsnámskeið. Tveimur dögum eftir að hafa stigið á svið í fyrsta skipti svaraði Þorsteinn og bauð honum að vera með. Um var að ræða hitting sex til átta manna hóp sem Þorsteinn leiðbeindi og endaði námskeiðið á sýningu þar sem fjölskyldu og vinum var meðal annars boðið. ,,Það gekk fáránlega vel, algjör andstæða við Bar 11. Þau ráð og kennsla sem ég fékk hjá Þorsteini setti svolítið tóninn fyrir mig og hvernig ég leit á uppistand. Þetta hjálpaði mér mjög mikið og Þorsteinn er algjör snillingur.” 

Arnór Daði með Malíu Rós dóttur sína.

Hann segist samt aldrei hafa íhugað að hætta við. ,,Þetta er furðuleg samblanda kvíða og tilhlökkunar sem lætur mann líða eins og maður sé að fara að deyja. Ég hafði aldrei fundið fyrir þessu áður þekki þessa tilfinningu vel í dag og finn fyrir henni í hvert einasta skipti áður en ég stíg upp á svið. Þá held ég að það sé bara besta að fara heim og sleppa þessu. En ég veit að um leið og ég er kominn á sviðið er allt í góðu. Það hefur komið fyrir að ég sé ekki stressaður og í þau skipti hefur ekki gengið vel, eins skrítið og það er. Þessi tilfinning þýðir að þér sé ekki sama og áhorfendur finna það.”  

Slatti af efninu í sýningunni er tengt því að koma frá litlum bæ og koma til Reykjavíkur, það hafi verið breyting. Arnór segir hugarfarið sem hann ólst upp við í litlu bæjarfélagi úti á landi öðruvísi en í Reykjavík . Það hafi verið áhugavert að skoða það eftir að hann sjálfur flutti til höfuðstaðarins þar sem þankagangurinn er öðruvísi en hann var vanur. 

,,Sumum finnst kannski fyndið að ég sé uppistandari frá Hauganesi en þetta er mér eðlilegt.”

Allir gera sig að fífli

Arnór talar mikið í gríni sínu um þegar hann verður vandræðalegur eða gerir vandræðalega hluti. ,,Það tengja allir við að gera sig að fífli á einhverjum tímapunkti. Það var fyrst erfitt að opna inn á sinn eigin vandræðagang en það hefur aftur á móti hjálpað mér. Mér líður betur með sjálfan mig með því að segja öllum hvaða vitleysu ég er að gera, þá er ég fyrstur að orða það, kem fyrstur með brandarann. Mér var nýlega lýst sem stútfullum af sjálfstrausti uppi á sviði en samt vandræðalegum. Ég held að það sé góð lýsing.”

Arnór hlær spurður um atvinnuöryggi á Íslandi sem grínisti. ,,Þetta er hræðilegt. Og sérstaklega í Covid sá maður hvað það var heimskuleg hugmynd að skuldsetja sig um milljónir til að fara í Kvikmyndaskólann. Og vinna síðan ekki einu sinni við kvikmyndagerð en fara þess í stað í uppistand, sérstaklega þegar litið er til þess að ég eignaðist barn árið og við búum í bílskúrsíbúð í Hafnarfirði. Ég myndi aldrei mæla með þessu.”

Arnór er nú á kafi við að semja nýtt efni og langar til að ferðast um landið. ,,Mig dreymdi í upphafi að verða eins og Jerry Seinfeld í samnefndum þáttum, fara út og grínast og koma heim í flotta íbúð. En þannig er þetta nú ekki í alvörunni og mig dreymir ekki um frægð eða ríkidæmi. Ef ég á þokkalega gott líf og fæ að segja brandara er ég ánægður.“ 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Harry og Meghan fá á baukinn fyrir nýja ,,áhugamálið“ í Bandaríkjunum

Harry og Meghan fá á baukinn fyrir nýja ,,áhugamálið“ í Bandaríkjunum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinder ekki að gefa? – Kannski Bænder sé málið

Tinder ekki að gefa? – Kannski Bænder sé málið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Haukur Már skipti út frönskum og fékk kvörtun nakinn í World Class – „Ég hef svona semi fengið morðhótanir“

Haukur Már skipti út frönskum og fékk kvörtun nakinn í World Class – „Ég hef svona semi fengið morðhótanir“