fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Fókus

Ólýsanleg græðgi og grimmd konungs – Afskornir útlimir gjaldmiðill og valdatákn

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 2. júlí 2022 22:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þessi sláandi ljósmynd er Nsala, verkamanni á gúmmíekrum Kongó árið 1904. Enginn veit hvað hvað fór í gegnum huga hans á þessari stundu, með afskorna hönd og fót fimm ára dóttur sinnar, Boali, fyrir framan sig. Nsala hafði ekki náð að safna gúmmíkvóta dagsins og því refsuðu belgískir stjórnendur ekrunnar honum með því að skera af útlimi dóttur hans. Svo myrtu þeir hana og hentu hendi og fæti barnsins að föður hennar.

Það var reyndar ekki álitin nægileg refsing og var því eiginkona Nsala myrt líka.

Mæðgurnar höfðu verið ljós lífs hans.

Alice Seeley Harris á efri árum.

Ljósmyndin var tekin af Alice Seeley Harris sem hafði komið sem kristniboði til landsins ásamt eiginmanni sínum. Þau hjón fylltust aftur á móti svo mikilli skelfingu við að vitna framkomu belgískra nýlenduherra við íbúa að þau hófu baráttu fyrir réttindum þeirra. Og Alice taldi að besta vopnið í baráttu þeirra við hryllinginn í landinu væri að taka ljósmyndir fyrir heiminn að sjá.

Græðgi konungs

Um er að ræða ljótan blett á sögu Belgíu og Evrópu allrar. Þar réð Leopold II konungur ríkjum, gráðugur og valdasjúkur maður, fæddur inn í valdastétt Evrópu. Leopold girntist fé sem hann, líkt og aðrir valdamenn Evrópu þeirra tíma, taldi auðfundið í Afríku. Um 80 prósent álfunnar var þá komið undir hæl Evrópu, þó ekki Kongó. Leopold sendi því menn sína til landsins og fengu þeir ættbálkahöfðingja til að skrifa undir samninga um afsal á landi og völdum til belgísku krúnunnar. Ýmsar brellur og lygar voru notaðar auk þess sem svo að segja allir höfðingjarnir voru ólæsir og höfðu því enga hugmynd um hvað þeir voru að skrifa undir.

Leopold II

Árið 1885 lýsti Leopold yfir að Kongó væri nú í hans einkaeign, án nokkurra mótmæla frá alþjóðasamfélaginu. Það þurfti jú að kristna heiðingjanna sem Leopold sór fyrir að væri sín helsta ástæða fyrir áhuga á landinu.

Það ber að hafa í huga að Kongó varð ekki belgísk nýlenda, hún varð einkaeign konungs, undanþegin afskiptum þings og þjóðar. Hver króna frá landinu rann í vasa konungs, ólíkt til að mynda nýlendum Breta og Frakka sem voru í ríkiseign.

Leopold hóf strax að blóðmjólka auðlindir landsins. Fyrstu árin var það helst hið verðmæta fílabein sem sóst var eftir og útrýmdu Belgar allt að því fílum í landinu. Upp úr 1890 rauk eftirspurn eftir gúmmíi upp sökum nýrra uppfinninga á við bíla og rafmagn. Hófu nýlenduherrar í Afríku að sá fyrir gúmmítrjám í flýti þar sem trén eru lengi í vexti.

Aftur á móti óx tréð út um allt í skógum Kongó.

Þjóðin þurfi að þola ólýsanlegar þjáningar.

Gúmmígræðgin

Leopold sá tækifærið og sendi 19 þúsund manna sveit vígamanna til landsins og réðust þeir inn í þorp, tóku konur og börn höndum og hótuðu að myrða þær ef karlmennirnir skiluðu ekki af sér gúmmíi. Skelfingu lostnir um öryggi kvenna sinna og barna færðu mennirnir nýju herraþjóðinni gúmmí sem þeir söfnuðu dag sem nótt. Eftir því sem verðið á gúmmí hækkaði urðu Belgar gráðugri og kröfðust sífellt stærri skammta. Gúmmítrjánum fækkaði aftur á móti ört og þurftu mennirnir sífellt að leita lengra eftir trjám enda seldist gúmmið með tíföldum gróða í Evrópu. Þorpum var eytt, oft með fjöldamorðum á íbúum, og þess í stað komið upp gúmmíekrum.

Þau 23 ár sem Leopold níddist á íbúum Kongó er álitið að skósveinar hans hafi valdið dauða allt að  tíu milljón manna. Helmings þjóðarinnar. Útlimir voru skornir af þeim, þeir sveltir og barðir, þorp þeirra brennd, konum og börnum rænt og nauðgað og þeim sem eftir lifðu þrælkað til dauða. Íbúar gerðu fjölmargar tilraunir til uppreisnar án árangurs og refsuðu vígamenn kóngs slíku grimmilega með fjöldamorðum. Þar að auki höfðu Belgar borið áður óþekkta sjúkdóma til landsins sem fjöldi landsmanna lést úr.

Leopold steig aldrei fæti inn í landið og sýndi aldrei áhuga á íbúum, hvað þá velferð þeirra.

Grimmdin engu lík

Það var dauðasök að skila ekki af sér settu magni af gúmmí á degi hverjum. Var belgísku vígamönnunum gert að skila af sér útlim af fórnarlambinu til að sanna dauða viðkomandi. Við skil á gúmmíi fylgdu alltaf afskornir útlimir.

Þeir voru fleiri evrópsku trúboðarnir sem fluttu fregnir af illa förnum líkum hengdum upp í þorpum til að hræða íbúa til þrælkunarvinnu. Svo og fólki sem var skilið eftir lifandi eftir að skornir voru af þeim útlimir þar sem óþarfi þótti að eyða skotfærum í það. Ein skemmtan vígamanna úr einkasveitum Leopolds var að neyða unga menn til að nauðga mæðrum sínum og dætrum.

Grimmdin í Kongó var engu lík.

Útlimir voru skornir bæði af börnum og fullorðnum.

Smám saman urðu afskornir útlimir eins konar gjaldmiðill og valdatákn sem varð til þess að vígamenn konungs kepptust við að ná sem flestum slíkum.

Dvínandi völd

En völd Leopold fóru dvínandi með síaukinni óánægju Belga með konung sinn, hroka hans, mokstur úr ríkissjóði til einkaneyslu, vangetu til stjórnunar og almennu áhugaleysi um velferð þjóðarinna. Hrifning hans á barnungum stúlkum fór einnig illa í almenning en Leopold hafði alltaf í kringum sig hirð vændiskvenna á táningsaldri.

Og þegar að framburður sjónarvotta, og ekki síst ljósmyndir Alice, komu fram fyrir sjónir almennings var öllum ofboðið og Leopold ekki stætt á öðru en afsala sér eignarhaldi á Kongó. Árið 1908 varð Kongó belgísk nýlenda í ríkiseign og lést Leopold ári síðar.

Belgíska ríkið, sennilega fullt skammar yfir framkomu konungs, setti mikið fé í enduruppbyggingu landsins sem var að fótum komið. En að því kom að fordæming heimsins á kröfum þjóða um eignarétt á öðrum þjóðum varð slík að hver nýlendan á fætur annarri hlaut langþráð sjálfstæði.

Kongó fékk sjálfstæði árið 1960.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Óvænt heimsókn til ömmu slær í gegn meðal netverja

Óvænt heimsókn til ömmu slær í gegn meðal netverja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Söngkonan Xenna syngur lög Taylor Swift í Hörpu

Söngkonan Xenna syngur lög Taylor Swift í Hörpu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Kristbjörg opnar sig: „Ég veit að margir eiga erfitt eða hafa stundum átt erfitt með það sama“

Kristbjörg opnar sig: „Ég veit að margir eiga erfitt eða hafa stundum átt erfitt með það sama“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Bragi Valdimar varpar fram tilllögum að nýju nafni fyrir „Singles Day“

Bragi Valdimar varpar fram tilllögum að nýju nafni fyrir „Singles Day“