fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Fókus

Pauline var í sértrúarsöfnuði og send til Íslands að giftast bláókunnugum manni – „Ég bað guð um að senda mér tákn“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 16. júlí 2022 09:00

Pauline McCarthy Mynd/Sigryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Pauline McCarthy er ein tíu barna írskra foreldra, alin upp í Skotlandi sem strangtrúaður kaþólikki en gekk í í hina umdeildu Sameiningarkirkju sem sendi hana til Íslands til að giftast bláókunnugum manni.

Hún býr nú á Akranesi ásamt seinni manni sínum, rekur fyrirtæki og opnar heimili sitt flóttamönnum og öðrum sem á þurfa að halda.

Foreldrar Pauline áttu tíu börn.

Heilaþvottur og fjársvik

Kóreski viðskiptajöfurinn og trúarleiðtoginn Sun-Myung Moon stofnaði Sameiningarkirkjuna árið 1954 og stýrði söfnuðinum alla tíð síðan.

Söfnuðurinn hefur oft verið gagnrýndur og meðal annars sakaður um heilaþvott og fjársvik.

Kirkjan varð mikið viðskiptaveldi og þótti hafa óeðlilega mikil afskipti af pólitík. Frægastur er söfnuðurinn sennilega fyrir gríðarmikil fjöldabrúðkaup, oft haldin á íþróttaleikvöngum. Pörin voru að sjást í fyrsta skipti, valin saman af Moon.

„Við fengum kvóta af fólki sem við þurftum að blessa, sem má kalla að giftast söfnuðinum. Það var útilokað að uppfylla þessa kvóta upp á þrjátíu, fjörutíu þúsund manns. Það var nógu erfitt að finna einn sem var tilbúinn að ganga í söfnuðinn!

Þá var byrjað að láta fólk drekka ,,heilagan” vökva, sem var vín eða djús, og þar með hafði viðkomandi hlotið blessun,“ útskýrir Pauline.

Hópgiftingar safnaðarins gátu verið risastóra. Hjónaefnin höfðu aldrei hist fyrir athöfnina.

Blessuðu allan Hafnarfjörð

Pauline var mjög virk í söfnuðinum á Íslandi sem þó var örsmár og segir Pauline þetta hafa verið í kringum 15 manns að meðaltali. „,Það þarf ekki marga til að láta fara fyrir sér ef þeir hafa nógu hátt, sjáðu bara Bandaríkin,“ segir Pauline aðspurð um starfsemina hér á landi.

Einn daginn fengum við kvóta upp á að mig minnir 300 þúsund manns og ég sagði við leiðtogann að það væri útilokað enda um að ræða fleiri manns en alla landsmenn á þeim tíma. En honum varð ekki haggað.  Þá spurði ég hvort að það nægði að fá fólk til að drekka ,,heilaga“ vökvann til að fylla upp í kvótann og hann játti því.

Þá datt okkur svolítið í hug og einn okkar dýfði stein í „heilaga“ vökvann og henti honum svo í uppistöðulón Hafnarfjarðar.

Pauline átta ára á fermingardaginn ásamt systkinum sínum.

„Svo hver einasti Hafnfirðingur sem drakk kranavatn var þar með blessaður. Og með svipuðum aðferðum tókst okkur að ná kvótanum.“  

Söfnuðurinn gat þó ekki lengi glaðst því nokkru seinna kom kvóti upp á sex hundruð þúsund manns til viðbótar.

„Ég sagði leiðtoganum að þetta væri fáránleg tala en enginn þorði að kvarta í séra Moon. Hann svaraði mér með að segja: „Ó þér trúlausir. Ekki gleyma ferðamönnunum!“ 

Pauline skellihlær við að rifja þetta upp.

„Það var ýmislegt gert. Söfnuðinn rak sælgætisverksmiðjur og var látinn dropi af ,,heilaga” vökvanum í blönduna. Svo var sælgætið sent um alla Evrópu og til dæmis sett við afgreiðslukassa í stórmörkuðum. Fólk fékk sér frían mola við innkaupin og samkvæmt kenningunum var það þá blessað.“

Ég vona að þú verðir fyrir strætisvagni“

Aðspurð hvað hafi leitt hana til Sameiningarkirkjuna segir hún það langa sögu.   

„Það var mikil spenna á milli mótmælenda og kaþólikka í Glasgow, ekki síður en á Norður-Írlandi. Ég man eftir að mótmælendur voru með fund fyrir framan kirkjuna okkar berjandi trommur og með svo mikil læti að enginn kaþólikkana þorði út fyrir kirkjuhliðið eftir messu.

Ég hef bara verið fimm eða sex ára en man eftir að það kom til mín maður og bað mig um að henda grjóti í mótmælendurnar. Mér fannst það fáránlegt, þessir menn höfuð ekkert gert mér og þarna fyrst sem barn hugsaði ég að eitthvað væri ekki rétt. 

Ég var líka alltaf spurul, sem var illa þolað innan kaþólsku kirkjunnar, og til að toppa það allt trúlofaðist ég mótmælanda þegar ég var tvítug. Hugsaðu þér hneykslið.“

Pauline syngur og spilar af hjartans lyst.

Mamma hennar henti henni út og Pauline beygir örlítið af við minninguna. Finnst hún erfið. 

„Ég hélt að ég væri löngu komin yfir þetta en hún sagði við mig að hún óskaði að strætó keyrði yfir mig úti á götu áður en ég kæmist heim til hans. Þetta hljómar hræðilega en hún sagði þetta af ást. Hún hélt að ég hefði aldrei sofið hjá kærastanum, sem var fáránlegt því ég var tvítug.

Hennar hugsun var að ef ég myndi deyja áður en ég næði að syndga færi ég til himna en annars færi ég til helvítis.

Ég vissi að hún meinti vel en ég fríkaði alveg út við að heyra þetta.

Ég mætti svo til kærastans klukkan sex að morgni með alla mínar eigum í svörtum plastpokum.“

Pauline með börnum sínum á sumardaginn fyrsta.

Hún bætir við að mamma hennar hefði verið afar barnaleg að þessu leyti.

„Hún var svo fáfróð um þessa hluti að það var ekki fyrr en hún eignaðist sitt þriðja barn að hana fór að gruna að pabbi hefði eitthvað með þessar óléttur að segja. Hún hélt að börnin mynduðust bara þegar að fólk gengi í hjónaband.“ 

Pauline átti eftir að sættast við foreldra sína nokkrum árum síðar og segir samband sitt við þá hafa verið betra en áður en hún yfirgaf heimilið. Þau voru ekki sammála vali hennar en virtu ákveðni hennar og ákvörðun.  Móðir hennar lést árið 2009 en faðir hennar er enn á lífi og gekk meira að segja aftur í hjónaband 77 árs að aldri. 

Pauline við skrif á fréttablaði Sameiningarkirkjunnar.

Fann ekki nærveru guðs

Fljótlega eftir að flytja út var Pauline að koma út úr verslun þegar maður með nálgaðist hana með bækling. Hann var afar vinalegur og fór svo að Pauline fór að háskæla á götunni og sagði honum alla sólarsöguna. Voru það fyrstu kynni hennar af Sameiningarkirkjunni. 

En Pauline var kaþólikki í hjarta sínu, fór í messu og bað um leiðsögn.

„Ég horfði í kringum mig og einhver var að lesa dagblað og annar að bora í nefið. Það voru meira að segja einhverjir að spila á spil. Það virtist enginn vera virkilega að hlusta á það sem presturinn var að segja. Og það eina sem hann talaði um var söfnun til að gera við kirkjuþakið.

Ég var þarna til að taka við skilaboðum frá guði og einu skilaboðin virtust vera að það þyrfti að laga þakið.“ 

Pauline með sonum sínum, Benny og Patrick árið 2010

Alinn upp sem strangtrúaður kaþólikki fannst Pauline erfitt að horfast í augu við að finna ekki nærveru guðs kirkjunni.

„Ég fór heim sagði við kærastann minn, sem var trúlaus, að ég myndi ekki fara í kirkju aftur. En ég myndi fara eitthvað, ég vissi ekki hvert, en ég myndi fá tákn þegar að því kæmi.“ 

Bað um alvöru tákn

Pauline var enn með bæklinga í vasanum sem hún fékk sig ekki til að henda, þetta var jú kristið fólk þótt það væri ekki í hinni einu sönnu kaþólsku kirkju. Hún renndi yfir þá og fann margt til að tengja við.

„Ég var orðin tvítug en var samt dauðhrædd um að guð myndi ljósta mig með eldingu ef ég færi ekki í messu. Svo ég bað til guðs að senda mér tákn, alvöru þungaviktar tákn, ef hann væri samþykkur því að ég færi á samkomu hjá þessu fólki.“

Pauline hefur tekið þátt í fjölda ráðstefna. Myndin er tekin á ráðstefnu IIU árið 2012.

Hún fór í bæinn næstu helgi, allir voru í jólainnkaupum og mikið af fólki. ,,Þarna voru einnig meðlimir Sameiningarkirkjunnar og allt í einu sé ég lógóið þeirra koma æðandi á móti mér og stækka og stækka. Ég hafði fundið fyrir yfirnáttúrulegum fyrirbærum áður en þetta var ótrúlegt. Þetta var augljóslega táknið sem ég hefði beðið um.“  

Á þessum tíma stóð Sameiningarkirkjan í löngum málaferlum við breska blaðið Daily Mail sem hafði gagnrýnt kirkjuna í skrifum sínum. Söfnuðurinn tók Pauline með fyrirvara vegna hræðslu um að hún væri ef til vill blaðamaður en henni var þó hleypt á samkomu.

„Þar var talað um börn og ástina sem við berum til þeirra og ég grét því það minnti mig á samskipti okkar mömmu. Að lokinni samkomunni var öllum boðið í hlaðborð og ég fann svo sterkt fyrir vináttu og hjálp.

Mér fannst eins og guð væri á staðnum.“ 

Pauline McCarthy Mynd/Sigtryggur Ari

Pauline var í klemmu. Kennisetningar kaþólsku kirkjunnar voru hinar einu sönnu samkvæmt uppeldinu en Sameiningarkirkjan virtist hafa sálina. Og allt sem hún heyrði hljómaði svo rökrétt.

„Í kaþólsku kirkjunni er gerð krafa um skilyrðislausa trú. En ég vildi fá rök fyrir af hverju ég ætti að trúa og það var aldrei í boði, sama hversu oft ég spurði sem táningur. Og eftir því sem ég fór oftar á samkomur því rökréttari urðu kenningarnar um kærleika og þroska og svo fór að ég gekk í kirkjuna.“

Pauline átti eftir að vera virkur meðlimur í Sameiningarkirkjunni í 18 ár. 

Send í hjónaband til Íslands

Leiðtogar kirkjunna pöruðu saman fólk í hjónaband og eftir 12 ár kom að Pauline sem þá var löngu hætt með unnustanum.

„Mér fannst öll þau hjónabönd sem ég þekkti til innan safnaðarins vera svo að segja fullkomin.  Það var ekki fyrr en ég hlaut „blessun” og fór til Ísland að giftast að ég fór að efast. Ég lenti í hjónabandi fullu erfiðleika og augu mín opnuðust fyrir því að langtum fleiri en ég voru í sömu stöðu.

En við trúðum rökum kirkjunnar fyrir makavalinu.“

Pauline og Tryggvi gengu í hjónaband á fimmtusafmæli hennar árið 2010.

Pauline var trúboði í Búlgaríu þegar það var tekin af henni mynd og upplýsingar um hana skráðar.

„Söfnuðurinn var orðinn of stór til að sér Moon gæti parað alla sama sjálfur svo upplýsingar um mig voru sendar til Bretlands þar sem mér var afhent umslag með nafni verðandi maka. Ég var himinlifandi þegar ég sá Ísland því mér er meinilla við mikinn hita.“  

Pauline fór til Íslands, giftist og eignaðist tvo syni með manni sínum. Hún varð mjög virk í íslenska söfnuðinum en smám saman fór að halla undan fæti.

„Maðurinn minn var bakveikur og sonur minn veikur og enginn vissi almennilega hvað var að. Hann hafði greinst með einhverfu á háu stigi auk þess sem læknar voru svartsýnir á að hann myndi nokkurn tíma tala eða ganga.

Sjálf var ég með liðagigt og í örvæntingu minni ákvað ég fara til Suður-Kóreu með fjölskylduna, enda heyrt margar sögur að fólk fengi þar kraftaverkalækningu á heilögum stað kirkjunnar.“

En enginn fjölskyldumeðlima læknaðist. Aftur á móti fékk yngri sonur hennar lungnabólgu og var tvísýnt um líf hans. 

Pauline er einnig söngkona og kemur reglulega fram.

Sífellt meiri kröfur um fé

Efinn nagaði Pauline, ekki aðeins hafði ferðin verið frekar til ills en góðs, heldur jukust stöðugt kröfunnar um sífellt hærri fjárframlög.

Á svipuðum  tíma byrjaði kirkjan að selja aflátsbréf.

„Það kostaði 1400 dollara að koma sjö ættliðum ættingja til himna. Fólk sparaði og nurlaði fyrir þessu en ég gerði það ekki enda farin að fyllast efasemdum. Svo var okkur sagt að þetta væri aðeins fyrir sjö ættliði í karllegg föður og til að koma móðurleggnum til himna þyrfti að borga aðra 1400 dollara.

Og svo byrjaði boltinn aftur að rúlla þegar kom að móðurfjölskyldunni.“  

Paulin fékk nóg og yfirgaf Sameiningarkirkjuna eftir 18 ára veru. Hún vildi einnig skilja enda hafði hjónabandið aldrei verið gott.

„Maðurinn minn var með geðhvarfasýki og báðir synir mínir með þroskahömlun. Mér var sagt að sérfræðingum að það væri þeim ekki hollt að vera í svo ófyrirsjáanlegu umhverfi og  að ég þyrfti að taka drenginga út af heimilinu. Ellegar yrði talað við barnaverndaryfirvöld.

Ég fór heim og sagði manninum mínum þetta og hann spurði bara hvenær ég færi.“ 

Pauline McCarthy

Þau hjón fóru samt í ráðgjöf og segir Pauline sálfræðinginn hafa beitt sig tilfinningalegri kúgun til að halda hjónabandinu gangandi í eitt ár. Þegar árið var hálfnað lenti Pauline í bílslysi.

„Á sjúkrahúsinu hugsaði ég mikið um hvort það væri rétt fyrir mig og börnin að halda hjónabandinu saman. Þegar að heim var komið höfðu börnin ekkert fengið að borða en maðurinn minn önnum kafinn við að gefa kettinum. Og þá fékk ég endanlega nóg.“

Hjónabandið stóð  í 9 ár. 

Erfiður skilnaður

Skilnaðurinn var erfiður.

„Maðurinn minn sótti nektarmyndir á netið og fótósjoppaði höfuð á mér á þær. Hann skrifaði á myndirnar að ég vildi alls konar ógeðfelldar kynlífsathafnir, prentaði út og sendi barnaverndaryfirvöldum. Hann náði líka í jólagjafalistann minn og sendi myndirnar á alla, meðal annars foreldar mína og ættingja.

Pabba brá mjög en systir mín sá strax að þetta var falsað og pabba létti mjög. 

Ég hafði heldur ekki athugað að skipta um lykilorð á tölvupóstinum svo hann sendi alls konar ógeðslega hluti á fólk í mínu nafni.“

Tryggvi, Pauline, Patrick og Benni.

Þegar að forræði kom bauð Pauline fyrrverandi manni sínum að fá börnin til sín hvenær sem honum liði vel og sættist hann á það, enda vel boðið. Tengdafaðir hennar fyrrverandi var aftur á móti alfarið á móti því að sonur hans greiddi meðlag og krafðist þess að hann fengi annan drenginn, þeim var sama hvorn þeirra.

Pauline var aftur á móti ekki á því að skilja bræðurnar að og við tók eins og hálfs árs slagur fyrir dómstólum og gekk Pauline á milli lögmanna, sálfræðinga og barnaverndar. Alls staðar var Pauline metin hæfara foreldri.

Hennar fyrrverandi eiginmaður sagði einu skýringuna vera hún svæfi augljóslega hjá öllum sem að málinu komu.

„Barnaverndayfirvöld sögðu meira að segja að ef dómstólar væru nógu galnir til að veita honum forræði myndu þau umsvifalaust sækja börnin,“ segir Pauline.   

Pauline að skemmta á Menningarnótt.

Enginn sýndi sömu ást

Fyrrverandi maður Pauline  lét hana einnig skrifa undir skjal sem hann sagði að væri til að leiðrétta skattamál hennar. Pauline skildi litla íslensku, hvað þá að hún gæti lesið hana,  og skrifaði undir. Tveir vina hans vottuðu svo skjalið síðar.

Í raun var Pauline að afsala sér húsinu og öllum þeirra eigum og gjörningur hans og vinanna kolólöglegur.

Pauline var sagt að fara í mál en hafði ekki ráð á að ráða lögmann. Hann seldi svo húsið og fékk Pauline ekkert af söluandvirðinu. Fyrrverandi maður hennar braut ennfremur öll þeirra húsgögn með sleggju. 

„Einn góðan veðurdag bankaði hann svo upp hjá mér, baðst afsökunar og sagði engan í lífi sínu hafa sýnt sér sömu ást og ég. Sömu konuna sem hann hefði verst komið fram við. Hann sagði allt hafa verið gert að kröfu föður síns og  lét allan málarekstur niður falla.“

Pauline fyrirgaf honum þann dag og hafa þau haldið góðri vináttu síðan. 

Pauline við sýningu á Perlum Pauline.

Pauline kynntist nokkru síðar núverandi manni sínum, Tryggva Sigfússyni,og hafa þau verið hamingjusamlega gift í 12 ár. 

Eftir skilnaðinn stóð Pauline uppi peningalaus, heimilislaus og réttindalaus eftir að hafa verið heimavinnandi öll hjónabandsárin og þá ekki síst vegna langvinnra veikinda. Hún segist vera langtum hraustari í dag en fyrir 20-30 árum, syndir daglega, gerir styrktaræfingar og fastar. 

Hugmynd að fyrirtæki

„Ég hef alltaf fengið góðar hugmyndir til að nýta í góðgerðarmál og fannst tími til komin að nýta eina þessara hugmynda sjálf. Ég sá að það var hvergi unnt að fá íslenskt sælgæti sem minjagripi og datt í hug að hægt væri að pakka Djúpur inn í fallegar gjafaumbúðir og kalla ,,Puffin Eggs.“ 

Lundaeggin var fyrsta varan frá Pauline á markað.

Pauline hafði samband við flugstöðina sem tók hugmyndinni fagnandi. Hún stofnaði fyrirtækið Ísland Treasures, fékk listamann til að hanna og teikna umbúðirnar og framleiddi eitt hundrað poka af lundaeggjum sem runnu út. Hún fékk frumkvöðlastyrk og við Lundaeggin bættust Lava Pepples og Lava Sparks þegar gosið í Eyjafjallajökli stóð yfir.

Skemmtilegast finnst henni samt ,,Icelandic Horse DooDoo“ og segir hún íslenska ,,hestaskítinn” hafa verið vinsælastan.

Fyrir fimm árum lenti Pauline í fjölmiðlastormi þegar að kvartað var yfir að sælgætið frá Pauline var mun dýrara en sama sælgæti í upprunalegum umbúðum. Pauline er sár yfir hvernig tekið var á málinu.

„Ég var ekki að selja sælgæti heldur minjagripi og það voru framleiðendur og verslanir sem fengu bróðurpartinn. Ég þurfti að kaupa sælgætið á svipuðu verði og út úr búð, kaupa pakkningar, pakka inn og aka út og endaði með hundrað kall í hagnað á pakka.

Enginn bað um mína hlið en þessi herferð fór næstum með fyrirtækið mitt. Sumir smásalar hættu að selja vöruna mína og í flughöfninni var það fært í neðstu hillu, þar sem það sást ekki, þar til þeir hættu alfarið að selja það.“

 Og svo kom Covid og þar sem Pauline lofaði öllum endurgreiðslum sem færu fram á slíkt þurfti hún að greiða háar fjárhæðir þegar að verslanir skiluðu vörum þar sem engir voru ferðamennirnir. 

„Ég er aftur komin á byrjunarreit en gefst aldrei upp. Sælgætið er komið aftur í sölu og ég er bjartsýn.“ 

Fullt hús flóttamanna

Hún byrjaði einnig með hlaðvarp fyrir um 8 árum sem heitir ,,Menapause Morph” sem er til hjálpar konum að takast á við breytingaskeiðið.

Hún samdi einnig einþáttungin „Pearls of Pauline“ eða Perlur Pauline sem hún hefur sett upp víða um heim.  Einþáttungurinn fjallar á léttan hátt um breytingaskeiðið auk þess sem Pauline syngur og jafnvel málar málverk á sviðinu.  

Pauline var útnefnd Hvunndagshetjan árið 2012.

Pauline hefur alltaf haft mikla löngun til að hjálpa fólki og hefur til margra ára opnað heimili sitt fyrir erlendu fólki sem hefur lent í fjárhagsörðugleikum, til að mynda komið til að starfa á Íslandi en verið svikið um vinnu og annað slíkt.

Hún hefur einnig veitt þeim aðstoð við að koma undir sig fótunum, finna vinnu og húsnæði. Hún veit ekki hve margir hafa búið hjá sér í gegnum tíðina en þeir hlaupi á hundruðum.

Pauline segir bæði sinn fyrrverandi mann og Tryggva hafa sýnt því fullan skilning að deila heimilinu. 

„Ég er viss um að ég hef gert meira gott af mér sem einstaklingur en ég gerði nokkurn tíma sem meðlimur í Sameiningarkirkjunni. Ég gaf allt þetta fé til kirkjunnar í góðri trú um að það færi til góðra málefna en örugglega hefur þetta allt runnið beint til höfuðstöðvanna. 

Margir íslenskir tónlistarmenn hafa komið fram á hátíðinn.

Pauline hefur lengi haft fyrir reglu að bjóða heim um jól fólki sem vantar samastað. Hún nefndi það við Rauða krossinn og auglýsti einnig síðar á Facebook. Ein jólin voru 28 manns af fjölda þjóðerna í mat hjá henni á aðfangadagskvöld.

„Þau jólin varð að vera hlaðborð og fólk sat bókstaflega alls staðar með diskana á hnjánum. En þetta var æðislega gaman og við skemmtum okkur konunglega.“

Árið 2012 var Pauline útnefnd Hvunndagshetjan fyrir störf sín í þágu samfélagsins.  

Milli mín og míns guðs

Í dag búa tveir flóttamenn á heimilinu, Úkraníumaður og Afgani. „Aðeins tveir,” eins og Pauline orðar það. Hún er einnig aðstöðu í húsi í Búlgaríu og þar býr úkranísk fjölskylda.

„Ef ég væri í þessum aðstæðum myndi ég vilja að einhver gerði slíkt hið sama fyrir mig,“ útskýrir hún. 

Pauline hefur verið formaður Félags nýrra Íslendinga í 24 ár en hyggst nú stíga til hliðar.  Hennar síðasta verkefni er Þjóðahátið Vesturlands, Festival of Nations West Iceland, sem haldin hefur verið árum saman. Hátíðin verður haldin á morgun á veitingastaðnum 19. holan á Akranesi. Eins og alltaf verður boðið upp á skemmtiatriði allt staðar úr heiminum auk þess sem íslenskir listamenn koma fram. 

Pauline í skoska dressinu.

Sjálf ætlar Pauline í skotapilsið og syngja írsk og skosk lög auk þess að skella í lög úr söngleikjum. 

Í blálokin er Pauline spurð hvort hún sé enn trúuð eftir allt sem á hefur gengið.

Hún hikar augnablik og brosir. „Við skulum segja að ég sé mjög andlega sinnuð. En það er bara á milli mín og míns guðs,“ segir Pauline McCarthy, sem ómögulega veit hvernig skuli titla hana.  

Öllum þeim sem vilja taka þátt í Þjóðhátíðinni er vinsamlegast bent á að hafa samband í gegnum netfangið societyofnewicelanders@gmail.com

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hvað eru Bessastaðakökur?

Hvað eru Bessastaðakökur?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 6 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu