Lykov fjölskyldan tilheyrði trúarreglu sem boðaði meira frelsi og sjálfstæðari hugsun en rússneska rétttrúnaðarkirkjan og vegna þessa höfðu meðlimir hennar verið ofsóttir svo að segja frá upphafi. Fyrst af rússnesku keisurunum og ekki tók betra við eftir að kommúnistar komust til valda árið 1918.
Bróðir Karp Lykov var myrtur snemma á fjórða áratugnum og taldi Karp líklegt að fjölskylda hans væri næst í röðinni. Ásamt konu sinni, Akulinu og börnum þeirra tveim, Savin og Nataliu, flúðu þau heimili sitt og héldu til auðna Síberíu.
Lykov fjölskyldan átti eftir að búa í algjörri einangrun frá umheiminum næstu 42 árin.
Glittir í kofa
Árið 1978 voru sovéskir jarðfræðingar í þyrlu yfir sléttum Síberíu í leið í leiðangur um þetta svo að segja algjörlega ókannaða svæði. Þyrluflugmaðurinn sá glitta í kofa og girðingu sem vakti forvitni jarðfræðingana enda ríflega 250 kílómetra frá næsta þorpi. Jarðfræðingarnir fylltust forvitni, báðu flugmanninn að snúa við í næsta byggða ból og keyptu þar gjafir. Og byssu, svona til öryggis.
Í ljós kom að hún hafði verið óþarfi.
Jarðfræðingarnir lögðu í leiðangur og komu á endanum að litlum kofa sem vart mátti kalla hús. Þar fyrir utan heilsaði þeim fjörgamall maður með virktum og bauð þeim að ganga inn. Þeir trúðu vart eigin augum þegar þeir sáu að skítugur og örlítill kofinn var heimili fimm einstaklinga; Karp og barna hans Savini, Nataliu, og Dimitri og Agafia. Tvö þau síðastnefndu höfðu fæðst í kofanum.
Móðir þeirra, Akulina, hafði látist úr hungri fimmtán árum áður, þegar að hungrið svarf jafnvel verr að en venjulega vegna óvenju ills tíðarfars. Hafði hún kosið að gefa börnum sínum frekar þá litlu fæðu sem í boði var en að nærast sjálf.
Aldrei séð annað fólk
Jarðfræðingarnir buðu fjölskyldunni te, brauð og sætindi, sem aðeins Karp hafði látið ofan í sig á ævinni og það síðast 42 árum áður. Börnin höfðu aldrei séð slíkt góðgæti. Þau höfðu reyndar aldrei séð annað fólk en foreldra sína þar sem Savini og Natalia voru afar ung þegar foreldrar þeirra flúðu.
Fjölskyldan vissi ekkert um umheiminn, ekki einu sinni að seinni heimsstyrjöldin hefði átt sér stað. Hvað þá að farið hefði verið til tunglsins, sem þau reyndar neituðu með öllu að trúa. Börnin vissu að það voru til staðir sem háum húsum þar sem margt fólk bjó, og jafnvel að til væru önnur lönd, en hugmyndin um heiminn var þeim framandi. Móðir þeirra hafði kennt þeim að lesa og skrifa með hjálp einu bókarinnar sem hjónin höfðu pakkað við flóttann. Biblíunni.
Erfitt líf
Lífið hafði verið fjölskyldunni erfitt í auðninni, vetur langir og fátt til átu. Þau örfáu tól sem hjónin höfðu pakkað með sér voru öll löngu ónýt og lifðu þau mestmegnis á kartöflum og fræjum auk þess sem þau tíndu ber á sumrin.
Karp reyndi að veiða dýr sléttunnar ásamt Dimitri syni sínum en án nokkurra vopna reyndist það erfitt og urðu þeir að treysta á gildrur sem einstaka dýr rataði í. Dimitri hafði reyndar yfir að bera allt að ofurmannlegum styrk. Hann gat hlaupið berfættur langar vegalengdir, lyft gríðarlegum þunga og sofið við hvaða aðstæður sem var, jafnvel í grimmasta frosti.
Fjölskyldan neitaði að yfirgefa kofann þrátt fyrir að stjórnvöld lofuðu þeim ekki aðeins að láta þau alfarið í friði heldur einnig sjá þeim fyrir húsnæði, fæði og klæði. Þau sögðu heiminn fullan af illsku og grimmd og af tvennu illu liði þeim betur í kofanum í auðninni. Þau aftóku alfarið að tala við einn né neinn að undanskildum jarðfræðingunum en góð vinátta myndaðist þar í milli.
Árið 1981 létust þrjú Lykov barnanna. Savin og Natalia létust úr nýrnabilun, sem næstum örugglega má rekja til þeirra fæðu sem þau höfðu lifað á alla sína ævi, og Dimitri lést úr lungnabólgu.
Karp Lykov lést árið 1988.
Með einmana kona í heimi
Eini eftirlifandi meðlimur fjölskyldunnar, yngsta barnið Agafia, kaus áfram að búa ein í kofanum. Að eigin ósk var hún látin í friði en tryggt að hún gæti komið skilaboðum áleiðis. Árið 2014 skrifaði bréf árið og bað um aðstoð þar sem styrkur hennar færi dvínandi og á líkama hennar væru að myndast kýli. Hún var þá sextug. Árið 2019 var hún flutt með þyrlu á sjúkrahús þar sem hún gekkst undir aðgerð en hélt heim í kofann um leið og heilsan leyfði. Árið 2021 byggði auðmaður handa henni nýtt hús í stað kofans sem var að hruni kominn og sett var upp sólarrafhlaða til að létta Agafiu lífið. Tók hún því fagnandi.
Agafia Lykov býr enn á sléttum Síberíu, 78 ára gömul. Í Rússlandi gengur hún undir nafninu ,,mest einmana kona í heimi.”
En það er ólíklegt að Agafia taki undir með nafngiftinni. Hún er sátt við lífið og örugglega sáttari en margir.