George Stinney var aðeins 14 ára gamall árið 1944 þegar hann var tekinn af lífi í rafmagnstól Suður Karólínufylkis. Það tók 10 mínútur að dæma hann til dauða en 70 ár að hreinsa hann af sök.
George er yngsti einstaklingurinn sem tekin hefur verið af lífi í Bandaríkjunum.
George Stinney bjó ásamt fjölskyldu sinni í bænum Alcolu, bæ þar sem lestarteinar aðskildu búsetu kynþátta og kynþáttahyggja var allsráðandi. Til dæmis voru aðskildir skólar og kirkjur og var því samgangur á milli kynþátta mjög takmarkaður.
Í mars árið 1944 voru vinkonurnar Betty June Binnicker, 11 ára, og Mary Emma Thames, 7 ára, að hjóla um Alcolu í leit að blómum til að tína. Báðar voru þær hvítar á hörund. Þeir rákust á George og yngri systur hans Aime og spurðu systkinin hvort þau vissu hvar passíublóm væri að finna.
Þær áttu aldrei eftir að sjást á lífi framar.
Líkfundurinn
Hundruðir bæjarbúa tóku þátt í leitinni að stúlkunum, bæði svartir og hvítir, til að mynda faðir George.
Ila leikin lík stúlknanna fundust daginn eftir i skurði. Svo virtist sem boruð hefði verið hola í höfuð Mary Emmu auk þess sem hún var með stóran skurð á enni. Betty June hafði fengið að minnsta kosti sjö högg á höfuðið, þar af eitt svo öflug að bein aftanverðrar höfuðkúpunnar gengu inn í heila.
Meðal bæjarbúa gekk sá orðrómur að telpurnar hefðu komið við á heimil velefnaðra hvítra íbúa áður en þær hurfu en því var aldrei fylgt eftir. Reyndar kom lögreglu aldrei til hugar að leita að morðingjanum meðal hvítra bæjarbúa.
Handtakan
Þegar að vitni sagðist hafa sér stúlkurnar talað við Stinney systkinin fór lögregla tafarlaust að heimili þeirra, handjárnuðu George og fóru með hann á lögreglustöð. Þar var hann yfirheyrður svo klukkustundum skipti án foreldra, lögmanns eða yfirleitt nokkurs manns. Engir voru til frásagnar um yfirheyrsluna aðrir en lögreglumennirnir og í skýrslu sem einn þeirra, H.S. Newman, skráði daginn eftir segir að George Stinney hafi játað á sig morðin. Ennfremur segir að George hafi notað járnbút til verknaðarins og hent honum í skurð að drápunum loknum. Ástæðan var sögð tilraun drengsins til að nauðga stúlkunum sem hefðu varist og því George fyllst slíkri reiði að hann myrti þær.
,,Játningin” fór sem eldur í sinu um bæinn og kröfðust bæjarbúar að George yrði hengdur tafarlaust. Newman neitaði aftur á móti að láta uppi um hvar hann hefði komið drengnum fyrir, jafnvel foreldrar hans fengu engar upplýsingar um hvar syni þeirra væri haldið föngnum. Á þessum árum var sakhæfi miðað við 14 ára aldur í fylkinu og George snarlega ákærður fyrir morð.
Réttarhöldin hófust mánuði síðar og var George úthlutaður lögfræðingur að nafni Charles Plowden sem hafði augljóslega minna en engan áhuga á að verja skjólstæðing sinn.
Réttarhöldin stóðu í tvær klukkustundir og kallaði Plowden ekki til eitt einasta vitni Geogre til varnar.
Eina sönnunagagn saksóknara var hin meinta játning en ekkert hafði verið skráð meðan á henni stóð, engin vitni voru að henni aðrir en lögreglumennirnir og George hafði aldrei skrifað undir eitt eða neitt, hvað þá játningu. Aldrei fannst hið meinta morðvopn.
Dómurinn
Foreldrar George voru of hræddir til að mæta við réttarhöldin enda fengið fjölda hótana um að verða hengd létu þau sjá sig í hvíta helming bæjarins. Og þvi stóð hinn 14 ára gamli Geoge Stinney aleinn, án fjölskyldu, innan um 1500 bæjarbúa sem allir kölluðu eftir aftöku hans. Enga hjálp var að hafa hjá hinum svonefnda verjanda og það tók kviðdóm innan við tíu mínútur að kveða upp dauðadóm yfir George.
Það þarf var að nefna að aðeins hvítir bæjarbúar fengu setu í kviðdómi.
George Stinney skyldi vera tekinn af lífi þann 24. apríl 1944.
En dómurinn fór ekki jafn vel í alla og hundruðir beiðna bárust til ríkisstjóra um að milda dóminn sökum ungs aldurs Stinney svo og skorts á sönnunargögnum. Bænasamkomur voru haldnar í kirjum bæði hvítra og svartra en þeim bænum var ekki svarað. Mótmælin urðu til þess að aftakan dróst um tæpa tvö mánuði en þann 16. júní var George fylgt inn að rafmagnsstólnum með biblíu í hendinn.
Aftakan
George var lágvaxinn miðað við aldur og innan við 40 kíló að þyngd og finna þurfti sessu til að koma drengnum fyrir i stólnum. Fangaverðir áttu einnig í mesta basli með að herða ólarnar að grönnum líkama hans.
Þegar loksins hafði tekist að óla George við stólinn var hann spurður hvort hann vildi segja eitthvað lokum. Drengurinn hristi höfuðið og hvíslaði ,,Nei, herra.” Þegar að alltof stór hettan var sett á höfð hans brast George í grát og runnu tárin niður vanga hans þegar að rafmagninu var hleypt á. Hann lést við þriðja strauminn.
George Stinney var settur í ómerkta gröf nærri fangelsinu. Á aðeins 83 dögum hafði 14 ára drengurinn verið ákærður, það réttað yfir honum, hann dæmdur, tekinn af lífi og jarðaður.
Loksins réttlæti
Það var ekki fyrr en árið 2004 að farið var að rýna í málið af meiri alvöru. Fundust fjöldi gagna sem aldrei höfðu komið fram fyrir dómi, meðal annars vitnisburður systur George um að hún hefði verið með honum á þeim tíma sem stúlkurnar voru myrtar. Meðfangi George í fangelsinu sagði drenginn hafa sagt sér að hann hefði aldrei játað neitt, jafnvel þrátt fyrir ofbeldi lögreglu. Hann sagði George hafa sagt sér að hann væri saklaus og ekki skilið af hverju hann væri dæmdur til dauða.
Í ofanálag mun sonur hvítrar efnafjölskyldu hafa játað morðin á banabeði árið 1949, þeirri sömu og pískrað var um að telpurnar hefðu heimsótt fyrir morðin. Var meðlimur í sömu fjölskyldu formaður kviðdómsins sem sendi George í rafmagnsstólinn.
Eftir tíu ára baráttu mannréttindasamtaka, lögmanna og Stinney fjölskyldunnar var dómurinn yfir George Stinney ómerktur þann 17. desember 2014. Því má bæta við að fjölskyldur myrtu stúlknanna mótmæltu og trúa margir þeirra enn á sekt George þrátt fyrir að yfirdrifnar sannanir séu um sakleysi hans.
Aftaka bandarískra ungmenna var ekki aflögð fyrr en með dómi hæstaréttar árið 2005