Systurnar fengu stimpilin ,,fávitar” og voru læstar inni á hæli á tímum fullum fordóma gegn fötluðum. Þar voru þær látnar dúsa allt til dauðadags, yfirgefnar af fjölskyldu sinni, og féllu í gleymskunnar dá. Það liðu tæp 80 ár áður en heimurinn fékk almennilega að vita af tilvist Nerissu og Katherine Bowes-Lyon, hinum útskúfuðu ættingjum bresku konungsfjölskyldunnar.
Og það er Netflix að þakka.
Í þætti af hinum geysivinsælu þáttum, The Crown, var hulunni að nokkru leyti loksins lyft af sorgarsögu stúlknanna sem allt hafði verið gert til að fela.
Arfgengur sjúkdómur?
Nerissa og Katherine Bowes-Lyon voru dætur Johns Herberts og Fenillu Bowes-Lyon, fæddar 1919 og 1936. Þær áttu tvær systur, Önnu og Diönu,sem báðar lifðu fram á níunda áratuginn. Eitt systkinanna lést í barnæsku. John var bróðir Elísabetar drottningarmóður og því voru þær systur og Elísabet II, núverandi Bretadrottning, systkinabörn.
Þær voru því með eins blátt blóð í æðum og unnt er að hafa en voru aldrei viðurkenndar sem ættingjar konungsfjölskyldunnar.
Læknavísindin sögðu þær ,,fávita” (imbeciles) og árið 1941 voru þær lokaðar inni á Royal Earlswood hælinu fyrir geðsjúka, eins og það var kallað. Nerissa var 22 ára, Katherine 15 ára. Þær voru báðar afar þroskahamlaðar og lærðu til að mynda aldrei að tala. Systurnar voru með þroska á við 2-6 ára börn. Einnig er talið næsta öruggt að minnsta kosti þrjár stúlkur, systurdætur Fenellu, Idonea Elizabeth Fane (1912–2002), Rosemary Jean Fane (1914–1972) og Etheldreda Flavia Fane (1922–1996), hafi þegar verið á hælinu við komu systranna.
Talið var líklegt á sínum tíma að um erfðasjúkdóm væri að ræða en enginn veit þó í raun hver ástæðan fyrir fötlun allra stúlknanna var. Aftur á móti hefur hátt hlutfall barnadauða meðal drengja innan fjölskyldunnar vakið athygli sérfræðinga.
,,Fávitagenið“
Fjölskyldan lét sem þær hefðu aldrei fæðst, foreldar þeirra heimsóttu þær aldrei og reynt var að þurrka út nöfn þeirra. Þær fengu hvorki afmælis- né jólagjafir. Ekki einu sinni kort. Engar ljósmyndir eru til af þeim á hælinu. Í útgáfu Burke’s Peerage árið 1963 voru þær báðar sagðar látnar en það ágæta rit inniheldur nákvæman lista yfir aðalinn í Bretlandi.
Þær voru aftur á móti báðar sprelllifandi.
Það var fyrst árið 1987 sem fjölmiðlar fengu veður af systrunum og fóru að spyrja spurninga. Svo virðist sem erfðafræðingur hafi verið skikkaður í að koma með skýringu, og hugsanlega tilgátu til að róa alþýðuna. Almannatenglar krúnunnar sögðu bresku konungsfjölskylduna frjálsa frá bölvuninni sem þjakaði ættina, ,,fávitagenið” kæmi alfarið frá móðurfjölskyldunni sem væri alls óskyld Elísabetu drottningu. Auðvitað var orðafarið penna og meira gefið í skyn en sagt var beint út en skilaboðin voru nokkuð skýr.
Varðandi skort á skráningu systranna í fínu bókina var svarið að móðir þeirra, Fenella, hefði oft verið utan við sig og kannski ,,gleymt að skila inn viðeigandi pappírum.”
Að öðru leyti yrði málið ekki rætt frekar.
Þetta þóttu frekar þunn svör en málið var að mestu látið niður falla.
Sjónvarpþættirnir og raunveruleikinn
Þegar að ,,The Crown” kom út árið 2011 varð tilvist systranna loksins opinber öllum almenningi. En frásögn þáttanna er aftur á móti ekki alls kostar rétt. Í þáttunum uppgötvar Margrét prinsessa, systir Bretadrottningar, um tilvist systranna, heimsækir þær og er full hryllings og vantrúar yfir leyndarmálinu. Hún er látin fara á fund systur sinnar, drottningarinnar, þar sem Margrét ásakar hana um að fela systurnar. Í þáttunum svarar Bretadrottning því til að ásýnd konungsfjölskyldunnar hafi ekki, og muni aldrei, þola að almenningur telji vera ættgenga geðveiki í fjölskyldunni.
Þarna er ekki rétt farið með. Hvorki Margrét né nokkur annar meðlima konungsfjölskyldunnar heimsótti þær systur nokkurn tíma og ekkert sem staðfestir hneykslan drottningarsysturinnar. Elísabet II frétti ekki af tilvist þeirra fyrr en 1982 og sendi þeim þá einstaka sinnum aur fyrir sælgæti. Samtal Margrétar og drottningar er uppdiktað af handritshöfundum.
Endalok systranna
Enginn mætti í útför Narissu við fráfall hennar árið 1987 og var gröf hennar merkt með plastskilti. Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna að hún fékk sómasamlegan grafstein í boði góðhjartaðs einstakling sem neitaði að gefa upp nafn en var ekki einn ættingja.
Katherine lést ekki fyrr en 2014. Royal Earlswood var lokað árið 1997 og fóru læknar fram á að meðlimir konungsfjölskyldunnar mættu á fund um hvert Katherine yrði send, enda hennar nánustu eftirlifandi ættingjar.
Ekkert þeirra kom né sendi konungsfjölskyldan svar eða fulltrúa í sinn stað.