,,Þegar maður er orðinn 75 ára hefur maður lifað svo miklar breytingar að það er ótrúlegt að hugsa til þess að maður hafi alist upp í Reykjavík án ísskápa. Maður var sendur í Norðurleiðarútunni í sveit til fólks sem maður þekkti ekki neitt og þar var bara eitt útvarpsstæki sem var jafn stórt og rafhlaðan sem það var sett í samband við.
Þetta er svo makalaust,” segir Þórarinn Tyrfingsson læknir.
,,Svo er maður kominn inn í þennan tíma í dag og hvort það er aldurinn, en manni finnst þetta líða hratt. Allar breytingar hafa í för í mér ákveðna streitu og erfiðleika og allt þjóðfélagið er undir álagi út af þessum svakalegu breytingum. Það er rót á öllu.”
Þórarinn segist telja lífið ganga út á mjög einföld prinsipp. ,,Það verður náttúrulega að gera eitthvað sem manni finnst varið í og er ánægður með. Hjá karlmönnum hefur það verið tengt vinnunni fyrst og fremst, að ná frama í starfi. Hjá konunum var það lengi vel að ná árangri í uppeldi. Í dag mælum við bæði kynin eftir hvernig gengur í fjölskyldulífinu og atvinnulífinu. Og kannski eitthvað minna í frístundum og félagslegri virkni.
Og ef við erum ánægð með þessa hluti gefur það okkur þokkalega góða geðheilsu.”
Kennt um ef að illa gekk
Þórarinn hætti störfum sem forstjóri sjúkrahússins Vogs árið 2017.
,,Ég kom til starfa í mars 1979, á afeitrunarstöð sem þá var í Reykjadal. Fór svo á Silungapoll og þaðan á Vog 1984. Þegar ég kom höfðu verið innan við 2.000 innritanir og þegar ég labbaði út af spítalanum voru þær komnar í yfir 70.000. Ég var á vakt á þessari afeitrunarstöð svona þriðja hvernig dag frá þessum marsdegi og þar til ég gekk út árið 2017.
Það voru um 27 þúsund manns sem komu á þessum tíma svo að ég hef nú örugglega kastað kveðju á marga þeirra og þá kannski helst á þá sem komu oftar en einu sinni. En vandinn var oft sá að menn vildu setja ábyrgðina yfir á mig, þrátt fyrir að hún sé ávallt sjúklingsins. En ég varð að axla þá ábyrgð og var því þakkað þegar vel gekk en kennt um ef að illa gekk. En þetta er nú bara lífið.”
Hvað breytingar hefur Þórarinn einna helst séð í neyslu áfengis á þessum árum?
,,Þetta er eins og mörg önnur heilsufarsvandamál sem eru tengd lífsstíl, þjóðfélagi og félagslegri stöðu. Hér í gamla daga voru það mennirnir sem höfðu algjörlega misst alla stjórn, og höfðu kannski ekki af miklu að taka í upphafi. Það flosnaði upp úr fjölskyldu- og atvinnulífi þeirra og þeir fóru á stofnanir eða götuna. Oft kallaðir rónar. Og svo voru hinir, fólk sem stóð í fæturnar að einhverju leyti, en drakk í túrum. Þetta var oft meðal iðnaðarmanna og fólki í uppgripsvinnu, til dæmis sjómanna. Og svo voru það kannski skrifstofumenn og fólk með meira á milli handanna, sem urðu dagdrykkjumenn.
Þetta mynstur hefur gjörbreyst.”
Mesta sorgin
Þórarinn segir sjúkdómsmyndina vissulega hafa breyst en það megi alltaf leita að hinu sama.
,,Getum við séð ákveðin einkenni sem segja að fólk sé ekki á réttri leið? Í of mikill neyslu eða jafnvel sjúklegri neyslu? Ég held að þau skilmerki séu alltaf bundin við stjórnleysið í neyslu þeirra vímuefna sem verið er að nota. Með bjórnum breyttist drykkjumynstur þjóðarinnar, vandræðadrykkjan og þessi hættulega ungmennadrykkja með öllu sem því fylgdi. Það eru færri félagsleg vandamál í dag. En þá kemur þetta yfir á eldri kynslóðina sem maður sér nota miklu miklu meira áfengi en til dæmis foreldrar mínir gerðu. Áfengi er bara almennt mikið notað og ekki alltaf gott að treysta afa og ömmu fyrir barnabörnunum. Það er mesta sorgin.”
Íslensku dópbylgjurnar
Talið berst frá áfengi að lyfjum og rifjar Þórarinn upp þær gríðarlegu breytingar sem hann hefur vitnað.
,,Fyrstu lyfin sem komu inn í myndina voru róandi lyf og þegar ég var að hefja minn starfsferil voru það eiginlega einu lyfin sem voru misnotuð.
Svo kom þessi sænska bylgja 1983. Það fór mikið af íslenskum námsmönnum til Svíþjóðar og þar voru menn að sprauta sig með amfetamíni í æð. Við fluttum þann faraldur heim og vorum allt í einu komin með fullt af sprautufíklum sem sprautuðu sig sig með amfetamíni. Heróín sáum við ekki nema kannski hjá krökkum sem voru að koma frá Kristjaníu um 1979-80.
Þetta var gríðarlegur faraldur sem við fengum þarna frá Svíþjóð, með lifrarbólgum og öllu galleríinu. Umræðan var mikil um þetta upp úr 1985 því þá var alnæmið komið sem var bara dauðadómur og grátur, mikið uppnám.
Svo kom rítalínið og allar deilurnar um hvort það væri gagnlegt lyf eða ekki.“
Þórarinn segir búið að þvæla þá umræðu ofboðslega mikið.
,,Milli 1995 og 2000 komu svo nýjar bylgjur, þessi ,,club drugs”; e-pillan og önnur skynbreytandi efni til að nota í skemmtanalífinu. Kókaín kemur þarna inn líka. Með þessu varð neyslan á þessum örvandi efnum mjög tengd skemmtanalífinu og er það ennþá.
En áfram heldur sagan og næst kom morfínið.
,,Þegar ég var að læra var morfín ekki notað utan sjúkrahúsa, það var bara aldrei gefið utan spítala. Ef að menn voru það veikir að þurfa morfín þurftu þeir að fara á spítala, það var samasemmerki þar í milli. Mannúðarsjónarmið réðu því síðan að fólk fékk að vera í sínu umhverfi þótt það væri mikið veikt, jafnvel deyja heima, og þá fyrst var farið að nota þessi lyf utan spítala.
Þetta er búið að vera flókið og erfitt vandamál sem hefur farið vaxandi.”
Peningar í lyfjunum
Aðspurður um hvort ,,læknadóp” sé nýlunda segir Þórarinn svo ekki vera. ,,Ég man þegar ég byrjaði hjá SÁÁ árið 1979 var fólk á því sem kallað var ,,gula kortið” og gegn því mátti fá amfetamín frá læknum. Menn muna það kannski ekki en þetta var lengi vel eina þunglyndislyfið. Amfetamín var því mikið gefið fólki sem hafði misst lífsgleðina og skáldskapargáfuna.
Þetta voru þunglyndir listamenn og húsmæður,“ segir Þórarinn og hlær.
,,Inn á milli voru svo menn sem voru háðir öðrum vímuefnum á þessu korti. Þetta var eiginlega bara styrkur, peningar. Menn voru að selja þetta og þetta var alveg heimur út af fyrir sig.”
Hann segir að aldrei megi gleyma hversu miklir peningar séu í lyfjum. ,,Það er oft horft framhjá því en lyfjafyrirtækin eru fjármagnsknúin og afraksturinn af sölu þessara efna er gríðarlegur. Þessir aðilar svífast einskis og eru alls staðar, líka inni í ráðuneytum og nefndum sem álitsgjafar.
Það er því ekki hlaupið að því hjóla inn í þennan málaflokk.”
Vandamálið við amfetamín
,,Vandamálið við amfetamín er að það er enginn sjúkdómur á móti því. Sá sem átti einkaréttinn af því vissi að það var eftirsóknarvert, hann var einn af fyrstu mönnunum til að prófa það, hafði fengið sprautu og orðið fyrir áhrifum. Hann vissi að hann væri með verðmæti í höndunum og fór að leita að sjúkdómum sem mætti nota amfetamín gegn.
Svo hann lét alla lækna hafa þessi lyf og hvatti þá til að láta á það reyna gegn sem flestum kvillum til að sjá hvað gengi.
Fyrst var reynt gegn ofnæmi og asma en það gekk ekki. svo þunglyndi og ekki gekk það. Né gegn offitu. Og nú er það síðasta bylgjan, gegn athyglisbrest og ofvirkni.”
Hann segir þetta allt einkennast af óskiljanlegri óreiðu. ,,Þarna er fólk sem notar þessi lyf og lýsir því á mjög sannfærandi hátt hvað það fái mikla bót . Og víst er nú það er að amfetamín örvar framheilann og þar af leiðandi nær fólk betri athyglisgetu. Og fyrir suma getur það verið gríðarlega mikilvægt, sérstaklega hvað varðar að ná félagslegum tengslum og þroskast. Og í slíkum tilfellum er afar mikilvægt að gefa þessi lyf.”
Tískusveiflur
En er ekki svo að segja hálf þjóðin komin með greiningu og á þessi lyf?
,,Ef að það er rétt sem þú ert að ýja að, þá getur það ekki verið rétt. Ekki að hálf þjóðin þurfi þau. En sá sem markaðssetti lyfið um 1930 vissi vel að það var söluvara. Hver borgar líka slíkar upphæðir fyrir sjúkdómsgreiningu?”
Þórarinn segir að líta þurfi til þess hversu tímarnir hafi breyst. ,,Áður töldu læknar að þeir væru að útdeila gæðum og sjúklingurinn ætti helst ekkert að vita hvað þeir væru að gera. Þeir útdeildu þekkingu til fólks af mikilleik sínum. Þeir voru ekki að þjónusta fólk og sögðust margir verða að ala upp sjúklingana sína. Hin hliðin á peningnum er að sem betur fer er nú borin virðing fyrir einstaklingsfrelsinu og rétti manna til ýmissa hluta, reyndar oft svo mikið að sjúklingurinn er farinn að ráða hvaða sjúkdómsgreiningar og lyf hann fær. Og það eru alltof miklar tískusveiflur sem verða á sjúkdómsgreiningum.”
Þórarinn segir það líka vera lyfjafyrirtækin sem séu að kaupa sig inn í geðgreiningarnar og hvernig þeir staðlar allir séu settir upp.
,,Fyrirtækin hafa áhrif með þeim afleiðingum að fleiri eru greindir með þunglyndi og athyglisbrest og fleiri þurfi því að fá lyf. Svo að þetta er flókið mál. En þó er þetta merki um að réttur sjúklinga hefur vaxið og það er jákvætt.”
Miklir öfgar og skyndilausnir
Allt í allt telur Þórarinn að við búum í betra þjóðfélagi en áður.
,,Það er oft háttur fólks sem komið er á minn aldur að sjá fortíðina í hillingum og telja að allt hafi verið betra áður fyrr. En þær upplýsingar sem við höfum segja okkur annað, sérstaklega í viðhorfum til barna og uppeldis og að við höfum samfélagslega skyldu til að huga að börnum. Það er minna um stríð, hörmungar, farsóttir, barnadauða og fátækt. Og það er bara minna um illa meðferð á fólk almennt. Þótt okkur finnist það ekki alltaf, þá búum við í betri heimi en áður.”
Hann bendir á að einnig hafi hugarfar til félagslegrar aðstoðað breyst. ,,Áður fyrr töldu menn að þeir væru að útdeila einhverjum gæðum sem ætti að forgangsraða með einhverjum hætti, jafnvel pólitískum reglum eða einhverju slíku. En núna er litið á þetta sem rétt og þá gengur það oft í hina áttina, menn krefjast þess að þjóðfélagið færi þeim í hendur eiginlega allt. Það er gengið út í það að fá jafnvel kaup heima, sem gengur ekki. Það eru miklir öfgar.”
Þórarinn er á því að vísindinum hafi fleygt svo fram að kannski vitum við jafnvel of mikið. ,,Við vitum hvaðan við komum, hvað lífið hefur upp á bjóða og hvað okkar persónulegu erfðir hafa upp á bjóða varðandi sjúkdóma og ýmislegt. Við vitum líka nákvæmlega hvað verður um okkur þegar við deyjum og við þolum þetta, flippum bara og förum að búa okkur til alls konar vitleysisgang eins og allskonar heilsuvörur og fæðubótarefni. Alls konar skyndilausnir.”
Þórarinn hlýtur að hafa upplifa margt í starfi sínu en vill lítið úr því gera, segir að það fylgi einfaldlega starfinu að takast á við aðstæður.
,,Mannsskepnan hefur svo mikla hæfileika til að aðlaga sig. Ég man eftir sjúklingi á Vogi sem fór í sturlunarástand og niður að voginum með allt það atferli að kveðja. Ég fór á eftir honum og í humátt á eftir mér var bílstjórinn minn. Þetta endaði með að ég óð vatnið upp í klof, náði í manninn og dró hann hundblautann á land. Hann var auðvitað sóttur en ég fór heim í sturtu og hreinar buxur og aftur í vinnuna. En bílstjórinn minn kom ekki í vinnu næstu tvo dagana. Maður veit aldrei hvernig maður tekur hlutunum,” segir Þórarinn og hlær.
Stríðsskaðaðir
Við tekur langt spjall um áföll og áfallastreituröskun sem Þórarinn segir að ekki megi blanda saman enda jafni flestir sig ágætlega eftir áföll.
,,Það virðast vera ákveðnir þættir í persónuleikanum sem ráða hverjir fá áfallastreituröskun og hverjir fá hana ekki. Þar kemur ýmislegt til, aldur, umhverfi og annað, en þeir sem hafa mikla hæfileika til að fást við streitu og búa yfir þolgæði og þrautseigju fá miklu síður áfallastreituröskun. Svo öll meðferð sem miðar að því að fást við streitu, auka úthald og sjálfsstyrk með aðhlynningu og stuðningi, er það besta sem hægt er að gera. Það er ekkert endilega gott að vera sífellt að rifja áfallið upp. Það verður alltaf í minningunni, það er ekki hægt að þurrka það út.”
Þórarinn segir alla áfengissjúklinga sem til hans hafi komið stríðsskaðaða. ,,Það sækja á þá slæmar draumfarir sem eru allar í þá átt að upplifa jafnvel verstu uppákomur í drykkjunni. Og þegar þeir eru að tala um ýmsa hluti fá þeir mjög sterk tilfinningaleg viðbrögð þegar þeir minnast til dæmis niðurlægingar eða slæmra hluta tengda drykkjunni. Þeir hafa mörg önnur einkenni sem passa mjög vel inn í bókina um áfallastreituröskun.
Hvort við ættum þá að kalla það að verða alkóhólisti áfall?” Þórarinn hlær. ,,Ég veit það ekki. Kannski.”
,,En það var áfall sem maður gleymir aldrei að vinna hjá þessum samtökum. Þetta er lífsstarfið manns og það verður aldrei þurrkað út.”
Deilurnar í SÁÁ
Aðspurður um deilurnar í SÁÁ, átök sem sumir vildu kalla heiftúðug, segir Þórarinn eflaust það hafa verið mikla breytingu þegar að hann hætti og það hafi valdið streitu. ,
,En ég var ekki sá eini sem var að hætta. Á þessu tíma var fullt af fólk sem eru jafnaldrar mínir að hætta, svo að það var mikil breyting. Og þegar að það þarf að ná jafnvægi aftur kemur upp ákveðinn ágreiningur sem endar í átökum á þessum fundi. En eftir þann fund hefur nú allt verið með kyrrum kjörum og það virðist sem stjórnin sé mjög samhent um flesta hluti. En ég veit svo sem ekki hvað er að ske þar nema að mjög litlu leyti. Ég hætti jú 20. maí 2017 og upplifði ekki á eigin skinni einhver átök innan SÁÁ sem voru undanfarin að þessu. Þannig er það bara.”
Upptekinn við að gera ekki neitt
Aðspurður um hvað hann sýsli þessa dagana segist Þórarinn ekki gera neitt.
,,Þetta er gríðarleg breyting eftir að hafa unnið mikið. Vinnan og vinnutengt umhverfi er svo ríkur og nauðsynlegur þáttur. Og þegar maður er ekki í rútínunni er erfiðara að hitta fólk svo maður fer að búa sér til alls konar hittinga og mynstur til að koma sér upp úr sófanum. Ég er hættur að geta hlaupið, það þurfti að skipta í mér mjöðm, og þá fer maður að ganga þar til maður fær slæmsku í hnén.”
Þórarinn hristir höfuðið yfir öllu veseninu og hlær. ,,Það er ýmislegt að trufla og einhvern vegin gerir það mann afar upptekinn að gera ekki neitt. Tala við lækna, fara í bankann, endurnýja ökuskírteinið á nokkurra ára fresti.
Það er jú hörkuvinna að eldast,” segir Þórarinn Tyrfingsson læknir að lokum og gengur út í sólina.