Þegar að Daphne Pearl Jones lést á sjúkrahúsi í Queensland í Ástralíu í nóvember 2007 skildi hún eftir sig tvær fjölskyldur í leit að svörum. En ekki við sömu spurningunum.
Á dánarvottorði hennar stóð að hún hefði verið 83 ára gömul, dóttir Frederick Onslow og gift Raymond Charles Jones. Ekkert af því var satt.
Hún hét Daphne Pearl Hampstead, var 89 ára, gift Sidney Hampstead og móðir átta barna þeirra.
Það var ekki fyrr en þrettán árum síðar að ráðgátan um hver Daphne Jones – eða Hampstead, Hanson, Onslow eða Shaw – leystist. Loksins vissu tvær fjölskyldur sannleikann um konuna sem þær báðar syrgðu. Konuna sem átti sér tvö líf.
Kona án fortíðar
Ári fyrir fráfall Dahpne hafði stjúpdóttir hennar, Diann Green, séð stjúpmóður sína tæta niður fjölda bréfa, jóla- og afmæliskorta auk annarra skjala. Hún hafði lengi haft á tilfinningunni að Daphne hefði eitthvað að fela þar sem hún hafði alltaf forðast að ræða líf sitt áður en hún giftist föður Diann, Raymond Jones, 49 ára að aldri.
Nokkrum mánuðum síðar ákváðu Diann og eiginmaður hennar að kanna málið frekar og leita uppi gröf föður hennar. En það var hvergi að finna legstað Frederick Onslow.
Þrátt fyrir að elska mjög stjúpmóður sína báru þau það upp á , sem alla jafna var afar rólynd, en brást hin versta við að verið væri að grafa upp í fortíð hennar.
Og hún hafði ástæðu góða ástæðu til þess.
Stormasamt hjónaband
Daphne Jones giftist Sidney Thomas Hampstead þegar hún var 18 ára. Brúðguminn var 27 ára og næstu tíu árin eignuðust þau átta börn: Leslie, Patriciu, Marciu, Daphne Lillian, tvíburana Barry and Clifford, Helen og Janet. Fjölskyldan ferðaðist mikið um og unnu hjónin fyrir fjölskyldunni sem farandverkamenn áður en þau keyptu sér eigin jörð. En fjárhagsörðugleikar héldu áfram að þjaka fjölskylduna og svo fór að þau misstu býlið árið 1956 og fluttu í útjarð Sydneyborgar.
Þá voru tvær elstu dætur þeirra giftar og fluttar að heiman en hin sex börnin enn á heimilinu.
Daphne var ástrík móðir sem elskaði að elda og átti fjölda vina. Flestir álitu hjónabandið gott en Sidney var ör í skapi og afbrýðisamur. Hann hafði átt það til að beita konu sína ofbeldi og jókst það eftir að þau fluttu til Sydney. Daphne fékk vinnu sem kokkur, undir nafninu Daphne Hanson, og vann langan vinnudag. Með tímanum fór hún að vera meira að heiman og suma dagana fór hún jafnvel um sólarupprás og kom ekki heim fyrr en seint að nóttu.
Sidney var þess fullviss að kona sín væri að halda framhjá sér og varð hegðun hans sífellt ofbeldisfyllri.
Daphne kvartaði aldrei við nokkurn mann um heimilisaðstæður sínar en að morgni 10. maí 1958 steig upp í leigubíl með eina ferðatösku, fyllta fatnaði og ljósmyndum af börnum sínum. Hún var tveimur mánuðum frá fertugsafmæli sínu.
Bréfin
Enginn veit hvert Daphne bað um að verða ekið en tveimur dögum síðar barst manni hennar bréf sem hljóðaði svo:
Elsku Sid,
Þú trúir því ekki hversu erfitt það er mér að skrifa þetta bréf ástin mín. Ég hætti í vinnunni í dag, ég get ekki meira. Ég hélt að það væri engin ást til mín á heimili okkar. En undanfarna viku hef ég áttað mig á að það er ekki rétt. Ég á aldrei eftir að gleyma þeirri viku. Ég ætlað að fara í burtu i smá tíma, ein, en ekki hafa áhyggjur. Það verður allt í lagi með mig.”
Hún skrifaði einnig bréf til Daphne Lillian dóttur sinnar og bað hana að sjá um föður sinn og yngri systkini.
Sidney og börnin átta áttu aldrei eftir að sjá Daphne aftur.
Sidney brotnaði saman við brottför konu sinnar og drekkti sorgum sínum í áfengi. Hann lést 2. maí 1973, bugaður á sál og líkama.
Fimm árum eftir hvarf Daphne veiktist einn sona hennar heiftarlega og var lagður inn á sjúkrahús. Honum barst bréf þar sem bréfritari lýsti áhyggjum sínum af heilsu hans og óskaði honum góðs bata. Bréfið var nafnlaust en undirritaður ,,frá manneskju sem elskar þig afar mikið.” Hann þekkti strax rithönd móður sinnar.
Hjónabandið
Síðar kom í ljós að Daphne hafði flutt til Brisbane, kallað sig Daphne Shaw og sagt sig sex árum yngri en hún raunverulega var. Hún vann í verslun sem seldi saumavélar og hóf sambúð með manni að nafni Roy Shaw. Roy lést árið 1972 og tók Daphne þá saman við besta vin hans, Raymond Jones sem þá nýlega var orðinn ekkill. Sameiginleg sorg þeirra dró parið saman og ,,giftu” sig árið síðar. Ekkert bendir til annars en að Raymond hafi trúað að hjónabandið væri löglegt og tók Daphne upp eftirnafnið Jones.
Raymond átti dótturina Diann sem myndaði ástríkt samband við stjúpmóður sína. Þær áttu það til að ræða um heima og geima en Diann tók eftir því að í hvert skipti sem hún reyndi að spyrja um fortíð stjúpmóður sinnar skipti hún tafarlaust um umræðuefni.
Sannleikurinn kemur í ljós
Daphne og Raymond fluttu ört á milli staða næstu áratugina, keyptu niðurnídd hús, gerðu upp og seldu. Daphne var afbragðs saumakona með auga fyrir hönnun og Raymond rafvirki og smiður svo viðskiptin gengu prýðilega og náðu hjúin að skapa sér gott líf. Þegar þau voru orðin roskin komu þau sér fyrir í fallegu húsi í Maryborough þar sem Raymond lést af völdum hjartáfalls árið 2004. Þremur árum síðar fylgdi Daphne honum í gröfina.
Aftur á móti höfðu börn Daphne aldrei gefist upp á leitinni að móður sinni. Þegar að Daphne Lillian, dóttir Daphne, lá á dánarbeði var það hennar hinsta ósk að Donna dóttir hennar héldi áfram leitinni.
Donna heiðraði ósk móður sinnar og réði einkaspæjara árið 2017. Það tók hann innan við 12 klukkustundir að finna út hvað orðið hefði um Daphne Hampstead. Diann og Hampstead börnin hittust í kjölfarið og skiptust á upplýsingum um konuna sem báðar fjölskyldurnar höfðu elskað.
Konu sem hafði samt sem áður reynst vera tveir gjörólíkir einstaklingar.
Málið telst einstakt enda tókst Daphne að varðveita leyndarmál sitt í 62 ár.