Það er sannkallaður öndvegisbústaður sem nýlega kom á sölu á Öndverðarnesi í nágrenni Selfoss.
Bústaðurinn, eða sumarhúsið – eins og það kallast á fasteignamáli- er sko enginn kofi enda 81 fermetri að stærð. Bústaðurinn er staðsettur á lokuðu svæði þar sem aðeins eru 6 sumarhús innan við hlið.
Bústaðurinn hefur verið endurnýjaður að hluta og er staðsettur á „fallegri og skjólsælli“ 10.383 fermetra eignarlóð í Öndverðarnesi. Mikil skógrækt hefur verið stunduð þar á lóðinni og er húsið í miklu skjóli. Þarna í nágrenninu má svo finna góðar gönguleiðir í Þrastaskógi og í Öndverðarnesi.
Bústaðurinn er byggður árið 1979 úr timbri, en byggt var við hann árið 2008. Þar má finna fjögur svefnherbergi, herbergjagang og alrými með stofu, eldhúsi, borðkrók og forstofu.
Arinn er í alrýminu, sem skartar fjölmörgum gluggum sem gera rýmið sérstaklega bjart, og þaðan er líka útgengt á glæsilega verönd sem er um 100 fermetrar að stærð með heitum potti og útisturtu.
Ásett verð er 39,8 milljónir og má lesa nánar um eignina á Fasteignavef DV.