fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

Þórhallur er meira en bara sonur Ladda – ,,Er kannski óttalega vitlaus og leiðinlegur“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 1. maí 2022 09:00

Þórhallur Þórhallsson. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

,,Það hentar mér vel að vera einn uppi á sviði, mun betur en að vera úti í sal og þurfa að halda uppi samtölum við ókunnuga. Ég get hlaupið af sviðinu og falið mig einhvers staðar þegar ég er búinn. Það er félagsfælnin. Ég grínast oft með að ég hafi fæðst í kvíðakasti og komið út öskrandi og grenjandi,” segir Þórhallur Þórhallsson grínisti, einnig þekktur sem sonur eins ástsælasta grínista þjóðarinnar, Ladda.

Ólæknandi mömmustrákur

Þórhallur stígur á svið með uppistand í Tjarnarbíó þann 12. maí næstkomandi.

 ,,Ég sakna Covid eiginlega pínulítið. Mér var sagt að vera heima hjá mér og að ég mætti ekki hitta fleiri en tíu manns í einu og mér leist svona líka stórvel á það enda hver nennir að hitta fleiri en tíu manns? Ekki ég.”

Baráttan við kvíðann

Þórhallur hefur lengi grínast og var valinn fyndnasti maður Íslands árið 2007, almennt þekkt sem hrunárið mikla. ,,Það var einhver geðveiki í samfélaginu, allir að taka lán og velja mig sem fyndnasta manninn. Þjóðin var bara í rugli, segir Þórhallur og skellihlær. ,,Þetta var rosalega skemmtilegt, ég var fenginn um allt land að skemmta og bara endalaust gaman. En svo kom bankahrun, grínhrun og allskonar hrun. En þetta var æðislegt ár og maður var farinn að halda að svona myndi þetta halda áfram áður en ástandið sló mann í andlitið. Þetta var samt skemmtilegt meðan á því stóð og gaman að ná í lokin á góðærinu.”

Þrátt fyrir að skemmta landanum hefur Þórhallur barist við kvíða alla sína ævi, ástand sem lengi vel var ekki rætt og þá síst hjá börnum. ,,Þegar horft er til baka var þetta augljóst. Ég bókstaflega hélt í pilsfaldinn á mömmu, alltaf í þeirri trú að hún væri að reyna að finna leið til að stinga mig af, sem auðvitað var algjör vitleysa. En ég var viss um að hún myndi nýta tækifærið ef ég sofnaði eða færi á klósettið. Þetta var svo slæmt að mamma þurfti að standa fyrir utan baðherbergið á meðan ég var í sturtu.”  

Leið illa í skóla

Ástandið batnaði síður en svo þegar Þórhallur hóf skólagöngu. ,,Ég vildi ekki láta sjást að ég væri alltaf með mömmu en til að geta farið inn í skólann þurfti ég að vita af henni í nágrenninu, þar sem hún var á bak við tré eða gám. Þetta var svo slæmt að hún þurfti að breyta vinnutímanum hjá sér.”

Það er augljósa hlýju að finna hjá Þórhalli þegar hann ræðir móður sína. 

Honum leið illa á skólabekk og lék trúðinn þá sjaldan sem hann mætti. ,,Ég lærði aldrei heima og allt var skrifað á óþekkt. En kvíðinn er líkamlegur, mér var alltaf flökurt og leið illa og komst því upp með að mæta ekki í skólann.”

Eftir á séð spyr Þórhallur af hverju enginn velt fyrir sér af hverju hann sinnti ekki námi. ,,Ég skrópaði stöðugt og skólayfirvöldum fannst bara betra að ég mætti ekki. Það var meira að segja  hætt að láta mömmu vita, ég fór út á morgnana og aftur heim þegar hún var farin í vinnuna. Eftir á séð er þetta auðvitað augljóst og þetta er miklu meira í umræðunni núna og fólk veit meira um þetta en þá. Mamma var bara ánægð með hvað ég var mikill mömmustrákur enda var maður örverpið.” 

Þórhallur er einn þriggja sona foreldra sinna, með bræður 14 og 17 árum eldri. Foreldrar hans skildu þegar hann var sjö ára. 

Fíflalæti

,,Ég átti vin sem var örugglega að glíma við það sama og ég og sofnaði alltaf í tíma. Ég man alltaf eftir atviki þegar að það voru kennaranemar í þjálfun og einn neminn vildi vekja hann. Kennarinn stoppaði hann aftur á móti og sagði strákinn miklu þægilegri sofandi. Það voru skilaboðin til kennara framtíðarinnar. Þetta hefur nú breyst sem betur fer,” segir Þórhallur og hristir höfuðið.

Þórhallur gafst snemma upp á skólanum, stimplaður sem óalandi óþekktarormur. ,,Ég veit núna að með því að mæta ekki og læra ekki hafði ég afsökun fyrir að falla í stað þess að reyna en falla samt og sanna þar með að ég væri heimskur. Mér finnst skrítið hvernig skólinn tók á þessu. Í áttunda bekk stakk skólastjórinn til dæmis upp á því að taka mig út úr skólakerfinu, hann nennti ekki að standa í því að hafa krakka með fíflalæti í skólanum sínum. Ég hefði getað gengið frá skólagöngu það árið en það var alltaf rígur á milli okkar skólastjórans svo ég ákvað að vera áfram, bara til að pirra hann. Ég kláraði grunnskólann eingöngu til að fara í taugarnar á honum. Auðvitað var þetta bara kvíðinn.”

Nýr heimur

Þórhalli leið aldrei vel innan um annað fólk en fann töfralausnina þrettán ára gamall þegar hann smakkaði áfengi. ,Það opnaðist fyrir mér nýr heimur. Allt í einu gat ég farið að tala við fólk og allur kvíði hvarf. Þangað til daginn eftir þegar að kvíðinn kom margfalt til baka. En meðan á því stóð var þetta ekkert mál. Margir sem þekktu mig þá eiga erfitt með að þekkja mig í dag því ég er í raun miklu rólegri og lokaðri en margir gera sér grein fyrir. Ég get verið voða fyndinn uppi á sviði en er kannski óttalega leiðinlegur utan þess. Ég er enn alltaf hræddur um að segja og virka eitthvað vitlaus“, segir Þórhallur og hlær.

Þórhallur náði að fela ástandið vel en var þó sendur í ráðgjöf af foreldrum sínum. Hann náði að kjafta sig úr út henni. ,,Ég var sagður klár strákur sem engin ástæða væri til að hafa áhyggjur af.” Hann hellti sig aftur á móti blekaðan af landa það sama kvöld. ,,Einn daginn vaknaði ég fjólublár í framan, eins og blaðra. Þá hafði ég kastað svo rækilega upp að allar smáæðarnar í andlitinu sprungu. Þessi landi maður!” segir Þórhallur og hristir höfuðið.

Hnífsstungan sem bjargaði

Stimplaður sem vandræðaunglingur drakk Þórhallur um hverja helgi. Félagsfælnin hafði gert það að verkum að hann átti fáa vini en þeim mun fleiri kunningja sem flestir voru eldri og byrjaðir að fikta við vímuefni og fylgdi hann í þeirra fótspor. Við tók neysla á grasi, amfetamíni, kókaíni og e-töflum. ,,Þetta var allt deyfing á kvíðann og ég fann aldrei til löngunar í áfengi eða vímuefni þegar ég var einn. Ég var í þessu til að geta umgengist fólk.  Ef þú ferð út í þetta veistu í raun aldrei hvert það leiðir þig en ég er svo heppinn að fíknin var aldrei sterk í mér.  Ég á marga vini frá þessum árum sem eru dánir því þetta var of mikið fyrir þá. Ég var mjög gæfusamur að þetta fór ekki verr en ég hef séð á eftir fólki í dauðann.” 

Aðspurður um hvað hafi hafi orðið til að snúa honum frá neyslumynstrinu segir Þórhallur það, merkilegt nokk, hafa verið hnífstungu. ,,Það var þá sem ég áttaði mig að þessir ,,vinir” mínir voru engir vinir heldur bara neyslufélagar. Ég var í eftirpartíi og sat fyrir hliðina á einhverjum gaur. Við vorum ekkert að rífast eða neitt slíkt en allt í einu dró hann upp vasahníf og stakk mig í kálfann. Og í staðinn fyrir að vísa honum út var mér sagt að fara því að hann var sá sem átti efninn. Þá áttaði ég mig á því að þessir ,,vinir” mínir væru engir vinir og krassaði hreinlega. Ég kveikti líka á perunni með að efnin væru kannski töfralausn eitt kvöld en kæmu síðan margfalt til baka. Ég náði sem betur fer að kúpla mig út úr þessu. 

Ég vissi hverjir voru mínir góðu vinir og þeir eru stór partur af lífi mínu enn þann dag í dag.” 

Loksins greining

Þórhallur var sautján ára á þessum tímapunkti og fóru næstu þrjú til fjögur árin í að fóta sig í lífinu. ,,Ég byrjaði í fullt af vinnum en meikaði þær ekki og hætti að mæta.  Ég tilkynnti mig ekki einu sinni veikan og svaraði ekki síma. Ég klúðraði helling af vinnum á þessum tíma vegna kvíðans.”

Þórhallur Þórhallsson. Mynd/Valli

Að því kom að bróðir Þórhalls benti honum á að leita til læknis og um tvítugt fékk Þórhallur loksins lyf til hjálpar. ,,Það breytti öllu, bara það að panta pizzu hafði verið of erfitt fyrir mig en nú gat ég loksins farið að eiga samskipti við fólk.” Þegar honum fór að líða betur fannst honum hann þó geta hætt á lyfjunum. 

,,Smám saman var ég kominn aftur í sama far, hættur að geta svarað síma eða hitt fólk. Og þannig liðu nokkur ár áður en ég fór í próf sem sýndi fram á félagsfælni mína og ofsakvíða. Ég hef sem betur fer ekki fengið ofsakvíðaköst oft en þeir sem hafa fengið þau vita að manni líður eins og maður sé að deyja.”  

Þórhallur meðtók að þurfa lyfin og er sáttur í eigin skinni í dag. ,,Það að fá greiningu og vita hvað er að hefur hjálpað mér mikið. Margir sem eru í uppistandi grínast með það að uppistandið sé sálfræði og ég er sammála. Ég grínast með þetta og læt allt flakka enda er ekkert tabú að vera með kvilla og ræða geðheilsu. Þetta er líka ákveðinn varnarmekkanismi, að gera grín að sjálfum sér áður en aðrir gera það.”

Grínfíknin

Þórhallur viðurkennir að ein fíknin sé þó ólæknandi.  ,,Nánast frá fæðingu hef ég verið spurður að því hvort ég ætlaði að verða eins og pabbi og ég þverneitaði alltaf, þrátt fyrir að vera með þessa þörf. Reyndar var ég neyddur í fyrsta uppistandið þegar ég vann á lagernum hjá Flytjanda enda alltaf með fíflagang. Einn daginn var mér tilkynnt að ég ætti að vera með uppistand og fékk auðvitað kvíðakast dauðans. En þegar að ég steig á svið og það var hlegið að fyrsta brandara var ekki aftur snúið. Adrenalínið við að vita ekki hvort fólk mun hlæja eða ekki er ólýsanlegt og þegar að hláturinn heyrist fer maður í vímu. Maður þarf stöðugt skammtinn sinn,” segir Þórhallur og hlær. ,,Er hægt að deyja úr hlátri? Grínistar hafa reyndar dáið á sviði. Það er frábær dauðdagi.“

Eins og fífl

Þórhallur þvertekur fyrir að búið sé að þrengja að uppistöndurum í kúltúr samtímans. ,,Ég tók snemma þá ákvörðun að gera mest grín að sjálfum mér og ég er ekki búinn að kansellera sjálfum mér ennþá. Ég er er lítið að dansa á vafasamri línu þótt að  einhverjir geti eflaust móðgast yfir einhverju. Það eru samt örugglega til varkárari grínistar og auðvitað spáir maður í hvort það megi  gera grín að öllu. Ég hef alltaf verið hlynntur því að segja það sem er fyndið svo lengi sem það kýli engan niður. Það er ekkert málefni sem ekki má tala um en því viðkvæmara sem það er, því fyndnari þarftu að vera og grínið þarf að hafa tilgang til að skjóta niður samfélagsmein. Ég nota kannski kaldhæðni til að segja fordómafulla hluti, án þess að það sé á nokkurn hátt mín skoðun eða trú, heldur til að gera grín að þeim sem eru það vitlausir að meina slíka hluti í alvöru. Margir komust upp með að haga sér eins og fífl í áratugi og mér finnst mjög jákvætt að það sé bent á það, við eigum að koma fram við hvort annað af virðingu.”

Er bara allt

Þórhallur og kærasta hans, Kristín Anna Thorlacius Jensdóttir, eiga von á barni í júní og er það fyrsta barn Þórhalls. ,,Ég er spenntur, stressaður og bara allt enda hélt ég að þetta yrði ekki mitt hlutverk í lífinu. Ég hafði svosem ekki reynt eða ekki reynt, taldi að það sem myndi gerast myndi gerast. En ég er orðinn 39 ára og það er alveg kominn tími til. Áður fyrr var ég ekki tilbúinn til að takast á við þessa ábyrgð en núna ætla ég að verða eins góður pabbi og ég get. Ég verð örugglega skemmtilegi pabbinn, alltaf að grínast og fíflast, en ég ætla líka að vera alvarlegri pabbinn, eða að minnsta kosti að reyna það svo það lendi ekki alltaf á mömmu að skamma.” 

Bara sonur Ladda

Talið berst að feðrum og hvort það sé pressa að vera sonur hins eina sanna Ladda. ,,Auðvitað var pressa og ég ætlaði aldrei út í þetta vegna þess hver pabbi er í íslensku þjóðfélagi. Ég hef verið í veislum og ekki verið farinn upp á svið þegar að einhver fullur karl segir mig ekki jafn fyndinn og pabba, án þess að heyra nokkuð frá mér. Ég hef ekki einu sinni fengið að að heita eigin nafni, bara verið kallaður sonur Ladda, en við erum mjög ólíkir í okkar gríni og ég er bara ég. Uppistandið mitt er hrátt og um persónulega hluti en pabbi er meira með karaktera og tónlist. Ég held að mikið af mínum húmor komi frá kaldhæðni móðurfjölskyunnar. Ég er reyndar svo heppinn að það er húmor í báðum fjölskyldum,” bætir Þórhallur við.

Alltaf verið mál

Þórhallur segir þá feðga grínast endalaust en það sé alltaf ákveðinn dýpt í gríninu þeirra á milli. ,,Pabbi er ósköp venjulegur maður en hann er alltaf skemmtilegur og mér finnst æðislegt hvað karakterarnir hans hafa skilað sér út í þjóðfélagið og kynslóðir framtíðarinnar. Það munu til dæmis fæstir vita hvaðan það kemur að vera með Magnús þegar að einhver er með tóbaksslikjuna niður,” segir Þórhallur og skellihlær. ,,Margir hafa spurt hvort pabbi hafi kennt mér einhverja tækni en málið er að þú ert bara fyndinn eða ekki fyndinn. Þetta hefur alltaf verið eitthvað mál frá því ég man eftir mér en ég er ekki bara sonur Ladda: Þórhallur er mættur á svæðið!” segir Þórhallur Þórhallsson, grínisti og tilvonandi faðir. 

Uppistand Þórhalls verður í Tjarnarbíó þann 12. mai. Miðar fást á Tix

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nadine ekkert sérstaklega sátt við eiginmanninn sem gleymdi hvenær hún á afmæli

Nadine ekkert sérstaklega sátt við eiginmanninn sem gleymdi hvenær hún á afmæli
Fókus
Fyrir 3 dögum

Harry og Meghan fá á baukinn fyrir nýja ,,áhugamálið“ í Bandaríkjunum

Harry og Meghan fá á baukinn fyrir nýja ,,áhugamálið“ í Bandaríkjunum
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Ég vissi alltaf að þetta væri ekki eðlilegt, það væri eitthvað að“

„Ég vissi alltaf að þetta væri ekki eðlilegt, það væri eitthvað að“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Jóhannes Þór fékk stórskrýtna sendingu frá Reykjavíkurflugvelli – „Hvar fær maður svona“

Jóhannes Þór fékk stórskrýtna sendingu frá Reykjavíkurflugvelli – „Hvar fær maður svona“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Kári skrifar Ragnari skjálfta bréf – „Ef ég man rétt tókst okkur ekki að stöðva stríðið í Víetnam“

Kári skrifar Ragnari skjálfta bréf – „Ef ég man rétt tókst okkur ekki að stöðva stríðið í Víetnam“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Ellý segir gjaldþrotin og erfiðleika hafa gert sig sterkari – „ Ég vel að vera ljón og vera sterk“

Ellý segir gjaldþrotin og erfiðleika hafa gert sig sterkari – „ Ég vel að vera ljón og vera sterk“