Erlendir fjölmiðlar greina frá því að tónlistarmaðurinn August Alsina muni leysa frá skjóðunni um ástarsamband hans og leikkonunnar Jada Pinkett Smith.
Jada hefur verið gift leikaranum Will Smith í 25 ár. Í fyrra greindi hann frá því í viðtali við GQ að þau væru í opnu hjónabandi.
„Hjónaband má ekki vera fangelsi fyrir okkur,“ sagði hann. Hins vegar var hjónaband þeirra ekki opið þegar Jada var með August.
Sjá einnig: Will Smith viðurkennir að hann og Jada eru í opnu hjónabandi
Jada viðurkenndi árið 2020 að hún hefði haldið framhjá eiginmanni sínum með söngvaranum nokkrum árum áður. Hún greindi frá því í þættinum Red Table Talk, sem hún heldur úti ásamt móður sinni og dóttur. Í þættinum var Will Smith gestur og áttu þau mjög hreinskilið samtal um framhjáhaldið.
August, 30 ára, og Jada, 50 ára, kynntust árið 2015 en þá voru Smith hjónin ekki búin að ákveða að opna sambandið og hafði framhjáhaldið mikil áhrif á parið sem skildi að borði og sæng um tíma.
The Sun greinir frá því að August Alsina sé að fara að skrifa undir samning við bókaútgáfu og ætlar að láta allt flakka um ástarsamband og kynlíf hans og stórstjörnunnar.
„Hann hefur alltaf haldið því fram á að Will gaf honum leyfi til að sofa hjá Jada, eitthvað sem þau harðneita bæði,“ segir heimildarmaður The Sun.
„August mun segja frá tíma þeirra saman í smáatriðum og mun einnig tala um hvernig hann var oft á heimilum Smith fjölskyldunnar þegar Will var í burtu í kvikmyndatökum.“
Samkvæmt heimildarmanninum mun August einnig tala um allt sem gerðist í kjölfar þess að ástarsamband þeirra var opinberað og hvaða áhrif það hafði á feril hans.
Þegar August opnaði sig um samband þeirra árið 2020 sagðist hann hafa verið yfir sig ástfanginn af leikkonunni. „Ég elskaði hana svo mikið að ef ég myndi deyja núna væri ég sáttur því ég veit að ég gaf einhverjum mig allan.“
Hann hélt því líka fram að Will hefði gefið honum blessun sína. „Ég settist niður með Will og við töluðum saman. Hann gaf mér sína blessun,“ sagði hann.
The Sun segir að enn frekari niðurlæging blasir við Will Smith vegna þessa, en söngvarinn hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan hann sló grínistann Chris Rock utan undir á Óskarsverðlaunahátíðinni.
Sjá einnig: Myndband í dreifingu sem sýnir löðrunginn í nýju ljósi – Jada Pinkett Smith virðist hlæja
Chris Rock var kynnir á hátíðinni og gerði grín að hári Jada Pinkett. Will rauk upp á svið, sló Chris utan undir og settist aftur í sæti sitt og öskraði á Chris. Hálftíma seinna vann hann til verðlauna sem besti leikari í aðalhlutverki fyrir leik sinn í King Richard.
Málið vakti heimsathygli og gæti leikarinn verið sviptur sínum fyrstu Óskarsverðlaunum. Hann hefur sagt sig úr Akademíunni og hefur streymisveitan Netflix sett verkefni með honum í bið.
Sjá einnig: Svona voru viðbrögð gesta Óskarsins við löðrungnum – Grátandi Will Smith baðst afsökunar