*Viðkvæmir eru varaðir við lýsingum á ofbeldi í greininni*
Í desember 1970 var bankað á hurð læknisins Walter Trankler á heimili hans á Tenerife á Spáni. Fyrir utan stóðu tveir menn, þaktir að því sem virtist leðju, og kynntu sig sem feðgana Harald og Frank Alexander. Báðu þeir um að fá að eiga orð við húshjálpina Sabine, dóttur Haralds og systur Franks. Læknirinn tók vel í það, bauð mönnunum inn, og sótti hina 15 ára gömlu Sabine. Útgangur mannanna vakti forvitni hjá lækninum sem gat ekki stillt sig um að hlera brot úr samtalinu.
Tók blíðlega um hönd
Læknirinn fylltist skelfingu þegar hann heyrði mennina útskýra fyrir Sabine að þeir væru nýbúnir að myrða móður hennar Dagmar og tvær systur hennar, hina 15 ára tvíburasystur Sabine, Petru og 17 ára Marinu. Ekki minnkaði áfall læknisins þegar að Sabine skipti ekki skapi við tíðindin heldur tók blíðlega um hönd föður síns, lagði upp að kinn sér og sagði; „Ég er viss um að gerðir það sem þú taldir nauðsynlegt.” Svo föðmuðust þremenningarnir.
Doktor Trankler varð ljóst að hann var einn í félagsskap stórhættulegs fólks með enga raunveruleikatengingu og að minnsta kosti þrjú morð á samviskunni. Rauk hann skelfingu lostinn inn í svefnherbergi sitt, læsti hurðinni og setti húsgögn við til öryggis. Því næst hringdi hann á lögregluna.
Skelfilegar limlestingar
Það tók lögregluna aðeins örfáar mínútur að koma á staðinn og var Alexander fjölskyldan enn í ganginum, spjallandi hin rólegasta. Læknirinn þorði út úr herberginu í fylgd lögreglu og tók hann nú eftir því að leðjan sem lak af föðurnum var hreint ekki leðja. Það var blóð.
Alexander fjölskyldan kippti sér ekkert upp við komu lögreglu og var reyndar svo róleg að lögreglumenn fóru að efast um sögu læknisins og spurði Harald hvort rétt hefði verið farið með. Haralda jánkaði því hinn rólegasti, vissulega hefði hann myrt konu sína og dætur og vildi lögregla kannski vita hvar líkin væri að finna? Lögregla var farin að halda að um einhvers konar hrekk væri að ræða en fór samt að kanna hvort eitthvað væri til í sögunni.
Þegar löggæslumenn stigu fæti inn á heimili Alexander fjölskyldunnar vissu þeir að ekki var um hrekk að ræða. Þar var að finna þrjú lík, öll skelfilega limlest og náðu blóðsletturnar upp í loft íbúðarinnar. Brjóst, hjörtu og leg kvennanna höfðu verið skorin úr þeim og negld á veggi íbúðarinnar.
Hvað í ósköpunum gat hafa valdið þessum hryllingi?
Sonur guðs
Lorber söfnuðurinn var sérstrúarsöfnuður, stofnaður í upphafi 19. aldar í Dresden í Þýskalandi af samnefndum austurrískum klerk. Söfnuðurinn samanstóð yfirleitt af um eitt hundrað sálum úr sömu fjölskyldunum og hafði Harald Alexander tekið við forystu hans upp úr 1960. Hann hafði tekið við eftir að hafa verið valinn af forvera sínum þrátt fyrir að hafa dvalið 15 ár á geðsjúkrahúsi.
Kenningar safnaðarins gátu ekki verið einfaldari. Allt og allir utan við söfnuðinn voru á vegum djöfulsins.
Fljótlega eftir að taka við stjórnartaumunum tilkynnti Harald að sonur hans á barnsaldri, Frank, væri sonur guðs. Tóku langþjáðir og heilaþvoðir safnaðarmeðlimir því sem heilögum sannleika. Hinum unga Frank líkaði hlutverkið vel, stórnaði með harðri hendi, og kom fram við safnaðarmeðlimi eins og þræla sem hlýddu hverju hans orði og uppfylltu allar hans kröfur. Þegar að Frank komst á unglingsár uppgötvaði hann kynlíf og þar sem kynlíf, líkt og öll önnur samskipti, við einstaklinga utan safnaðarins var bannað fann táningurinn ráð við því. Hann tilkynnti að framvegis myndi hann eiga mök við móður sína og systur. Og eins ótrúlega og það kann að hljóma samþykkti söfnuðurinn orðalaust.
Hver voru þau að efast um vilja og gjörðir sonar guðs á jörðu?
Dauðastundin
En sifjaspellið spurðist út og þegar að Alexander fjölskyldan frétti að lögregla væri að hefja rannsókn pökkuðu þau saman og fluttu til Kanaríeyja í febrúar árið 1970. Þegar þarna var komið var hegðun Franks orðin gjörsamlega stjórnlaus og tilkynnti hann að brátt liði að ,,dauðastundinni”.
Samkvæmt kenningum ungmennisins var „dauðastundin” eina leiðin til að tryggja inngöngu kvenna til himnaríkis enda væru allar konur í eðli sínu illar og gegnmengaðar af Satan. Ekki er vitað með vissu hvort þessi kenning var áður til staðar í Lorber söfnuðinum eða uppdiktuð af Frank.
Móður og systrum var sagt að undirbúa sig undir himnaförina.
Ekki er hægt að gera sér í hugarlund hvernig biðin hefur þeim mæðgum verið en fjölskyldan var orðin það heilaþvegin af kenningum sonarins að engum datt í hug að leita hjálpar.
Morð við orgelundirspil
Að morgni 16. desember sat Frank á rúmgafli móður sinnar og fylltist allt í einu stjórnlausri bræði yfir svip hennar. Hann öskraði að henni væri ekki leyfilegt að horfa á sig á þennan hátt og því væri komið að „dauðastundinni”.
Frank hóf að berja móður sína með herðatré og spilaði Harold undir á orgel á meðan. Svo var heilaþvotturinn að þegar að Frank kvartaði yfir að erfitt væri að berja almennilega á móður sinni breytti Dagmar um stellingu svo að Frank ætti auðveldara með misþyrmingarnar. Systurnar Petra og Marina komu inn í stofuna í miðri barsmíð en lyftu ekki hendi til bjargar móður sinni né kölluðu þær á hjálp.
Þær einfaldlega biðu þar til röðin kæmi að þeim.
Þegar Dagmar var látin sneri Frank sér að systrum sínum og hóf að berja þær. Þær veittu enga mótstöðu og Harold spilaði sálma á orgelið þar til báðar dætur hans voru látnar. Þá sótti Frank hníf og skar hina „óhreinu“ hluta af þeim. Margir telja aftur á móti að konurnar þrjár hafi ekki verið látnar þegar að Frank hóf limlestingarnar, enda grannvaxinn og fremur veikburða.
Frank Alexander var 16 ára gamall.
Klaustur og geðsjúkrahús
Skurðirnir voru erfiðari en unglingurinn hafði talið og skiptust því feðgarnir á. Annar skar og negldi á vegg á meðan að hinn spilaði á orgelið. Þegar þeir voru orðnir ánægðir með ,,verkið” hófu þeir að syngja og dansa um íbúðina í gleðivímu yfir að hafa ,,frelsað“ konurnar áður en þeir fóru að sofa.
Feðgarnir sváfu vel áður en þeir fóru heim til læknisins morgunin eftir.
Hvorugur feðganna þótti hæfur til réttarhalda og var þeim komið fyrir á geðsjúkrahúsi. Sabine grátbað um að fá að fylgja bróður sínum og föður en var neitað. Yfirvöld höfðu aldrei lent í öðru eins og vissu ekkert hvað gera skyldi við Sabine, sem tæknilega var ekki sek um eitt eða neitt, og samþykktu því beiðni hennar um klaustuvist. Ekkert er vitað um afdrif Sabine Alexander eftir það.
Enginn veit
Frank og Harald Alexander dvöldu á geðsjúkrahúsi í 18 ár en árið 1990 tókst feðgunum aftur á móti að sleppa og hafa þeir aldrei fundist. Sumir telja að meðlimir Lorber safnaðarins hafi smyglað þeim frá Kanaríeyjum og til Austurríkis en enginn veit með vissu.
Það er kannski ekki svo vitlaus hugmynd að tvítryggja að dyrnar sé örugglega læstar fyrir nóttina í næstu ferð til Tenerife.
Ef feðgarnir eru enn á lífi er Harold 92 ára og Frank 67 ára.