Jón Már Gunnarsson, kvikmyndagerðarmaður, var aðeins fimm ára gamall þegar hann var tekinn af móður sinni og var aðskilinn frá henni í rúman aldarfjórðung. Hann var sendur norður í land til meints föður síns og fjölskyldu hans. Einhver rödd innra með honum gerði það að verkum að hann grunaði alla tíð að hann væri rangfeðraður. Að lokum fóru púslin að raðast saman og sú niðurstaða lá fyrir. Hann hafði þó engar vísbendingar um hver faðir hans var og því tók hann DNA-sjálfspróf úr apóteki upp á von og óvon til þess að freista þess að finna líffræðilegan föður sinn.
Væntingar Jóns Más voru í besta falli hóflegar en ári síðar bárust honum upp úr þurru skilaboð frá konu sem var að öllum líkindum hálfsystir hans. Þá hófst sannkallaður tilfinningarússíbani í lífi Jóns Más sem enn sér ekki fyrir endann á.
Fyrstu árin eins konar þeytivinda hörmunga
Jón Már var alinn upp ásamt elsta bróður sínum af móður sem glímdi við alvarlegan fjölþættan vanda. Vegna erfiðra veikinda sinna hefði öllum átt að vera ljóst að hún gæti ekki haft börn í sinni umsjá en bágborið félagslegt kerfi þess tíma var seint að grípa inn í. Þegar Jón Már var fimm ára gamall voru hann og bróðir hans loks teknir af móður þeirra. Hann segist eiga fáar en sársaukafullar minningar frá þessum tíma þar sem hann var inn og út af stofnunum meðal annars hinni alræmdu Thorvaldsen-vöggustofu sem nú stendur til að rannsaka.
„Aðstæður okkar bræðranna voru afar erfiðar og þegar elsti bróðir minn var fyrst tekinn af móður okkar var það í raun og veru lögreglumál. Kerfið var ekki upp á marga fiska á þessum árum og einhvern veginn töluðu stofnanir þess tíma ekki saman. Þess vegna fékk móðir mín oft að taka okkur bræðurna út úr aðstæðum, sem voru í sumum tilvikum mun betri en hún gat boðið okkur upp á, og setja okkur í einhverskonar þeytivindu hörmunga í ákveðinn tíma áður en við vorum aftur teknir af henni eða hún skilaði okkur á einhverja stofnun,“ segir Jón Már.
Hann fór alls þrisvar sinnum inn á Thorvaldsen vöggustofuna, þar sem börn máttu ekki upplifa faðmlög og hlýju, þar til að hann var endanlega tekinn af móður sinni. Hann vissi ekki þá að 26 ár áttu eftir að líða þar til hann myndi hitta hana að nýju. Hann og bróðir hans voru aðskildir og tæpur áratugur leið þar til þeir hittust aftur. Jón Már var sendur norður í land til fjölskyldu manns sem að móðir hans hafði bent á sem föður hans.
Var alltaf að bíða eftir móður sinni
„Samkvæmt opinberum gögnum var ég ekki feðraður fyrr en um þetta leyti, fimm ára gamall. Það var ekki pabba mínum líkt að gangast ekki við mér þannig að það var alveg ljóst að hann hafði miklar efasemdir um að ég væri líffræðilegur sonur hans. Ég átti fyrst að dvelja hjá þeim tímabundið í einskonar jólafríi og um tíma stóð til að frænka mín myndi ættleiða mig en að lokum ákváðu hann og fósturmóður mín að taka mig að sér,“ segir Jón Már.
Hann var loks kominn í eðlilegt fjölskylduumhverfi og á mun betri stað en áður. Kerfið virtist því ákveða að hann væri kominn í örugga höfn og frekari aðstoð var ekki að fá þrátt fyrir innra með hinum unga dreng hafi kraumað mikil vanlíðan og sársauki.
„Pabbi var sjómaður og var mikið frá vegna vinnu sinnar. Fósturmóðir mín var rétt um tvítugt og ólétt af sínu öðru barni þegar þau taka við mér. Þetta var afskaplega gott fólk sem var að gera sitt besta í erfiðum aðstæðum en ég var svo brotinn eftir þessi fyrstu ár að ég hefði þurft á einhverskonar aðstoð að halda. Frænka mín lýsir því þannig að ég hafi alltaf verið óttasleginn og helst viljað skríða í felur bak við sófa og þar sem ég hristist og skalf.“
Hann segir að þessi nagandi ótti hafi ekki rjátlast af honum með tímanum. „Þessi óútskýrði ótti og kvíðinn sem honum fylgir er rauði þráðurinn í mínu lífi. Ég hef glímt við þetta hingað til og mun kljást við þetta allt mitt líf.“
Þrátt fyrir erfiða reynslu frá fyrstu árum sínum hafi móðurástin verið sterk og segist hafa saknað móður sinnar mjög. „Ég var alltaf að bíða eftir henni og átti alltaf einhvern veginn von á henni þrátt fyrir að vera logandi hræddur. Þessi söknuður var mjög erfiður því stundum varð hann allt af því örvæntingarfullur“.
Taugáfall við óvænt símtal
Jón Már segir að ástand móður hans hafi verið þannig að sennilega hefði verið best ef hann fengi að syrgja hana í friði. Ef þráðurinn hefði fengi að slitna og sárin að gróa. Lífið fyrir norðan hjá föður hans, fósturmóður og þremur uppeldissystkinum gekk sinn vanagang og stundum komu tímar þar sem hann hugsaði ekki til móður sinnar í einhvern tíma. En hann var reglulega minntur á að móðir hans væri þarna úti einhvers staðar og þannig hélt örvæntingarfull biðin, óttinn og tilheyrandi tilfinningarússíbani alltaf áfram.
„Ég hef alltaf verið með mjög fjörugt ímyndunarafl og ég var alltaf að hugsa til mömmu og ímynda mér hvar hún væri. Ég var alltaf minntur á hana því ég fékk af og til bréf, myndir eða gjafir. Það var aldrei reglulegt og því kom þetta mér alltaf óvörum og setti af stað flóð tilfinninga.“
Hann hélt upp á myndirnar af móður sinni og í þessum sendingum fékk hann líka upplýsingar um að hann hafði eignast fleiri systkini. „Ég grandskoðaði þessar myndir og komst að því að þær hefðu verið teknar með að minnsta kosti 2-3 myndavélum. Í mínum huga var það bara efnað fólk sem átti margar myndavélar og þess vegna ímyndaði ég mér alltaf mömmu sem forríka barónessu einhvers staðar í fjarlægu landi,“ segir Jón Már kíminn.
Þegar Jón Már var 11 ára gamall, hringdi skyndilega síminn á heimili hans. Í símanum var móðir hans en þá voru sex ár liðin síðan hann hafði heyrt rödd hennar. „Þetta var alveg upp úr þurru og kom mér gjörsamlega í opna skjöldu. Ég entist bara í nokkrar mínútur í samtalinu. Þá brotnaði ég bara niður og lagðist í gólfið í ekkasogum og jafnaði mig ekki fyrr en ég fékk róandi lyf.“
Skóf botninn í samfélagi fíkla
Jón Már segist ekki hafa haft mikinn áhuga á skólanum eða námi heldur stytti sér stundir í ævintýraheimi huga síns. Hann flosnaði upp úr námi eftir grunnskóla og fór um það leyti að fikta við áfengi til þess að sefa óttann og kvíðann sem grasseraði innra með honum.
„Ég hætti í námi og flyt í burtu frá fjölskyldu minni til þess að vinna í verbúð og þá ágerist ruglið enn þá meira,“ segir Jón Már. Neyslan stigmagnaðist og næstu rúm 15 ár hans einkenndust af gríðarlegri neyslu. „Ég er algjörlega stjórnlaus og brenni allar brýr að baki mér. Ég missi nánast alveg sambandið við fjölskylduna mína og á þessum árum og hætti að heyra í móður minni. Undir það síðasta er ég gjörsamlega farinn að skrapa botninn á þessu neyslusamfélagi,“ segir Jón Már.
Eins og áður segir var Jón Már aðskilinn frá móður sinni í 26 ár, frá 5 ára aldri til 31 árs aldurs. Þá ákvað hann, þrátt fyrir að vera á afar slæmum stað í lífinu, að leita móður sína uppi.
„Sú leit að finna hana var leit inn á við til að sigrast á þessum ótta sem hefur alltaf fylgt mér og hafa samband við hana. Það gaf mér rosalega mikið að hafa hitt hana. Þessa örvæntingu og sorg, sem ég hafði burðast með og var búinn að aftengja, náði ég setja endanlega til hliðar og fá einhverskonar lokun.“
Dáleiðandi að tala við mömmu
Augnablikið þegar Jón Már ákvað að hafa uppi á móður sinni kom á mjög stormasömum tíma í hans lífi. „Ég var kominn út í horn alls staðar og átti í raun bara tvo kosti. Að deyja eða hætta í neyslu.“ Hann segist hafa fundið eitthvað tímabundið skjól frá óttanum og ákveðið að stíga inn í óvissuna.
„Ég fór í tölvu í Kringlunni en á þeim tíma gat maður keypt aðgang að internetinu á kaffihúsi þar. Ég fann hana í þjóðskrá og skrifaði henni bréf um að ég myndi vilja hitta hana ef hún gæti og gaf henni símanúmerið mitt.“
Tveimur dögum síðar hringdi móðir hans í hann og þau mæltu sér mót á heimili hennar.
„Eftir það sem á undan var gengið þá er erfitt að útskýra hversu eðlileg þessi kynni voru. Að hluta til var hún kunnugleg en á sama tíma svo framandi. Það kom mér á óvart ég hvað upplifði mikla ró. Ég varð næstum því syfjaður og fannst eiginlega dáleiðandi að tala loksins við hana.“
Fljótlega eftir fund mæðginanna ákvað Jón Már að hætta í neyslu og fór það til að byrja með á hnefanum. „Það var í raun það vitlausasta sem ég gerði. Ég lenti einhvern veginn á milli tveggja heima, ég get ekki útskýrt það betur. Hausinn virkaði bara öðruvísi. Ég var að lesa einhver skilaboð úr umhverfinu og hugurinn tók mig á skrýtna staði. Ég var í engu jafnvægi, í raun og veru hálfgerðri maníu í heilt ár.“
Hann fór loks í hefðbundna meðferð og næst var förinni heitið á áfangaheimili. Síðan tóku við sálfræðingar og fíkniráðgjafar og nú hefur Jón Már verið edrú í tæpa tvo áratugi. „Ég hafði áður reynt meðferðir en í raun vantaði mig eitthvað til þess að taka við af fíkninni. Ég skellti mér því loks í nám og sökkti mér ofan í það,“ segir Jón Már.
Hann lauk fyrst listnámsbraut og þaðan lá leiðin í Margmiðlunarskólann þar sem hann lærði þrívíddar teiknimyndagerð. Þaðan lá leiðin í Kvikmyndaskólann þar sem öll verkefni hans snerust um myndbrellur. „Ég fann mína fjöl þarna og svo strax eftir skólann fer ég að vinna við myndbrellur,“ segir Jón Már.
Fjöruga ímyndunaraflið sem gerði móður hans að ríkri barónessu í æsku nýttist svo sannarlega í þessum geira. „Ég er eiginlega einskonar þúsundþjalasmiður í þessum bransa og kann afskaplega vel við mig á þessum fjölbreytta og skapandi umhverfi. Ég hef mestan áhuga á myndbrellum en annars sinni ég allskonar verkefnum sem tengjast kvikmyndum og auglýsingum.“
Rakst á ókunnugan bróður á sveitaballi
Stóra verkefnið í lífi Jóns Más síðasta áratug hefur verið að púsla saman fjölskyldu sinni, brot fyrir brot. Móðir hans átti alls fimm börn og í honum hefur alltaf blundað sú þrá að kynnast þeim nánar. Hann vissi af þeim öllum, aðallega í gegnum bréf og myndir frá móður hans, og því hafði hann lengi hugsað til þeirra allra.
„Ég og bróðir minn sem vorum teknir af henni á sama tíma hittumst aftur níu árum síðar og það var eins og að hitta einhvern vin eða ættingja sem maður hefur ekki séð lengi. Við tókum bara upp þráðinn sem frá var horfið,“ segir Jón Már. Annan bróður sinn hitti hann svo fyrir tilviljun á sveitaballi nærri Húsavík.
„Það voru einhverjar stelpur sem vissu af því að ég ætti einhver systkini sem ég þekkti ekki og þær komust að því að þessi maður sem var þarna staddur væri í sömu stöðu og lögðu saman tvo og tvo. Það urðu þarna fagnaðarfundir milli okkar bræðranna og það var alveg æðisleg stund,“ segir Jón Már og brosir. Hann vissi síðan af systur í Færeyjum auk þess sem hann komst að því að annar bróðir hans, sem er mikill heimshornaflakkari, væri nú búsettur í Filippseyjum þar sem hann hafði gifst þarlendri konu.
Móðir Jóns Más lést árið 2013 en þá var liðinn áratugur frá endurfundum þeirra og þau höfðu verið í nokkru sambandi síðan þá. Við undirbúning útfararinnar kynntist hann loks systur sinni. „Móðir mín var búsett í Færeyjum um nokkra ára skeið. Eftir andlát hennar kom systir mín og hjálpaði mér að ganga frá útför hennar. Þá kynntumst við og náðum vel saman,“ segir Jón Már. Bróðir hans fluttist svo frá Filippseyjum til Íslands fyrir fyrir rúmu ári ásamt eiginkonu sinni og þá var hringnum á móðurhliðinni lokað. Hann hafði haft upp á öllum þeim ættboga.
„Ég er sá eini af þessum sammæðra systkinum sem hef náð að hitta öll hin þó sum þeirra hafi hist innbyrðis. Núna erum við að skipuleggja fjölskylduhitting í sumar og þá verðum við öll sameinuð í fyrsta skipti á sama stað.“
Ekkert skyldur bróður sínum
Ein stærsta spurningin sem hefur brunnið á Jóni Má lengi er hver væri líffræðilegur faðir hans er. Hann segist alltaf hafa grunað að hann væri ekki réttfeðraður. „Það er einhver rödd búin að hvísla þessu að mér síðan ég er krakki. Ég heyrði foreldra mína hafa þetta í flimtingum, að þau ættu ekkert í mér. Ég átti ekkert að heyra þetta en spurði þau út í þetta og þau töluðu sig út úr því.“
Ýmis önnur púsl söfnuðust saman í gegnum árin, ekki síst ýmislegt sem kom ekki saman í erfðafræðinni enda voru þeir feðgar mjög ólíkir útlitslega. Jón Már náði þó aldrei að spyrja föður sinn sinn beint út um uppruna sinn en hann féll frá árið 2012. Við andlát móður Jóns Más, ári síðar, fékk hann svo aðgang að enn meiri gögnum, til að mynda frá Borgarskjalasafni og barnavernd þar sem ýmis púsl fóru að raðast saman.
„Ég gekk mjög langt í að leita og um tíma var þetta orðin pínulítil þráhyggja. Ég reyndi að finna út hvar móðir mín hafði búið þegar ég kom undir og fór síðan að leita í gömlum kirkjubókum og leita allra leiða,“ segir Jón Már.
Allt kom þó fyrir ekki og um tíma virtust öll sund lokuð.
Þá komu skyndilega til sögunnar svokölluð Myheritage DNA-sjálfspróf sem hægt er að kaupa í apótekum hérlendis. Jón Már tók slíkt próf árið 2020 og fékk niðurstöður sem að sannfærðu hann enn meira um að hann væri rangfeðraður.
„Ég fór þá til uppeldisbróður míns og bað hann um að taka slíkt próf líka því mér leist ekkert á blikuna. Þegar niðurstaðan barst kom í ljós að við værum ekki bræður. Við vorum ekki einu sinni fjarskyldir.“
Skilaboðin sem breyttu öll
Jón Már var engu nær um uppruna sinn en allt breyttist svo þegar hann fékk óvænt skilaboð í gegnum Myheritage-forritið sem sér um að tengja fólk sem er skylt saman..
„Ég veit ekki alveg hvað skal segja. En við erum skyld meira heldur en minna, DNA segir það allavegana. Með kveðju, Sigurleif“.
Um var að ræða Sigurleif Kristínu Sigurþórsdóttur, sem Jón Már kallar Stínu. Hún hafði tekið Myheritage-próf að áeggjan unglingsdóttur sinnar sem var forvitin um ættfræði og hvort að fjölskyldan væri frá einhverjum framandi stöðum. Þegar Jón Már fór að skoða málið betur kom í ljós að Sigurleif var að öllum líkindum hálfsystir hans.
„Þegar ég átta mig á því þá er eiginlega eins og fótunum sé kippt undan mér. Ég sef eiginlega ekki fyrstu dagana á eftir. Ég upplifi alveg rosalega gleði en að sama skapi treysti ég þessu ekki alveg og er að leita að öllum hugsanlegum villum. Eina nóttina þegar ég er andvaka sendi ég meira að segja póst á Kára Stefánsson með spurningum um ættfræði. Hann svaraði því nú sem betur fer aldrei,“ segir Jón Már og skellihlær.
Nú skyndilega var lausn gátunnar um uppruna hans, sem hann hafði glímt svo lengi við, innan seilingar.
Biðin mikið kvíðatímabil
Eins og gefur að skilja var ekki síður um talsvert áfall að ræða hjá Sigurleif og fjölskyldu hennar. Faðir hennar, Sigurþór, átti fjórar dætur en ein þeirra var því miður fallin frá. Það voru því talsverð viðbrigði að fá þau tíðindi, eins og þrumu úr heiðskíru lofti, að þær systurnar áttu bróður.
„Ég var auðvitað stressaður yfir því hvernig þau öll tækju þessu enda stórt og viðkvæmt mál. Þær hittust systurnar, Sigurleif, Sunna Karen og Valdís, og ræddu málin og ákváðu að taka málið lengra. Þær gerðu þetta ofboðslega vel og fagmannlega með mikilli virðingu fyrir öllum sem að þessu stóðu,“ segir Jón Már og er augljóslega þakklátur.
Sigurþór þurfti eðli málsins samkvæmt að melta tíðindin um tíma og rifja upp liðna tíð. Að endingu hittust þeir, hinir meintu feðgar, og síðan var ákveðið að gulltryggja niðurstöðuna með að fara í DNA-próf hjá DeCode.
„Biðin eftir þeirri niðurstöðu var eitt rosalegasta kvíðatímabil í mínu lífi. Mér fannst ég hafa valdið miklum usla hjá þessari fjölskyldu og ef að í ljós kæmi að þetta væri bara misskilningur þá vissi ég ekki hvernig ég ætti að höndla það. Átti ég bara að þakka fyrir mig, biðjast afsökunar og kveðja?“
Að endingu reyndust slíkar áhyggjur óþarfar. DNA-prófið staðfesti að Sigurþór var faðir Jóns Más. Eftir áratuga leit hafði Jón Már fundið föður sinn.
Fann loksins sinn sess
„Það er erfitt að lýsa því en ég upplifði einhvern veginn strax að þetta er mitt fólk. Það er einhver sameiginlegur óútskýranlegur kjarni sem ég fann fyrir. Ég tengdi strax við þennan mikla húmor sem er í þessari fjölskyldu og ekki síst hvað þau eru rosalega hrekkjótt,“ segir Jón Már og brosir breitt.
Þegar upp var staðið hafði hann auk föður síns fundið átta blóðskyld systkini auk þess sem hann á enn að þrjú uppeldissystkini sín og fósturmóður.
„Uppeldisfjölskylda mín hefur stutt mig í þessu ferli og fósturmóðir mín hefur mjög gaman af þessu og fylgst vel með. Ég á núna orðið ansi stóran hóp systkina, heilt fótboltalið með þjálfara og það liggur við að maður sé farinn að kvíða jólagjafakaupum,“ segir Jón Már glettinn.
Hann segist ætla að taka sér góðan tíma að kynnast systrum sínum í rólegheitunum og reyni að skipuleggja kaffibolla með þeim hér og þar. „Það eru allir svo uppteknir að það er hægara sagt en gert en við höfum nægan tíma til þess að kynnast. Núna legg ég aðaláherslu á að kynnast föður mínum.“
Þeir feðgar hafa smollið vel saman og Jón Már verður meyr þegar hann ræðir samband þeirra.
„Ég er ofboðslega þakklátur fyrir hvað þau hafa tekið mér öll opnum örmum og þá hann sérstaklega. Ég kíki alltaf á hann í vinnuna einu sinni í viku og hann hringir reglulega í mig að upplýsa mig hvað sé að gerast í fjölskyldunni. Þá hefur tékkað á mér þegar ég er veikur og svona.“
Fyrir stuttu síðan fór Jón Már í heimsókn í vinnu föður síns. „Við settumst niður að spjalla og þá benti hann upp á vegg og sagði í gríni: „Ertu búinn að sjá þennan ljóta þarna?“. Mér varð þá litið upp og þar sá ég hanga mynd af mér í ramma í kringum af dætrum hans,“ segir Jón Már og beygir næstum af við frásögnina. Eftir leitina af systkinum sínum og föður í öll þessi ár hafði hann loks fundið sinn sess.