Björn Hólmþórsson, einn af stofnendum hollenska fjártæknifyrirtækisins Five Degrees, hefur sett höllina sína á Arnarnesinu í Garðabænum á sölu en um er að ræða afar glæsilegt 367 fermetra einbýlishús.
Einbýlishúsið er staðsett á á 1.671 fermetra eignarlóð með útsýni. Samkvæmt lýsingu eignarinnar á Fasteignaleitinni er mikil lofthæð í öllu húsinu en innihurðir í því eru 2,35 metrar á hæð. Gólfefni hússins eru annars vegar vandaðar granítflísar en hins vegar gegnheilt Yberaro parket. Tvö baðherbergi eru í húsinu og fjögur svefnherbergi.
Ljóst er að hægt er að hafa það virkilega huggulegt í húsinu þar sem í því er spa aðstaða með heitum potti og góðri sturtu. Í stofunni er svo að finna granítlagðann arinn en útgengt er á svalir úr stofunni.
Eignin er sett á 220 milljónir króna, fermetraverðið á því ásetta verði er tæplega 600 þúsund. Á Fasteignaleitinni er hægt að sjá fyrri kaupverð á eignum sem eru til sölu en Björn keypti sína eign samkvæmt þeim upplýsingum á 86.500.000 krónur í apríl árið 2012. Var það nokkuð undir fasteignamatinu sem þá var 90.850.000 krónur.
Í dag er fasteignamat eignarinnar 144.700.000 og er ásett verð því töluvert yfir því – sem er nokkuð algengt á fasteignamarkaðnum í dag.
Myndir af eigninni má sjá hér fyrir neðan en nánari upplýsingar og fleiri myndir er hægt að finna á Fasteignaleitinni.