fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Fókus

Þöglu tvíburasysturnar – Önnur þurfti að deyja til að hin gæti lifað

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Fimmtudaginn 21. apríl 2022 19:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

June og Jennifer fæddust í apríl 1963, dætur Gloriu og Aubrey Gibbons, innflytjendum frá Barbados sem höfðu flutt til Bretlands. Strax á fyrsta árinu tóku hjónin eftir að dætur þeirra voru öðruvísi en önnur börn. Þær voru óaðskiljanlegar, sýndu engan áhuga á öðru fólki og þegar þær byrjuð að tala töluðu þær eigið tungumál sín á milli. Þær mynduðu engin tengsl nema hvor við aðra. 

Strax í bernsku voru tvíburarnir ólikir öðrum börnum

Erfið skólavist

Þegar tvíburarnir byrjuðu í skóla neituðu þær að læra, útilokuðu umheiminn og varð tungumál þeirra sífellt óskiljanlegra. Þær töluðu aðeins hvor við aðra, hreyfðu sig í fullkomnum takti og ef einhver leit á þær eða reyndi að tala við þær, frusu þær í sporunum og hreyfðu hvorki legg né lið fyrr en viðkomandi var farinn. Skólavistin var þeim reyndar erfið þar sem þær voru einu nemendurnir í skólanum í heimabæ sínum sem ekki voru hvítir á hörund og þurftu þær að þola mikið áreiti vegna þess.

Árið 1976 kom læknir í skólann til að bólusetja nemendur. Hegðun þöglu tvíburanna vakti áhuga hans og hafði hann samband við barnasálfræðing. Sálfræðingurinn stakk upp á að þær færu til talmeinafræðings sem lýsti yfir að tungumál þeirra væri blanda af mállýsku frá Barbados og ensku slangri sem talað væri mjög hratt. Stelpurnar fóru á milli sálfræðinga, geðlækna og sérkennara en aldrei kom svo mikið sem eitt orð upp úr þeim né breyttist hegðun þeirra.

Andsetin

Árið 1977 voru þær í meðferð hjá talmeinafræðingum Ann Treharn og þögðu þær að venju. Ann átti síðar eftir að lýsa hvernig hún hafi skynjað að June vildi tala en væri hrædd við Jennifer systur sína sem sat teinrétt og svipbrigðalaus. ,,Nærvera Jennifer var ólýsanlega sterk og það var eins og June væri andsetinn af systur sinni sem stjórnaði hverju hennar orði og gjörðum,” sagði Ann. Jennifer öfundaði aftur á móti alltaf June fyrir að vera fædda tíu mínútum á undan og sagði June síðar að hún hefði alltaf verið hrædd um að Jennifer myndi drepa hana. 

Tvíburasysturnar á unglingsaldri

Það var tekin sú ákvörðun að aðskilja systurnar í von um að það myndi hjálpa til við að fá þær til að hegða sér sem sjálfstæðir einstaklingar og byrja að tjá sig. Þær voru settar á sitt hvora stofnunina en  tvíburasysturnar drógu sig aftur á móti báðar alveg inn í skel sína, töluðu aldrei og hættu jafnvel að hreyfa sig. Einn morguninn þurfti meira að segja hóp manna við að ná June úr rúminu sem lá eins og planki og óttaðist fólk að hún væri komin með stjarfaklofa. 

Of erfitt

Eftir tveggja ára aðskilnað voru systurnar sameinaðar aftur og hurfu alfarið inn í sinn eigin heim. Skólaganga var ekki lengur inni í myndinni en einhvern vegin náðu þær að læra að lesa og skrifa, tvær einar í herberginu. Þær töluðu ekki einu sinni lengur við foreldra sína, þess í stað tjáðu þær sig aðeins með bréfaskrifum. Gloria mátti ekki stíga fæti inn í herbergi dætra sinna heldur skildi hún bakka með mat fyrir utan hurðina og tók þá þau bréf sem þær höfðu skilið eftir. Þær léku sér við dúkkur og bjuggu til eigin ævintýri sem þær tóku upp á kasettutæki og spiluðu aftur og aftur.

June sagði í viðtali árið 2000 að þær hefðu haft ákveðna siði. ,,Við fórum á hnén og báðum guð um að fyrirgefa okkur syndir okkar. Við báðum í margar klukkustundir. Við báðum um hjálp við að tjá okkur við foreldra okkar svo við hættum að særa þau. Við gátum það ekki. Hún var ég og ég var hún. Það var erfitt. Of erfitt.“  

Jennifer er til vinstri á myndinn og June til hægri.

Skrifin

Ein jólin gáfu foreldrar þeirra þeim dagbækur í von um að þær myndu tjá sig frekar. Systurnar fengu ástríðu fyrir skrifum og skrifuð bók eftir bók, fullar af ævintýrum og furðusögum. Þær skráðu sig meira að segja í bréfaskóla sem kenndi skapandi skrif. Þær nurluðu saman hverjum eyri sem þær komust yfir og fóru sjálfar að að reyna að gefa út bækur sínar í gegnum útgáfufyrirtæki sem þáði fé fyrir útgáfuna auk þess að fá höfundarréttinn að launum. En handrit tvíburanna ollu mörgum áhyggjum. Þau gerðust flest í Bandaríkjunum og fjölluðu um ungt og fallegt fólk sem framdi hræðilega glæpi. Aðeins ein þeirra var samþykkt til útgáfu, ,,The Pepsi-Cola Addict“.

Glæpaferill

Þegar tvíburarnir voru 18 ára voru þær orðnar leiðar á að sitja í herberginu sínu og skrifa bara um glæpi. Þær byrjuðu að fikta við eiturlyf og áfengi og frömdu saman smáglæpi, einna helst íkveikjur. Hegðun þeirra var sífellt ofbeldisfyllri, einnig gagnvart hvor annarri, og mun June hafa reynt að drekkja Jennifer sem aftur á móti reyndi að kyrkja June. Blaðamaðurinn Marjorie Wallace heyrði af tvíburunum og fékk leyfi foreldra þeirra til að heimsækja þær. Hún varð heilluð að þöglu tvíburunum sem áttu heilt herbergi af eigin verkum sem sýndu hversu ríkt ímyndunarafl þær höfðu þrátt fyrir einveru og þögn. 

Marjoire Wallace

Að því kom að tvíburarnir kveiktu í skóla sem ölli miklum skemmdum auk þess sem mannslíf voru í hættu. Yfirvöld fengu nóg og handtóku þær en fljótlega eftir handtökuna var þeim komið fyrir á hinu fræga Broadmoor geðsjúkrahúsi. 

Tólf löng ár

Læknarnir á sjúkrahúsinu höfðu enga þolinmæði fyrir hegðun stúlknanna og dældu í þær lyfjum, reyndar svo miklum að Jennifer missti næstum sjónina. En ekkert gat breytt hegðun þeirra og í tólf löng ár dvöldu þær í þögn á geðsjúkrahúsinu og skrifuðu og skrifuðu. Þær skrifuðu hundruðir dagbóka, smásagna og leikrita. Þær skrifuðu einnig til yfirvalda og jafnvel drottningarinnar í von um að verða sleppt, án árangurs. 

Allan tímann hélt Marjorie áfram að heimsækja þær, hún var heilluð af þeim og skrifum þeirra. Hún var þess fullviss að sá dagur myndi koma að henni tækist að fá þær til að tala við sig og með þrautseigjunni fóru systurnar að treysta henni, tala við hana og jafnvel leyfa að lesa dagbækur sínar. ,,Þær þráðu að verða viðurkenndar sem rithöfundar og öðlast frægð fyrir skrif sín,” sagði Marjorie síðar. ,,Mér líkaði alltaf vel við þær, þær höfðu þurran en skemmtilegan húmor og hlógu meira að segja einstöku sinnum ef ég sagði þeim sérstaklega góðan brandara.”

Myrkur og hatur

En Marjorie skynjaði líka myrkrið í tvíburasystrunum. Í dagbókunum kom fram að June fannst Jennifer ráða yfir sálu sinni og kallaði hún systur sína ,,dökka skuggan”. Í dagbókum Jennifer kom aftur á móti fram að hún leit á þær systur sem erkióvini og væri June í hennar huga ímynd ömurleika, blekkinga og dauða. Þrátt fyrir hin sterku tengsl sem bundu stúlkurnar saman virtust þær hafa innbyggt hatur hvor á annarri. Eins og talmeinafræðingurinn mörgum árum áður, fannst Marjorie eins og að June vildi tala meira en þagnaði aftur á móti alltaf eftir merki frá Jennifer. Marjorie skynjaði það sífellt sterkara eftir því sem árin liðu að June þráði að aðskilja sig frá systur sinni. En hún gat það einfaldlega ekki. 

Marjorie með systrunum nokkrum vikum fyrir andlát Jennifer

,,Ég þarf að deyja“

Árið 1993 var tilkynnt að systurnar yrðu færðar á geðsjúkrahús í Wales. Það voru gleðitíðindi því sú stofnun var nálægt fjölskyldu þeirra og bauð upp á mun minni gæslu og meira ferðafrelsi. Nokkrum vikum fyrir flutninginn heimsótti Marjorie þær og var hissa að sjá að verðir þurftu að bera þær á börum inn í heimsóknarsalinn því þær neituðu að hreyfa sig.

Þær settust að lokum hjá Marjorie og gjóuðu augum hvor á aðra þar til Jennifer tilkynnti allt í einu að hún þyrfti að deyja. Saman hefðu systurnar tekið þá ákvörðun að Jennifer þyrfti að deyja til að June gæti lifað. June sat aftur á móti þögul.  Marjorie tók því sem gríni og sagði að það væri af og frá, þær væru ungar og hraustar að hefja nýtt líf sem gæti verið undanfari frelsis. En alvaran í fari þeirra vakti áhyggur hjá  Marjorie sem sagði læknum þeirra frá yfirlýsingunni. Læknarnir sögðu enga ástæðu til að hafa áhyggjur, það væri vel fylgst með þeim.

Gibbons tvíburarnir

Loksins komnar út

Einn morgun í marsmánuði sama ár kom bíll að sækja systurnar og flytja þær á nýja heimilið. Jennifer sagðist ekki líða vel og þegar það var ekið frá Broadmoor lagði hún hönd á öxl June og sagði að loksins væru þær komnar út. Því næst lagði hún höfuðið upp að systur sinn og féll í dá. Við komuna til Wales var Jennifer Gibbons úrskurðuð látin, 29 ára að aldri. Aldrei tókst að finna út hvað hefði orðið Jennifer að aldurtila, hjarta hennar hafði einfaldlega hætt að slá og var dauði hennar skráður af náttúrulegum orsökum. Sumir vilja meina að öll lyfin sem pumpað var í þær i Broadmoor hefði veikt hjarta Jennifer en á móti kemur að June fékk nákvæmlega sömu lyfjaskammta en var fullkomlega heilbrigð.

June var sturluð af sorg eftir lát systur sinnar og skrifaði ljóð sem sett var á grafstein Jennifer.

Við vorum tvær/ Við tvær vorum ein/ Við erum ekki lengur tvær/ Í lífinu verður ein/ Hvíl í friði

Frelsið

Við lát Jennifer byrjaði June allt í að tala og varð hegðun hennar fullkomlega eðlileg. Henni var sleppt af geðsjúkrahúsi árið 1994 og flutti hún í íbúð og fékk sér vinnu. Hún útskýrði umbreytinguna með að segja að þær systur hefðu komist sameiginlega að þeirri niðurstöðu að saman yrðu þær aldrei frjálsar, önnur þyrfti að deyja til að hin gæti átt líf.

Jennifer hefði frelsað hana. 

June Gibbons náði að skapa sér nýtt líf

June hætti aftur á móti skrifunum og varð aldrei sá rithöfundur sem þær hafði dreymt um. Þegar að Marjorie spurði hana nokkrum árum síðar af hverju hún hefði hætt að skrifa svaraði June því til að hún hefði ekki þörf fyrir að skrifa lengur. Nú gæti hún talað. 

June býr enn í Wales. Hún leggur blómvönd á leiði systur sinnar í hverri viku. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Manst þú eftir 12 ára stelpunni sem sló í gegn í America‘s Got Talent – Svona lítur hún út í dag

Manst þú eftir 12 ára stelpunni sem sló í gegn í America‘s Got Talent – Svona lítur hún út í dag
Fókus
Fyrir 3 dögum

Einstök vinátta ferfætlinganna Gríms og Tomma gleður „grindvíska flóttamenn“ sem óðum koma sér fyrir í Kópavogi

Einstök vinátta ferfætlinganna Gríms og Tomma gleður „grindvíska flóttamenn“ sem óðum koma sér fyrir í Kópavogi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Anna Svava ljóstrar upp hvar hún fékk kjólinn sem vakti svona mikla athygli – „Ég er heltekin af þessu dressi“

Anna Svava ljóstrar upp hvar hún fékk kjólinn sem vakti svona mikla athygli – „Ég er heltekin af þessu dressi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Enginn mistilteinn en djúsí koss við jólatréð“

Vikan á Instagram – „Enginn mistilteinn en djúsí koss við jólatréð“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Blake Lively kærir Baldoni fyrir kynferðislega áreitni á tökustað – Vildi ekki fleiri kynlífsatriði

Blake Lively kærir Baldoni fyrir kynferðislega áreitni á tökustað – Vildi ekki fleiri kynlífsatriði
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ofuraðdáandi Swift – Mætti á 22 tónleika Eras Tour og eyddi 14 milljónum

Ofuraðdáandi Swift – Mætti á 22 tónleika Eras Tour og eyddi 14 milljónum
Fókus
Fyrir 6 dögum

Þetta pöntuðu Íslendingar sér á Wolt á árinu – Dýrasta pöntunin kostaði 136 þúsund

Þetta pöntuðu Íslendingar sér á Wolt á árinu – Dýrasta pöntunin kostaði 136 þúsund
Fókus
Fyrir 6 dögum

Kolbrún syrgir bróður sinn

Kolbrún syrgir bróður sinn