fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Fókus

Stórhýsið varð að grafhýsi þeirra – Sorgarsaga bræðranna sem aldrei vildu skiljast að

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 16. apríl 2022 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í hjarta Harlem hverfis í New York, er að finna einn minnsta almenningsgarð borgarinnar. Þar eru tveir bekkir, nokkrar pottaplöntur og tré og á girðingunni stendur nafn garðsins, ,,Collyer Brothers Park”. New York er morandi í slíkum smágörðum en það sem kannski gerir þennan garð merkilegri en aðra er makalaus saga bræðranna sem garðurinn er skírður eftir.

Lík Homers fjarlægt úr húsi bræðranna.

Rotnunarfnykurinn

Þann 21. mars 1947 fékk lögregla nafnlaust símtal frá manni sem sagði rotnunarfnyk liggja frá niðurníddu stórhýsi við Fifth Avenue. Lögreglan vissi að sitthvað furðulegt var að finna innan veggja hússins, þótt ekki væri vitað nákvæmlega hvað, og sendi tafarlaust mannskap á staðinn.

Lögreglumönnum tókst þó ekki sinni að komast inn í húsið í fyrstu tilraun. Allir gluggar voru með járnrimlum, enga dyrabjöllu að finna og anddyri hússins svp smekkfullt af rusli og gömlum dagblöðum frá gólfi til lofts að útilokað var að komast inn. Á endanum var gripið til þess ráðs að klifra upp á aðra hæð til að brjóta glugga og opna leið inn. Það tók fimm klukkutíma að grafa í gegnum drasl og óhreinindi þar til lík Homers Collyer, annars tveggja íbúa hússins, fannst.

Homer hafði soltið í hel og verið látinn í um það bil 10 klukkutíma þegar hann fannst.

Risastór húsið var fullt af drasli.

Aftur á móti var hvergi að finna bróður hans og sambýling til fjölda ára, Langley Collyer. Lögreglu grunaði að Langley hefði svelt bróður sinn í hel, hringt á lögregluna til að tilkynna lát hans og flúið borgina. Þrátt fyrir lögregluleit í hvorki meira né minna en 9 fylkjum fannst Langley Collyer ekki.

Algjör einangrun

Homer og Langley Collyer voru fæddir 1881 og 1885 inn í þekkta og virta auðmannafjölskyldu, synir kvensjúkdómalæknis og fyrrverandi óperusöngkonu. Þegar bræðurnir voru á barnsaldri flutti fjölskyldan í stórhýsið við Fifth Avenue þar sem þeir áttu eftir að búa alla ævi.

Langley Collier

Læknirinn faðir þeirra þótti sérvitur og eftir því sem bræðurnir uxu úr grasi úr þeir sífellt sérlundaðri sjálfir. Foreldrar þeirra skildu árið 1919 og bræðurnir, sem aldrei höfðu flutt að heiman, hvað þá verið við kvenmann kenndir, héldu áfram að búa hjá móður sinni. Faðir þeirra lést 1926 og skyldi eftir sig öll lækningatæki og tól, sem bræðurnir komu fyrir í húsinu. Þegar móðir þeirra lést þremur árum síðar urðu bræðurnir einir eftir í stórhýsinu. Fyrstu árin áttu bræðurnir nokkuð eðlilegt líf, umgengust vini og kenndu í sunnudagaskóla. Homer var lögfræðingur og Langley var menntaður verkfræðingur en hafði lifibrauð af því að kaupa og selja píanó. Hann þótti einnig magnaður konsertpíanisti.

Eina ljósmyndin sem vitað er til af Homer Collyer.

Bræðurnir voru afar hræddir við breytingar sem voru að verða í Harlem eftir kreppu. Fátækara fólk en áður hafði þekkst flutti í hverfið og af ótta við rán tóku þeir upp á að negla fyrir alla glugga.

Homer fékk slag og missti sjónina árið 1933 og tók Langley að sér að hugsa um bróður sinn. Einangruðu bræðurnir sig þá algjörlega frá umheiminum.

Geðheilsunni hrakar

Báðir neituðu þeir alfarið að leita læknis eða fá aðstoð inn á heimilið og smám saman misstu bræðurnir geðheilsuna í einverunni, sérstaklega Langley. Hann geymdi og raðaði vandlega upp hverju einasta dagblaði fyrir Homer að lesa þegar hann fengi sjónina aftur. Hann var þess nefnilega fullviss að mataræði upp á rúgbrauð og hnetusmjör og 100 appelsínur á viku myndi lækna blindu bróður síns.

Langley las einnig heimsbókmenntirnar fyrir Homer heilu og hálfu næturnar auk þess að spila sónötur meistaranna á píanó. Eftir að bræðurnir lokuðu sig meira af, því forvitnari urðu borgarbúar og smám saman fóru að spinnast sögur um að innan veggja hússins væri að finna gríðarlegt ríkidæmi. Gengu sögur um að bræðurnir hefðu safnað að sér gulli og gersemum frá Austurlöndum. Bræðurnir höfðu vissulega sankað að sér en ekki var um að ræða austurlenska ævintýragripi heldur alls kyns dót og drasl sem Langley notaði til að búa til eigin uppfinningar á við ryksugu til að þrífa píanó að innan og gamlan TFord sem hann breytti í rafstöð. Hann setti gildrur út um allt húsið til að verjast hugsanlegum innbrotsþjófum og fór aðeins út á næturnar til að sækja mat sem hann stal oft úr ruslafötum matvöruverslana og veitingahúsa. Hann fann alls kyns drasl á þessu næturrölti, dót á við gamlar barnakerrur, ryðguð hjól, brotnar hljómplötur og annað slíkt sem hann tók með sér heim. Smám saman varð hið risastóra hús að einkennilegu völundarhúsi í gegnum ruslið og sváfu bræðurnir í bælum sem þeir höfðu gert sér á gólfinu.

Leitarmaður við ein göngin sem Langley útbjó.

Nóg af fé

Bræðurnir höfðu engar tekjur og höfðu hætt að borga alla reikninga fljótlega eftir að þeir lokuðu sig af. Var húsið því bæði án rafmagns og hita. Þeir héldu á sér hita með olíulömpum og sótti Langley vatn í almenningsgarða borgarinnar á næturnar. Samt sem áður höfðu þeir merkilega mikið fé handa á milli. Þegar nágrannar byrjuðu að góna yfir til þeirra keyptu þeir eignina einfaldlega af grönnunum og greiddu fyrir með reiðufé. Og þegar að bankinn hótaði að ganga að eigninni vegna vangreidds húsnæðisláns beið Langley fulltrúa bankans í garðinum og greiddi upp veðlánið, einnig í reiðufé.

Ruslið tók yfir margar götur í nágrenninu.

Ekki kom sjónin til Homers þrátt fyrir appelsínurnar og rúgbrauðið. Þess í stað hrakaði heilsu hann enn frekar og lamaðist hann að lokum af völdum heiftarlegrar gigtveiki. Þannig liðu árin hjá bræðrunum.

Yfir tvö þúsund manns söfnuðust saman og fylgdust með yfirvöldum moka út úr húsinu næstu daga og vikur. Tugþúsundir dagblaða, fjöldi píanóa og jafnvel röntgenmyndavél voru borin út úr húsinu. Allt í allt var um að ræða 120 tonn sem fjarlægð voru en það er meira en steypireyður vegur.

Lamaður og blindur í einverunni

Eftir tæpar þrjár vikur af hreinsunarstarfi fundust líkamsleifar Langley Collyer. Þrátt fyrir viðamikla leit um Bandaríkin hafði hann legið aðeins þrjá metra frá bróður sínum, grafinn undir yfirgengilegu magni rusls. Það var álitið að hann hefði látist um það bil tveimur vikum á undan Homer og hafi það verið lyktin af hans líki sem varð tilefni til símhringingarinnar til lögreglu. Langley hafði gengið í eina af eigin gildrum sem hafði ollið flóði bóka, kassa og dagblaða sem kæfðu hann. Við hlið hans fundust matarleifar og að öllum líkindum var Langley að færa Homer mat þegar hann gekk i eigin gildru. Homer lést úr hungri tæpur tveimur vikum síðar, lamaður og blindur í einverunni, ófær um að finna leið út úr völundarhúsinu.

Alls voru 120 tonn af rusli tæmd úr húsinu.

Húsið var dæmt óíbúðarhæft og það rifið. Þess í stað var byggður lítill almenningsgarður.

Sagan af bræðrunum breyttist smám saman í hálfgerða þjóðsögu og til áratuga hótuðu foreldrar í New York börnum sem ekki vildu taka til að þau yrðu eins og Collyer bræðurnir. Og enn þann dag í dag kalla slökkviliðsmenn í borginni hús full af drasli ,,Collyer hús”. Í dag er bræðranna sérkennilegu og dapurlegra örlaga þeirra minnst með hlýju og var garðurinn þar sem hús þeirra stóð nefndur í höfuð þeim.

Collyer garðurinn

Það var ekki fyrr en 2013 að söfnunaráttan sem eflaust plagaði Langley, og hugsanlega Homer, var opinberlega skilgreind sem geðröskun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Manst þú eftir 12 ára stelpunni sem sló í gegn í America‘s Got Talent – Svona lítur hún út í dag

Manst þú eftir 12 ára stelpunni sem sló í gegn í America‘s Got Talent – Svona lítur hún út í dag
Fókus
Fyrir 3 dögum

Einstök vinátta ferfætlinganna Gríms og Tomma gleður „grindvíska flóttamenn“ sem óðum koma sér fyrir í Kópavogi

Einstök vinátta ferfætlinganna Gríms og Tomma gleður „grindvíska flóttamenn“ sem óðum koma sér fyrir í Kópavogi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Anna Svava ljóstrar upp hvar hún fékk kjólinn sem vakti svona mikla athygli – „Ég er heltekin af þessu dressi“

Anna Svava ljóstrar upp hvar hún fékk kjólinn sem vakti svona mikla athygli – „Ég er heltekin af þessu dressi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Enginn mistilteinn en djúsí koss við jólatréð“

Vikan á Instagram – „Enginn mistilteinn en djúsí koss við jólatréð“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Blake Lively kærir Baldoni fyrir kynferðislega áreitni á tökustað – Vildi ekki fleiri kynlífsatriði

Blake Lively kærir Baldoni fyrir kynferðislega áreitni á tökustað – Vildi ekki fleiri kynlífsatriði
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ofuraðdáandi Swift – Mætti á 22 tónleika Eras Tour og eyddi 14 milljónum

Ofuraðdáandi Swift – Mætti á 22 tónleika Eras Tour og eyddi 14 milljónum
Fókus
Fyrir 6 dögum

Þetta pöntuðu Íslendingar sér á Wolt á árinu – Dýrasta pöntunin kostaði 136 þúsund

Þetta pöntuðu Íslendingar sér á Wolt á árinu – Dýrasta pöntunin kostaði 136 þúsund
Fókus
Fyrir 6 dögum

Kolbrún syrgir bróður sinn

Kolbrún syrgir bróður sinn