fbpx
Fimmtudagur 16.janúar 2025
Fókus

Dóra Björt þótti of hress – ,,Mér leið eins og karlmenn væru jafnvel hræddir við mig“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 10. apríl 2022 09:00

Dóra Björt Mynd/Sigrtyggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

,,Síðastliðin fjögur ár hafa verið trylltur tími í lífinu, bæði pólitískt og persónulega. Það er ekki tvennu saman að líkja. Það er svo magnað hvað lífið getur breyst hratt, “ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík sem gengur til kosningar kasólétt og ástfangin.

,,Mér líður eins og þetta hafi verið tíu ár.  Ég var einhleyp og barnlaus þegar ég bauð mig fram í borgarstjórn, komandi  úr hálfgerðum stúdentaveruleika. Þetta hefur verið eldskírn sem ég hef lært mikið af en að mörgu leyti erfið ár og á tímabili spurði ég mig jafnvel hvort þetta væri þess virði.” 

Frá ungmenni í fullvaxta manneskju

Áður en Dóra Björt fór á fullt í borgarpólitíkina bjó hún í Noregi í sjö ár, nam heimspeki og alþjóðafræði og var meðal annars framkvæmdastjóri Stúdentaþings Oslóarháskóla.  Hún ætlaði aldrei að koma heim, var í sambúð og leið þar vel enda segist hún vera með djúpstæða ást á landinu sem oft sé grínast með.

Dóra Björt
Mynd/Linda Björk Sigurðardóttir

,,Ég lærði svo mikið af þessu blessaða landi sem hefur svo mikla ást á lýðræðinu. Gagnsæi, réttlætisást og jafnræði eiga svo djúpar rætur í norsku þjóðarsálinni og það er merkilegt hvað það var hversdagslegt fyrir Norðmönnum að hugsa á þann hátt. Ég mótaðist svo mikið í Noregi, þar fór ég úr því að verða ungmenni og í að vera fullvaxta manneskja. Að búa ein í útlöndum og standa á eigin fótum er ekkert grín og ég varð að finna út úr hlutunum sjálf án aðstoðar frá fjölskyldu eða vinum. Ég þurfti að læra hluti eins og að beita verkfærum og losa vaskstíflur og ýmislegt praktískt sem var þroskandi og gerði mér mjög gott.” 

Þetta var galið

Hún segist hafa farið að sjá Ísland í öðru ljósi, kannski með gestsauga, og áttað sig á því að víða væru brotalamir á Íslandi. ,,Þá er ég ekki bara að tala um lög og reglur heldur einnig hvernig við sem þjóð hugsum og hegðum okkur. Brestina hvað varðar lýðræði, gagnsæi. Og mér blöskraði frændhyglin. Að manneskja með menntun og gagnlega reynslu gæti ekki treyst því að fá vinnu á eigin verðleikum? Það gerði mig reiða og pirraða og kveikti í mér einhvern réttlætiseld.”

Dóra segir sig hafa klæjað í fingurna og byrjaði hún því að skrifa í blöðin í von um að strá fræjum breytinga.  ,,Ég fékk góð viðbrögð við greinunum en vildi ekki blanda mér of mikið í þetta enda var ég ekki á heimleið. En kláðinn var orðinn óþægilegur og þegar Panamaskjölin komu fram árið 2016 og afhjúpuðu hversu djúpstæður vandinn var þrátt fyrir ákveðnar breytingar eftir hrun brotnaði bara eitthvað inni í mér. Þetta var galið, æðstu ráðamenn þjóðarinnar voru með allt sitt í rugli en héldu að þeir væru ósnertanlegir. Það var þungbært að fylgjast með þessu og mér leið eins og Ísland væri villta vestrið án siðferðisreglna þar sem ekkert væri heilagt.”

Boðað var til kosninga og Dóra Björt hélt heim á leið og átti ekki eftir að snúa aftur til Noregs. 

Skrifað í skýin

,,Ég hafði aldrei verið hluti af flokki á Íslandi og sá meira fyrir mér einhvers konar akademíska nálgun að stjórnmálum. Ég hafði reyndar fylgst með Pírötum úr fjarska vegna áherslu þeirra á lýðræði, gagnsæi og spillingu og ætlaði að hjálpa til við kosningabaráttu þeirra í tvo mánuði. Ég átti sambýlismann úti og þar beið mín framtíð. En þetta hreif mig með sér. Það var bæði erfitt og sársaukafullt að yfirgefa það líf sem ég hafði byggt upp í Noregi en innst inni vissi ég samt að ég hafði valið rétt. Það tók kannski svolítið langan tíma að komast þangað sem ég er í dag en núna veit ég að þetta var alltaf í kortunum.”

Við myndun nýs meirihluta árið 2018

Dóra var opin fyrir að upplifa hlutina, fór til Brussel að vinna fyrir Evrópuþingmann og var komin í borgarstjórn Reykjavíkur árið 2018. ,,Þar var kominn ákveðinn farvegur í lífinu, möguleiki til að hafa áhrif og nýta þekkingu og krafta á jákvæðan hátt. Mér fannst eins þetta hefði verið skrifað í skýin.”

Braggamálið

Dóra Björt var varla stigin inn fyrir dyr á Ráðhúsinu þegar hún fékk hið víðfræga Braggamál í fangið, rennblaut á bak við eyrun. ,,Það var erfitt og krefjandi en ég gat beitt aðhaldi innan frá og tryggt að á þessu væri tekið á réttan hátt. Afleiðingin er sú umbylting á stjórnkerfinu sem síðan hefur verið gerð. Þetta var yfirþyrmandi og ábyrgðin mikil en ég er fegin að hafa getað verið til staðar til að stoppa í þessi göt, það er oft ansi mikill saumaskapur í pólitíkinni. Við Píratar opnuðum okkur upp á gátt, vorum alltaf tilbúin til svara en áreitið var auðvitað mjög mikið.” 

Mikið af gagnrýni

Dóra Björt telur sig vera eina úr stórum hópi metnaðarfullra kvenna sem  leggja mikið á sig til að fá ytri viðurkenningu og klapp á bakið til að upplifa sig nógu góðar. Þetta hafi hjá henni byggt á lágu innra sjálfsmati. 

Dóra Björt Guðjónsdóttir, Mynd/Sigtryggur Ari

,,Þetta lága sjálfsmat hafði aldrei verið vandamál fyrir mig, mér hafði gengið vel í námi og náð árangri í því sem ég var að gera. Þau skilaboð sem ég fékk frá umhverfi mínu voru að ég væri að gera rétt og væri nógu góð. Svo kom ég í þetta umhverfi þar sem það var ekkert slíkt. Það klappar þér enginn á bakið, þú verður að gera það sjálf, en þú færð aftur á móti mikið af gagnrýni og færð alltaf að heyra af krafti ef eitthvað má betur fara.” 

Leið verulega illa

Dóra segir þennan tíma hafa verið sér erfiðan og á tímabili hafi hún þurft að taka tilfinningar sínar úr sambandi til að fúnkera. ,,En þú getur ekki tekið bara sumar tilfinningar úr sambandi, þú lokar á bæði jákvæðar og neikvæðar tilfinningar. Ég held að ég hafi fengið vott af þunglyndi á þessum tíma og mér leið verulega illa. Ég hugsaði með mér hvort það væri þess virði að leggja þetta allt á mig því þessi vinna er algjörlega sturluð. Þetta hafði aftur á móti takmörkuð áhrif á störf mín. Ég vissi að ég var að ná árangri, en það voru stöðug skilaboð um að vera ekki að gera nógu vel. Ég vissi ekki hvort það væri skynsamlegt að halda áfram og stóð frammi fyrir þeirri ákvörðun að segja þetta annað hvort gott og finna hamingjuna í öðru eða að taka til í mínum málum til að hafa von um að halda áfram.” 

Hreinsunareldur

Dóra Björt ræddi þetta við sitt nánasta fólk sem margt hvert hvatti hana til að velja heilsuna og hætta. Hún vildi aftur á móti láta reyna á breytingar til að geta átt valið sjálf.

Dóra Björt og Sævar
Mynd/Linda Björk Sigurðardóttir

,,Ég fór í mikla sjálfsvinnu, fór að hugleiða reglulega og njóta náttúrunnar. Ég fór að passa betur upp á svefninn því ég var komin í vítahring svefnleysis og kvíða og gat lítið sofið á tímabili. Ég bjó mér til heilandi rútínu, gjarnan með að hefja daginn með hreinsandi sellerísafa og tilfinningadagbók og svo oft stuttri hreyfingu og nærandi smoothie. Stundum gerði ég bara sumt af þessu og stundum ekkert en það er dýrmætt að hafa rammann.”

Dóra Björt segir að kannski megi segja að hún hafi farið í gegnum hreinsunareld. ,,Ég fór líka að ganga til sálfræðings sem ég hafði reyndar gert áður. Ég mæli með fyrir alla að fara til sálfræðings og er alltaf að hvetja fólk til þess. Það eru fordómar að það þurfi að vera langt leidd til að leita sér hjálpar, við höfum öll okkar bagga og stundum þarf ekki mikið til að einhverjir boltar fari að rúlla og hamli lífsgæðum. Við erum öll svo mögnuð og það er svo sorglegt þegar fólk nær ekki að blómstra því það veit ekki af því.” 

Dóra Björt setti heilsu sína og hamingju í forgang. ,,Það er ekki nóg að skila árangri í vinnu ef líðanin er ömurleg. Það er ekki þess virði og gengur ekki upp til lengdar. “

ADHD er ofurkraftur

Í vegferð sinni fór Dóra Björt að spyrja sjálfa sig af hverju hún væri með þetta lága sjálfsmat og fann út að hún væri með ADHD. ,,ADHD er ofurkraftur þótt það sé alltaf talað um það sem kvilla. Mér hafði aftur á móti alltaf tekist flest vel og gengið vel í námi og þá sendir samfélagið þau skilaboð að það geti ekki verið um ADHD að ræða. En í meðferðinni og ferlinu öllu sá ég líf mitt teiknast upp eins og landakort þar sem augnablikin í lífi mínu röðuðust upp eins og hjá týpískri ADHD konu.

Dóra Björt og Sævar. Mynd/Facebook

Lága sjálfsmatið og ADHD eru nátengd fyrirbæri og það var ákveðin frelsun að sjá það og fá meiri samúð innra með mér með hvernig ég er. Ég vil meina að ég sé komin á þann stað sem ég er meðal annars út af því að ég er með ADHD og því með  þessa ofureinbeitingu sem er svo ótrúlega dýrmæt þegar á þarf að halda. Þessa hvatvísi, þor að taka áhættu og allt það dæmi. Þetta eru ótrúlega magnaðir og jákvæðir hlutir en auðvitað innan ákveðinna marka. En þessu fylgja neikvæð skilaboð frá samfélaginu; þú hefur of hátt, ert með of mikil læti, of hvatvís, tekur of mikið pláss. Það er ADHD blinda gagnvart konum og  ég var lögð í einelti af kennurum mínum, fékk ekki stuðning og var því að burðast með bagga sem hafa takmarkað mig og látið mér líða illa í allskonar aðstæðum. Það eru til svo margar svona sögur, óháð ADHD, innan skólakerfisins. Það þarf að byggja fólk upp í stað þess að brjóta það niður.”

Tók of mikið pláss

Dóra Björt fékk að heyra frá kennurum að hún væri of hress, tæki of mikið pláss og truflaði aðra. ,,Ég gat ekki einbeitt mér í tíma en kláraði allt heima. Jú, ég truflaði stundum aðra en ég held að það hafi verið ótrúlega gaman að vera með mér í tíma!”  Aftur á móti segir Dóra Björt samfélagið reyna að kæfa slíka hegðun. ,,Ég gerði það sem margar ADHD konur gera, að búa til grímur og leiðir til að fúnkera og fela það mesta. Ég var með innri stjórnenda sem dempaði mig því ég var að fá þessi skilaboð um að ég væri of hispurslaus því samfélagið vill að þú sért þæg kona. Þetta er sjálfsbjargarviðleitni sem er hluti af ADHD og þessu lága sjálfsmati og þeim takmörkunum sem þú byggir upp.”

Dóra Björt Guðjónsdóttir, Mynd/Sigtryggur Ari

Hún segir að aftur móti komi þessi innri takmarkandi í veg fyrir að unnt sé að skína sem persóna. ,,Þegar ég upplifði mig í öruggum aðstæðum, eins og ég var í Noregi og MH, gat ég leyft hugmyndunum að flæða. En svo kom ég heim í byrðar íslenska samfélagsins og inn í borgarstjórn, sem er að mörgu leyti kassalaga stofnun. Og ég var ekki bara með ADHD, ég var líka ung kona, yngst í ábyrðarstöðu og sögulega yngsti forseti borgarstjórnar sem er virðingarstaða,” segir Dóra Björt en hún tók við sætinu á þrítugsafmæli sínu, þann 19. júní 2018. 

Það virðist vel við hæfi að hún eigi afmæli á kvenréttindadaginn. 

Pepp og ást

,,Vandinn er ekki einstaklingar með ADHD, vandinn er samfélagið sem er að reyna að berja þá niður. Við verðum að skapa fleiri tækifæri til að vera allskonar því annars erum við að missa af sköpunarkrafti, hugmyndum og auðlindum. Það held ég allavega!” 

,,Öll þessi vegferð hefur sumsé leitt mig á þann stað að ég sveiflast ekki lengur jafn mikið með ytri áhrifum og fæ þá staðfestu sem ég þarf innan frá. Það er auðvitað dagamunur en ég er komin á allt annan stað með minni öfgum í tilfinningalífinu. Ég er hætt að vera jafn háð klappi á bakið en er því duglegri að gefa sjálfri mér innri stuðning, pepp og ást. Ég er alltaf að æfa mig í því.”

Sjörnuduft og töfrar

Dóra Björt kom upp úr versta kafinu haustið 2020 og hitti á sama tíma stóru ástina í lífi sínu, Sævar Ólafsson. ,,Ég var sáttari við mig á þessum tíma og leið vel í eigin skinni. Ég þurfti ekki á neinum að halda og var búin að sætta mig við það hlutskipti að verða kannski bara ein og hafði ekki miklar áhyggjur af því. Ég þurfti engan til að fylla upp í eitthvað tómarúm því það var svo margt fallegt í lífi mínu. Og þá kom hann. 

Dóra Björt Guðjónsdóttir, Mynd/Sigtryggur Ari

Þetta kemur þegar þú síst átt von á því og ert ekki að leita of mikið. Auðvitað þarftu að vera opin en ég var ekki að leita mér að kærasta til að fylla upp í eitthvað tómarúm. Ég var í góðu sambandi úti í sex ár og hélt að ég myndi aldrei finna svoleiðis ást aftur og reyndar búin að sætta mig við það. En svo kom eitthvað svo mikið meira, stjörnuduft og töfrar.” 

Þúsund hlutir í hausnum

Dóra Björt segist alltaf þurfa að minna sjálfa sig á að sleppa og treysta og leyfa hlutunum að gerast. Þora að taka áhættuna þrátt fyrir fyrri særindi. ,,Það hefur verið stór hluti af minni þroskasögu í gegnum þessi ár, hlutirnir bara gerast og það eina sem ég hef getað gert er að treysta innsæinu. Og það hefur kannski verið minn sterkasti vegvísir í lífinu. Það var minn versti tími þegar ég var búin að kippa innsæinu úr tengslum við líf mitt og hausinn farinn að stjórna öllu. Það var það sem gerði fyrsta eina og hálfa árið í borgarstjórn svo erfitt, hjartað og tilfinningarnar voru orðin svolítið aftengd og ég þurfti að ná þeim tengslum aftur til að geta tekið réttar ákvarðanir fyrir mig.”

,,Ég var með þúsund hluti í hausnum sem færðu rök fyrir að við Sævar ættum ekki að byrja saman en ég var sem betur fer komin á þann stað að ég hlustaði á þessar hugsanir en leyfði þeim svo bara að fljóta í burtu. Einu, eða jafnvel hálfu, ári áður hefði ég leyft hausnum að ráða því ég var á vondum stað og ekki í tengslum við sjálfa mig. 

Átakalaust

Dóra var allt í einu komin með barn, stjúpson sinn, og segir að einhvern tíma hefði hún talið of flókið að verða hluti af þannig fjölskyldu. ,,Ef ég hefði hefði leyft hausnum að ráða hefði ég kannski ekki fengið að njóta þess að vera hluti af þessari fjölskyldu með honum og með barn sem er að fara að fæðast, hamingjusamari en nokkurn tíma áður. Þetta hefur verið svo átakalaust.”

Dóra Björt
Mynd: Aðsend

Dóra Björt segir þau Sævar gefa hvort öðru svigrúm innan sambandsins til að vera þau sjálf. ,,Hann kann að meta að ég er sjálfstæð og sterk og honum finnst það svo fallegt við mig. Ég hafði talað við einstaklinga áður en ég hitti hann, einstaklinga sem stóð ógn af mér að ég var oddviti í meirihluta í borgarstjórn og fóru kannski í samanburð við mig. Mér leið eins og karlmenn væru jafnvel hræddir við mig þótt ég sé voða góð og blíð manneskja jafnframt því að vera sterk því ég hef margar hliðar. En með Sævari þurfti ég ekki að þykjast vera annað en ég er eða minnka mig til að hans sjálfsmynd biði ekki hnekki. Það hafði verið staðan í sumum samskiptum sem ég hafði átt í áður og þess vegna var ég farin að trúa því að ég yrði alltaf ein, að þetta væri bara ómögulegt og ég hræddi alla í burtu. 

Sævar er stoltur af mér og finnst minn styrkur vera kynþokkafullur en ekki eitthvað sem dregur úr honum. Það er svo gaman hjá okkur, hann er svo skemmtilegur og umhyggjusamur og við lærum hvort af öðru.” 

Kynntust á Tinder

Þau kynntust á Tinder og byrjuðu strax á netspjalli sem gat staðið klukkutímum saman. ,,Við vorum orðin hrifin hvort af öðru áður en við hittumst. Það var gott að við vorum búin að tala saman á Tinder því mér fannst hann svo asnalega myndarlegur, nákvæmlega eins og á myndunum sem er alls ekki alltaf í þessum deitheimi. Ég hefði örugglega aldrei þorað að tala við hann nema af því vorum búin að kynnast í netspjalli. Ekki gat ég snúið við í hurðinni, ég varð að setjast niður í smástund þar til hann fattaði að hann vildi ekkert með mig hafa og þá væri þessu lokið. Talandi um lágt sjálfsmat! En svo beið okkar bara framtíðin. Það er kannski klisja en við erum sálufélagar, tengslin voru strax svo sterk.”

Lifi í hjartanu

Litli píratinn er áætlaður í heiminn 1. maí, tveimur vikum fyrir kosningar. Aðspurð hvernig sé að standa í kosningabaráttu á steypinum segist Dóra Björt taka hverjum degi og njóta brimbrotanna. Hún hafi verið heppin með heilsuna og þakklát fyrir það.

Dóra Björt og Sævar
Mynd/Linda Björk Sigurðardóttir

,,Væri ég enn í ofstjórnunarham væri þetta erfiðara. Þetta verður auðvitað áskorun en ég er heppin með baklandið mitt og Sævar er tilbúinn að feta veginn með mér. Ég verð að sníða stakk eftir vexti og sjá hvað er hægt. Ég vona það besta en er undirbúin undir það versta. Ég get ekki stjórnað þessu, veit ekki hvernig þetta verður en ég er bjartsýn að eðlisfari, kannski einum of stundum en stefni að því að gera eins og ég get, sleppa og treysta á að allt verði eins og það á að vera. 

Ég verð að lifa í hjartanu og vinna út frá því. Láta vaða, ekki bíða eftir rétta augnablikinu. Eina augnablikið sem skiptir máli er augnablikið núna. Annars missir þú af lífinu,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Jakob Reynir skilur vel að fjölskyldan hafi lokað á hann tímabundið – „Ég var búinn að ræna fyrirtæki hans pabba“

Jakob Reynir skilur vel að fjölskyldan hafi lokað á hann tímabundið – „Ég var búinn að ræna fyrirtæki hans pabba“
Fókus
Í gær

Bianca Censori og Penélope Cruz stigu saman munúðarfullan dans – Myndband

Bianca Censori og Penélope Cruz stigu saman munúðarfullan dans – Myndband
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þetta voru vinsælustu kynlífstækin árið 2024 – Leitin að G-blettinum heldur áfram

Þetta voru vinsælustu kynlífstækin árið 2024 – Leitin að G-blettinum heldur áfram
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn um reiða manninn í ræktinni: „Þá bara öskrar hann, við erum að tala um í anddyrinu í World Class Laugum klukkan þrjú“

Þorsteinn um reiða manninn í ræktinni: „Þá bara öskrar hann, við erum að tala um í anddyrinu í World Class Laugum klukkan þrjú“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vikan á Instagram – „Guð blessi Breiðholtið“

Vikan á Instagram – „Guð blessi Breiðholtið“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kona segist hafa séð geimskip fyrir utan Mosfellsbæ – Svona leit það út

Kona segist hafa séð geimskip fyrir utan Mosfellsbæ – Svona leit það út
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vinurinn tárast yfir bakstursþætti

Vinurinn tárast yfir bakstursþætti
Fókus
Fyrir 3 dögum

20 bestu streymisveiturnar – Ert þú með réttu áskriftirnar?

20 bestu streymisveiturnar – Ert þú með réttu áskriftirnar?