Þann 1. maí 1947 keypti hin 23 ára gamla Evelyn McHale miða á útsýnispallinn á 86. hæð Empire State byggingarinnar.
Þegar upp var komið gekk hún rólega að handriðinu við brún pallsins, fór úr kápunni, braut hana saman og lagði frá sér ásamt umslagi. Því næst klífraði hún yfir handriðið og stökk.
Fjórum mínútum síðar tók ungur ljósmyndanemi, Robert C. Wiles, eina af frægustu ljósmyndum sögunnar. Hún birtist fyrst í LIFE tímaritunu 12 dögum síðar og vakti strax gríðarlega athygli. Ljósmyndin gengur undir nafninu ,,The Most Beautiful Suicide”, og hefur gripið fólk í 75 ár. Á myndinni sést Evelyn liggja á límósínunni sem hún lenti á, friðsæl, með krosslagða fætur, hvíta hanska og aðra höndina um perlufesti sína. Það er sem hún sofi í málmbrakinu.
Bréfið var stílað á systur Evelyn og í því stóð:
,,Ég vil ekki að neinn úr fjölskyldunni sjái mig. Er unnt að eyða líkama mínum með brennslu? Ég bið þig og fjölskyldu mína — ég vil hvorki jarðarför né minningarathöfn. Unnusti minn bað mig um að giftast sér í júní. Ég held að ég verði engum góð eiginkona. Hann er miklu betur staddur án mín. Segið föður mínum að það sé of mikið af móður minni í mér.”
Enga nánari skýringu á sjálfsvíginu var að finna í bréfinu.
Evelyn
Hver var Evelyn McHale og hvað varð til þess að hún kaus að enda líf sitt á þennan átakanlega hátt?
Evelyn var fædd í Kaliforníu, sjötta af átta börnum Helen og Vincent McHale. Helen mun hafa þjáðst af geðsjúkdómum og skildu foreldrar hennar um 1930. Vincent flutti með öll börnin til New York en ekki er vitað um afdrif Helen.
Evelyn bjó hjá bróður sínum og mágkonu og starfaði sem bókhaldari í litlu iðnfyrirtæki. Þar hitti hún ungan háskólanema að nafni Barry Rhodes, tókust með þeim ástir og voru þau búin að skipuleggja brúðkaup sitt í júní þetta sama ár. Barry minntist síðar brúðkaups bróður síns en þar hafði Evelyn verið brúðarmær.
Hafði hún rifið af sér brúðarmeyjakjólinn í miklu uppnámi og sagst aldrei vilja sjá hann aftur. ,,Hún var með einhverjar kjánalegar áhyggjur af því að vera ekki nógu góð til að vera eiginkona mín. Ég hélt að ég gæti talað hana frá þeirri vitleysu,” sagði Barry síðar við blaðamenn.
Daginn fyrir atburðinn hafði Evelyn heimsótt unnusta sinn til að fagna 24 ára afmæli hans. Þau kysstust bless þegar hún hljóp af stað að ná lestinni og sá Barry engin merki þess sem koma skildi.
Enginn veit hvað rak Evelyn til að taka eigið líf þennan morgun. Óskir hennar voru virtar, hún var brennd og hvorki var um að ræða jarðarför né minningarathöfn. Aska hennar var lögð í ómerkta gröf. En eins mikið og Evelyn frábað sér athygli mun minning hennar lifa að eilífu í ljósmyndinni sem enn fangar fólk og hefur orðið fjölda listamanna andagift svo áratugum saman.