fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Skelfilegur glæpur varð brandari í fjölmiðlum – Sökuð um að skipuleggja eigið mannrán

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Mánudaginn 28. mars 2022 22:00

Matthew Muller til vinstri og Denise Huskins og Aaron Quinn til hægri. Mynd/Solano County Sheriff’s Office/YouTube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 23. mars 2015 tilkynnti Aaron Quinn lögreglu í bænum Valljeo í Kaliforníu um hvarf unnustu sinnar, Denise Huskins, 29 ára. Aaron hafði magnaða sögu að segja. Hann sagði svartklæddan mann hafa brotist inn á heimili þeirra um nóttina og bundið þau bæði, vopnaður byssu með laser miði. Aaron sagði manninn hafa sett á þau hlífðargleraugu með svartmáluðum linsum og spilað upptöku með kröfu um lausnargjald upp á 17.000 dollara fyrir lausn Denise. Því næst neyddi hann Aaron til að taka róandi lyf og missti hann fljótlega meðvitund. Þegar hann rankaði við sér voru bæði maðurinn og Denise horfin.

Lögreglan í Vallejo hafði aldrei heyrt jafnlélega lygasögu og var viss um að Aaron bæri ábyrgð á hvarfi Denise og jafnvel dauða. Aaron þvertók fyrir það, hélt fast við sögu sína, en kolféll á lygaprófi. Staðfesti það grun lögreglu sem var fullviss um að Aaron hefði myrt unnustu sína og lagði hart að honum að játa glæpinn. Aaron var yfirheyrður stanslaust í 18 klukkustundir.

Frá lögfræðingi til nauðgara

Aaron var miður sín og sagðist ekki hafa skaðað Denise. Grátbað hann lögreglu um að trúa sér en án árangurs. Aaron var reyndar að segja satt og rétt frá, atburðarásin hafði verið nákvæmlega eins og hann lýsti og svartklæddi maðurinn var hinn 44 ára Matthew Muller. Muller átti nokkuð merkilega sögu að baki. Hann hafði farið í bandaríska sjóherinn strax að námi loknu og þaðan í Harvard og útskrifast lögfræðigráðu. Muller starfaði sem lögfræðingur í mörg ár með innflytjendalög sem sérsvið. Geðheilsu hans hafði aftur á móti hrakað í gegnum árin og má að öllum líkindum telja það ástæðuna fyrir glæpaferli lögfræðingsins fyrrverandi. 

Denise var hjálparvana í höndum Muller, bundin við rúm, með svörtu hlífðargleraugun sem útilokuðu alla sýn.  Muller nauðgaði Denise tvisvar á meðan hann hélt henni fanginni og sagðist hafa myndað árásirnar. Kvaðst hann ætla að nota þær til að kúga Denise til hlýðni þegar hann væri búinn að sleppa henni. 

Aaron og Denise.
Mynd/Facebook.

Gone Girl

Daginn eftir fékk blaðamaður í bænum dularfullan tölvupóst. Sendandinn sagðist vera ræningi Denise og myndi hann sleppa henni ómeiddri daginn eftir. Ennfremur sagði í tölvupóstinum að um æfingu hefði verið að ræða, raunverulegu fórnarlömbin væru Hollywood stjörnur. Það væri nefnilega unnt að krefja mun hærri upphæða í lausnargjald fyrir þær. Lögreglan vissi ekki almennilega hvað skyldi halda um tölvupóstinn, sem auðvitað var frá Muller, en fór að gruna að mannránið væri í raun blekkingarleikur af hálfu Denise.   

Muller stóð við orð sín og sleppti Denise daginn eftir rétt við hús móður hennar. Hún var ekki fyrr búin að hringja á lögreglu en hún var handtekin og ákærð fyrir uppdiktað mannrán. Lögreglan hélt blaðamannafund þar sem lögreglumaðurinn Matthew Mustard var harðorður í garð parsins sem hann kvaðst hafa sóað fjármunum og kröftum lögreglu með lygasögu um mannrán. Mustard endaði blaðamannafundinn á að segja að Aaron og Denise skulduðu samfélaginu risastóra afsökunarbeiðni. Sama dag lak til fjölmiðla sú kenning lögregluyfirvalda að um væri að ræða svikabrellu svipaðri þeirri sem metsölubókin ,,Gone Girl” fjallar um. Í skáldsögunni segir frá sögupersónunni Amy sem sviðsetur eigið mannrán til að hefna sig á eiginmanni sínum. Fjölmiðlafólki fannst þessi kenning lögreglunnar bráðfyndin og fjótlega var ránið á Denise orðið að brandara í fjölmiðlum. 

Talin vera glæpahyski 

Aaron og Denise var aftur á móti ekki skemmt. Ekki aðeins hafði Denise þurft að ganga i gegnum skelfilega lífsreynslu hefur stóð hún, ásam Aaron, í þokkabóti frammi fyrir alvarlegum ákærum. Lögreglan yfirheyrði þau klukkustundum saman og reyndi að etja þeim hvort gegn öðru með að lofa því þeirra friðhelgi sem fyrst segði sannleikann. Aaron og Denise, bæði vel metnir sjúkraþjálfarar, misstu vinnuna og fengu hvergi aðra, enginn vildi ráða þetta glæpahyski til starfa. Denise þurfti að þola að vera ítrekað skipað að hætta að ljúga um nauðganir og kynferðisofbeldi en játa þess í stað glæpi sína. 

Þannig liðu þrír erfiðir mánuðir fyrir parið. Staðan breyttist þann 5. júní þegar að grímuklæddur maður, vopnaður byssu með laser miði, réðst inn á heimili Chung Yen og hótaði að myrða dóttur hans ef hann hlýddi ekki. Eiginkona Yen náði að læsa sig inni á salerni og hringdi á lögreglu. Árásarmanninum brá við það og notaði Yen tækifærið til að berja hann í höfuðið með vasaljósi og rífa af honum grímuna. Eftir nokkrar stympingar flúði árásarmaðurinn en sími hans varð eftir á stofugólfi Yen.

Aaron og Denise eru gift.
Mynd/Facebook.

Það tók ekki langan tíma að finna eiganda símans sem reyndist vera maður að nafni Matthew Muller og var hann umsvifalaust handtekinn. Það kom lögreglu mjög á óvart að við leit á heimili hans fannst margt sem tengdi hann við ránssögu Denise Huskins. Þeir fundu upptökurnar sem Aaron hafði sagt þeim frá, byssu með laser miði og hlífðargleraugu með svartmálaðar linsur. 

Lögreglan fann líka upptökur af Muller nauðga Denise. 

Málalok

Matthew Muller fékk 40 ára fangelsisdóm fyrir mannrán og hefur Denise krafist þess að einnig verði réttað yfir honum fyrir kynferðisofbeldið. Það mun þó að öllum líkindum aldrei gerast þar sem yfirvöld hafa komist að þeirri niðurstöðu að Muller sé of veikur á geði til að unnt sé að rétta yfir honum. Hann er vistaður á viðeigandi stofnun og mun aldrei verða sleppt.

Denise og Aaron eru gift í dag og eiga þau dóttur. Þau fóru í mál við lögregluna í Vallejo sem greiddi þeim tvær og hálfa milljón dollara í skaðabætur fyrir framkomuna. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár