fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Lá föst í rústum World Trade Center í 27 klukkustundir – Genelle var bjargað af engli

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Föstudaginn 25. mars 2022 22:00

Genelle var síðust allra að komast lifandi úr eyðileggingu World Trade Center. Myndir/Getty og guideposts.org

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Genelle Guzman-McMillan fæddist í Trinidad og Tobago, eitt níu barna hjóna frá Venesúela. Eftir háskólanám ákvað hún að reyna að láta drauma sína rætast með því að flytja til stórborgarinnar New York.  Genelle elskaði borgina og sá fyrir sér með hinum ýmsu láglaunastörfum áður en hún datt í lukkupottinn og fékk starf á skrifstofu hafnarmála í borginni. Hún elskaði nýju vinnuna sína og eignaðist fjölda vina á skrifstofunni.

Genelle flutti til New York til að láta drauma sína rætast.
Mynd/ Cheryll Clark Ministries

Skrifstofan var á 64. hæð í Norðurturni World Trade Center, sem alls var 110 hæðir.

Eldtungur sleiktu himininn

Þann 11. september árið 2001 stimplaði hin, þá þrítuga, Genelle sig inn í vinnu um áttaleytið. Hún lagaði kaffi handa mannskapnum ásamt Rosu vinkonu sinni, og bjó sig undir ofuvenjulegan þriðjudag. En þessi dagur var allt annar en venjulegur.

Turnarnir í mars 2001. Hryðjuverkaárásin á þá var í september sama ár. Mynd/Wikipedia

Klukkan 8:46 fann Genelle fyrir hristingi sem hún tengdi strax við jarðskjálfta sem hún þekkti vel frá heimaeyju sinni. Hvað annað gat hugsanlega hrist eina af stærstu byggingum New York? Genelle og samstarfsmenn litu út um glugga í leit að skýringu. En eldtungur sleiktu himininn og pappi og brak komu í veg fyrir nokkra sýn að viti. Genelle vissi ekki hvað skyldi halda.

Það sem hún vissi ekki þá var að hryðjuverkamenn höfðu stýrt flugvél á turninn og lenti hún á milli hæða 93 til 99. 

Í kjölfarið kom tilkynning í frá öryggiskerfi hússins sem bað alla um að halda sig á sínum stað en gaf engar nánari upplýsingar. Svo vildi til að nokkrum dögum áður hafði verið haldin neyðaræfing í byggingunni og fólki var í fersku minni viðvörunarkerfi sem fóru þá í gang. Aftur á móti fóru enginn þeirra núna í gang og því var Genelle nokkuð róleg

Því má ekki gleyma að árið 2001 var internetið enn á bernskustigi, fáar fréttasíður og langtum hægari tengingar en þekkjast í dag. Sama mátti segja um farsíma, þeir höfðu takmarkað samband, og enn voru nokkur ár í net og myndavélar í símum. Því vissi því hópurinn ekki hvað gekk á fyrr en þau kveiktu á sjónvarpi þar sem þau sáu reykmökkinn leika um bygginguna. Enn vissi enginn nákvæmlega hvað hafði gerst. 

Hæð eftir hæð, hönd i hönd

Flestir af samstarfsmönnum Genelle hlýddu því ekki og yfirgáfu bygginguna. Aðeins fimmtán urðu eftir, þar á meðal Genelle og Rosa, sem ákváðu að hlýða fyrirmælunum og bíða eftir nánari upplýsingum. Tilkynningar um að halda sér á sínum stað héldu áfram að heyrast frá öryggiskerfinu. Hjálp væri á leiðinni. Genelle hringdi í Roger, kærasta sinn, sem hvatti hana til að koma sér út hið fyrsta og var hún óviss um hvað skyldi gera. En sautján mínútum síðar, klukkan 9:03, hristist byggingin aftur. Þá hafði önnur vél flogið á Suðurturninn og lent á hæðum 77 til 85. Genelle og samstarfsmenn hennar ákváðu í sameiningu að hundsa fyrirmælin og flýja bygginguna. Engin af lyftunum var lengur í lagi og tók hópurinn á það ráð fara niður stigana, allar 64 hæðirnar.

Genelle og Rosa tókust í hendur og byrjuðu að hlaupa. Þær töldu hverja hæð, 47, 42, 30, 22….Hönd í hönd voru þær vinkonur þess fullvissar að þær væru aðeins nokkrum mínútum frá því að komast út úr byggingunni. 

Á þrettándu hæð þoldi Genelle ekki lengur við vegna sársauka í fótum og stoppaði til að fara úr háu hælunum. Nákvæmlega á sömu sekúndu hrundi turninn. Við tók algjört myrkur. Hönd Rosu var horfin. Genelle gat sig hvergi hreyft, með mölbrotin fót og illa brennd, föst á milli tveggja steypustólpa. 

Genelle átti eftir að vera föst í rústunum í 27 klukkustundir. 

Hún er síðasta manneskjan sem bjargað var eftir hryðjuverkaárásirnar á New York þann 11. september 2001.  

Engillinn

Genelle þurfti langa spíalavist.
Mynd/People.com-PAUL CHIASSON/AP

Genelle sá ekkert nema myrkrið og fylltist örvæntingu.  Þögnin var algjör fyrir utan brestina í súlunum sem gátu hrunið á hverri stundu og kramið hana til bana. Hún hugsaði til mömmu sinnar og hvað sú dugnaðarkona myndi gera í hennar sporum. Mamma myndi biðja. Og Genelle, sem var algjörlega trúlaus, hóf að tala við guð. Hún bað guð um að hjálp, um kraftaverk. Genelle talaði við guð klukkustund eftir klukkustund. Hún missti sjónar á tímanum, föst í svartnættinu.

En allt í einu heyrði hún mannsrödd og fann hönd snerta sig. ,,Hann sagðist heita Paul, ávarpaði mig með nafni, og sagði mér að gefast ekki upp, hjálp væri á leiðinni,” sagði hún síðar. ,,Í hvert skipti sem hann tók í hönd mína fann ég frið og von.”

Björgunarsveitir náðu Genelle fljótlega úr rústunum. Enginn annar var á lífi. Rosa og allir samstarfsmennirnir voru látin. Áverkar Genelle voru gríðarlegir. Hún var með innvortis meiðsli, beinbrotin, brennd og með alvarlegan vökvaskort. Björgunarmenn Genelle komu á spítalann til að heimsækja hana og bað hún um að fá að tala við Paul. En Genelle til mikillar furðu var henni sagt að það væri enginn Paul í teyminu. Þegar Genelle var útskrifuð, eftir langa sjúkrahúsverum hóf hún leitina að Paul. Hún vildi þakka honum fyrir að hafa gefið sér von þegar engin var eftir. En enginn vissi hver Paul var og björgunarmennirnir fullyrtu að það hefði engin verið nálægt Genelle þegar þeir komu til bjargar. 

Hver var Paul sem hafði vitað nafn Genelle en svo horfið sporlaust?  Genelle varð þess fullviss að ,,Paul” væri engill, sendur eftir bænir hennar um kraftaverk í rústunum. 

Leyndardómur afhjúpaður

Genelle skrifaði bók um reynslu sína ,,Angel in the Rubble”, tíu erfiðum árum síðar. Meiðsli hennar höfðu verið það alvarleg að hún náði aldrei fullum bata og minningin um veruna í turninum var aldrei langt undan. Í hvert skipti sem fjallað er um málið í fjölmiðlum sér Genelle  fyrir sér Rosu, hlaupandi niður stigann, með hönd sína í hennar.

Genelle gekk inn kirkjugólfið tveimur mánuðum eftir hryðjuverkin. Mynd/People.com-Genelle Guzman

Fjórum dögum eftir útgáfu bókarinnar bankaði slökkviliðsmaður að nafni Tom O’Brien upp á hjá Genelle. Hann sagði Genelle að hann hefði verið við björgunarstörf við turnana daginn örlagaríka ásamt félögum sínum. Einn þeirra var Paul Somin. Loksins vissi Genelle hver engillinn hennar var. Hópurinn hafði vitað það í áratug en kaus að þegja til að forðast athygli. En með útkomu bókarinnar töldu þeir félagar rétt að opinbera loksins hver Paul í raun væri.

Genelle talaði að lokum við Paul í síma. Hann hafði heldur aldrei gleymt þessum degi og stund sinn með Genelle, stund sem hæglega hefði getað orðið hennar síðasta. Hann sagði sig af og frá vera engil, bara mann sem hefði verið að vinna sína vinnu. Paul sagðist hafa heyrt rödd Genelle við leit í rústunum og kallað niður til hennar hvað hún héti og hún svarað. Áfallið sem Genelle varð fyrir þennan dag varð hins vegar til þess að hún mundi það aldrei. Paul sagðist hafa verið hjá henni í þann tíma sem tók björgunarsveitir að mæta og snúið þá til félaga sinna. Í öllum hamaganginum sem fylgdi hinni ótrúlegu björgun hafði enginn tekið eftir slökkviliðsmanninum Paul sem labbaði frá.

Gjöfin frá Paul

Þrátt fyrir allt tókst Genelle að afreka meira en nokkur hafði spáð. Fótur hennar hafði verið það illa særður að talið var að hún myndi aldrei ganga aftur en henni tókst það þó. Hún giftist kærasta sínum, Roger, og eignaðist börn en læknar höfðu talið það útilokað vegna þeirra miklu áverka sem hún hlaut. Hún vinnur enn hjá Hafnarstofnuninni og er sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. Genelle vill gefa til samfélagsins sömu gjöf og Paul gaf henni á sinum tíma:

Kærleika og von. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár